Skattskylda innlánsstofnana

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 15:05:37 (6893)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (frh.) :
    Virðulegi forseti. Ég hafði nánast lokið við að ræða þetta mál við hæstv. fjmrh. en ég tel jafnframt nauðsynlegt að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. landbrh. og hæstv. sjútvrh. Ég sé að hæstv. landbrh. er hér í salnum og get ég því byrjað á spurningum til hans. Hæstv. landbrh. hefur væntanlega tekið eftir því að í fskj. með nál. minni hlutans á bls. 2 --- og væri nú mikilvægt að hæstv. landbrh. fyndi þskj. því að það mundi greiða fyrir því að hann skildi spurningar mínar --- segir í greinargerð Stofnlánadeildar landbúnaðarins m.a., með leyfi forseta:
    ,,Hlutverk Stofnlánadeildar landbúnaðarins er að efla framleiðslu og framleiðni í íslenskum landbúnaði og treysta byggð í sveitum landsins. Hún veitir fjármagn til framkvæmda á sveitabýlum og til þjónustufyrirtækja landbúnaðarins, svo sem nánar er tilgreint í lögum þessum.
    Landbrh. hefur yfirumsjón þeirra mála er lög þessi taka til.``
    Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. landbrh. hvort þessi skattlagning muni þjóna

þeim tilgangi sem segir í 1. gr. laga um Stofnlánadeild landbúnaðarins og ég vildi spyrja hann um það álit Stofnlánadeildar landbúnaðarins sem kemur fram neðst á bls. 2 í minnihlutaálitinu en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,,Tillaga um afnám skattfrelsis Stofnlánadeildar verður því ekki studd með þeim rökum að jafna eigi samkeppnisstöðu hennar og annarra lánastofnana. Um jöfnun samkeppnisstöðu getur aðeins orðið að ræða ef þær kvaðir sem nú hvíla á Stofnlánadeild um lánskjör til landbúnaðar verða einnig lagðar á aðrar lánastofnanir eða þessum kvöðum verður létt af Stofnlánadeildinni.``
    Það kemur sem sagt mjög skýrt fram af hálfu Stofnlánadeildarinnar að það er þeirra skoðun sem þar starfa, m.a. þess manns sem ræddi við nefndina, sem að mínu mati er mjög vel að sér í skattamálum, einn af aðstoðarbankastjórum Búnaðarbankans, en síðan kemur fram að hér sé fyrst og fremst verið að --- ef ég vitna, virðulegur forseti og byrja þá aftur því að það kemur síðan fram efst á bls. 3, með leyfi forseta:
    ,,,,Rökin`` fyrir skattlagningu Stofnlánadeildar verða því einungis sótt í aukna tekjuþörf ríkissjóðs.``
    Ég vildi spyrja hæstv. landbrh. hvort hann sé sammála þessu mati Stofnlánadeildarinnar og þeirra manna sem annast starfsemi þessarar mikilvægu deildar, hvort að hans mati sé eingöngu verið að bæta stöðu ríkissjóðs með þessum hætti. Og ég vildi spyrja hæstv. landbrh. hvort það sé ekki mjög varasamt um þessar mundir þegar staða landbúnaðarins er eins og hann veit og þekkir manna best, að fara þá út í að skattleggja Stofnlánadeildina sérstaklega.
    Í þeirri röksemdafærslu sem fylgir frv. er verið að bera saman fjárfestingarlánasjóðina við banka og sparisjóði og láta í það skína að það eigi að vera sambærilegar skattlagningareglur annars vegar á bankana og hins vegar á fjárfestingarlánasjóðina sem eru þar að auki mismunandi sjóðir með mismunandi skyldur.
    Hér er flutt tiltölulega einfalt og illa undirbúið frv. undir merkjum samræmingar og jafnrar stöðu og öllu slegið saman í eina bendu án tillits til þess hvaða skyldur og starf sjóðirnir hafa með höndum. M.a. var Framleiðnisjóður landbúnaðarins settur í þessa kippu í upphafi. Hann hefur nú verið tekinn út úr en eftir standa sjóðir eins og Ferðamálasjóður, sem lánar til uppbyggingar ferðamála á Íslandi, og Stofnlánadeild landbúnaðarins. Það er mjög mikilvægt að fá skoðun hæstv. landbrh. á þessu máli og vita hvaða áhrif hann heldur að þetta muni hafa á starfsemi Stofnlánadeildar landbúnaðarins.
