Frumvarp um málefni fatlaðra

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 15:03:19 (6892)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Það er alveg á mörkunum að ég hygg, þó ég sé ekki þingvanur maður, að það sé þingleg meðferð máls að fella það fyrst að sjö menn skuli sitja í svæðisráði og síðan að samþykkja að það skuli sitja sjö. Ég veit ekki hvað er uppnám ef þetta er ekki uppnám á þinglegri meðferð máls.
    Og það eru fleiri atriði þar sem menn hafa greinilega flýtt sér meira en hóflegt má telja eins og við atkvæðagreiðslu um ákvæði til bráðabirgða sem frá var greint hér áðan þannig að það er alveg bersýnilegt að hér var máli þröngvað svo hratt áfram að menn höfðu ekki tíma og lögðu ekki það á sig að setja sig inn í málaflokkinn. Hér hafa menn greitt atkvæði meira og minna eftir fyrirskipunum en síður eftir eigin könnun á málefnum. Það verð ég að segja því miður og hryggir mig ákaflega að menn skuli ekki hafa lagt þá vinnu í þennan málaflokk í nefnd og þingmenn almennt eins og vera skyldi og þessi málaflokkur á skilið af þingmönnum.