    Það kom jafnframt fram hjá þeim aðila sem mætti til nefndarinnar frá Ferðamálasjóði að hann væri þeirrar skoðunar að ríkið væri með þessu að skattleggja sjálft sig og að það mundi vissulega draga þróttinn úr starfsemi þess sjóðs. Nú er mikil uppbygging í ferðamálum í landinu og þar af leiðandi hlýtur það að vera áhugamál hæstv. samgrh. að ekki sé dregið úr því starfi.
    Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég vænti þess að hæstv. samgrh. skilji mitt mál. Ég vil spyrja hvort hann hafi gert sér grein fyrir því hvort skattlagningin muni leiða til hækkunar á vöxtum Stofnlánadeildarinnar og þá væntanlega geta orðið þess valdandi að verð á búvöru muni hækka því eins og öllum er kunnugt þurfa þeir sem greiða þessa hækkuðu vexti að koma þeim kostnaðarauka út í verðlagið sem hlýtur aftur að geta valdið samdrætti í sölu og samdrætti í búvöruframleiðslunni og eykur enn á þann mikla vanda sem menn standa þar frammi fyrir. Það þýðir afar lítið, hæstv. landbrh., að vera að hafa áhyggjur af þessum atvinnugreinum og atvinnuleysi sem þar fer vaxandi ef menn hika ekki við þessar aðstæður við að hækka álögur á mikilvægustu fjárfestingarlánasjóði sem þjóna viðkomandi atvinnugreinum sem að sjálfsögðu verða að sækja það til sinna viðskiptaaðila.
    Ég þarf líka, virðulegur forseti, að ræða þetta mál stuttlega við hæstv. sjútvrh. sem ég vænti að verði hér staddur fljótlega. ( Forseti: Forseti hefur gert ráðstafanir til að hæstv. sjútvrh. komi í salinn. --- Einhver dráttur virðist ætla að verða á því að hæstv. sjútvrh. gangi í salinn og vill forseti beina því til hv. ræðumans hvort hann geti vikið að öðrum köflum í sinni ræðu.) Ég á, hæstv. forseti, tiltölulega lítið eftir svo ég ætla að enda á því að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. sjútvrh. Ég geri mér afar vel grein fyrir því að

hæstv. ráðherrar þurfa tíma til að geta svarað þessum spurningum svo ég ætlaði mér að ljúka máli mínu fljótlega. ( Forseti: Forseti hefur fengið upplýsingar um að hæstv. sjútvrh. er skammt undan og mun koma innan tíðar.) Ég þakka fyrir það.
    Ég vil aðeins, hæstv. sjútvrh., leggja fram þær spurningar hvort hæstv. sjútvrh. hefur kynnt sér þær athugasemdir sem hafa komið frá Fiskveiðasjóði Íslands um frv. Athugasemdir Fiskveiðasjóðs eru alvarlegs eðlis. Þótt Fiskveiðasjóður Íslands hafi gert alvarlegar athugasemdir við þetta mál þegar það var fyrst flutt á Alþingi fyrir nokkrum árum síðan og varð til þess að það dagaði uppi má segja að athugasemdirnar nú séu alvarlegri en áður. Í fyrsta lagi kemur fram í þessum athugasemdum að Fiskveiðasjóður Íslands gerir ráð fyrir því að hann muni þurfa að hækka vexti á útlánum sínum um 2% sem er mjög mikil vaxtahækkun. Hefur sú væntanlega vaxtahækkun verið borin undir álit hæstv. sjútvrh. og mun hann geta staðfest það að slík vaxtahækkun eigi sér stað á útlánum sjóðsins? Nú má sjálfsagt um það deila hvort svo mikil vaxtahækkun er sjóðnum nauðsynleg. En það hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir sjóðinn að standa undir útgjöldum sínum og rýra ekki eiginfjárstöðu sína miðað við þá áhættu sem sjóðurinn er í.
    Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann hafi kynnt sér hvað að baki liggur þegar forstjóri sjóðsins segir í viðtali við Morgunblaðið nýlega, með leyfi forseta, ,,að ljóst sé að veruleg breyting á högum sjóðsins og stöðu, svo sem með gagngerri breytingu laga, geti haft áhrif á núgildandi lánasamninga milli Fiskveiðasjóðs og erlendra lánastofnana. Hætta er á að viðeigandi ákvæði lánasamnings verði notuð til gjaldfellingar lána til að fá þau greidd upp.``
    Síðan segir: ,,Ekki er heldur neinn vafi á því að erfiðara getur reynst fyrir Fiskveiðasjóð að afla nýrra lána á erlendum vettvangi nema með lakari kjörum en fengist hafa til þessa.``
    Það er mjög alvarlegt þegar slíkt er sett fram af ábyrgum aðila um hættu sem mikilvægur fjárfestingarlánasjóður stendur frammi fyrir. Slík orð hljóta að eiga sér stoð og það er ljóst að eftir slíkum orðum er tekið af þeim aðilum sem lána til viðkomandi sjóðs. Það kemur fram í þessum bréfum frá Fiskveiðasjóði, og þá vitna ég sérstaklega til bréfs sem skrifað er 22. apríl 1992, þar sem segir í 2. tölul. lið I, með leyfi forseta: ,,Skyndibreytingum er hvarvetna tekið með tortryggni.`` Svo segir: ,,Mér ber skylda til að tilkynna um allar slíkar breytingar samkvæmt svohljóðandi ákvæði lánasamnings.`` Síðan er það ákvæði skrifað hér á enskri tungu og ég ætla ekki að eyða tíma í að lesa það upp. Þetta eru mjög alvarleg atriði sem ég ætla ekki að hafa uppi neinar fullyrðingar um enda er hér um viðkvæmt mál að ræða og ég ætlast ekki til þess að hæstv. sjútvrh. svari því lið fyrir lið. En ég vil fyrst og fremst fá að vita hvort hann og hans ráðuneyti hefur rætt við forstöðumenn Fiskveiðasjóðs um þessa áhættu og hvort hún sé nú metin þannig að ekki þurfi að hafa frekari áhyggjur af henni.
    Þá eru hér einnig aðrar alvarlegar athugasemdir, sem væri mikilvægt að fá álit hæstv. sjútvrh. á, t.d. að hér sé um afturvirk ákvæði að ræða vegna þess að álagningin tekur til allra tekna á árinu 1992 þótt alllangt sé nú liðið á það ár. Þar kemur fram að hér sé verið að mismuna stofnunum. Í síðasta lagi, sem ég hafði áður vikið að og spurt hæstv. ráðherra um, að hér sé verið að íþyngja sjávarútveginum með auknum álögum. Ég vænti þess að hæstv. sjútvrh. hafi frumkvæðisskyldu samkvæmt 2. tölul. yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar þar sem hún lofar að beita sér fyrir lækkun vaxta. Ég fæ ekki séð að þetta mál geti á nokkurn hátt samrýmst þeim frumkvæðisskyldum sem ríkisstjórnin hefur þar tekið á sig.
    Það mætti margt fleira segja um þetta mál. Að lokum vil ég segja það að allar röksemdir í frv. um að þar sé verið að jafna aðstöðu milli aðila eru ekki raunhæfar. Fjárfestingarlánasjóðirnir hafa ekki heimildir til að taka við innlánum eins og aðrar peningamálastofnanir. Skyldur þeirra eru mjög mismunandi og staða þeirra er mjög mismunandi. Það er því eðlilegt að taka á málefnum þeirra í þeirri endurskoðun, sem lengi hefur farið fram og aldrei hefur verið lokið endanlega, um starfsemi þeirra. Margvíslegar yfirlýsingar hafa verið gefnar út í gegnum tíðina um að rétt sé að breyta þessum sjóðum í hlutafélög, það sé rétt að sameina þá og það er afar þýðingarmikið að einhver niðurstaða fáist í það starf.

Auðvitað hefur verið ágreiningur um það í gegnum tíðina, ekki aðeins milli stjórnmálamanna heldur miklu frekar á milli atvinnugreina og þeirra aðila sem standa að rekstri þessara stofnana. Því er það rökstutt álit minni hlutans að rétt sé að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar og vísar hann í því sambandi til þeirra rökstuddu greinargerða sem hafa verið fluttar af fjárfestingarlánasjóðunum. Við treystum því að hæstv. ráðherrar, sem sérstaklega eru ábyrgir fyrir atvinnumálum, taki tillit til þessara athugasemda og svari þeim mjög svo alvarlegu ábendingum sem koma fram af hálfu sjóðanna. Ég vil ekki trúa því að svo ábyrgir ráðherrar, sem hæstv. landbrh. og hæstv. sjútvrh. eru, láti þetta mál líða hjá án þess að fara mjög alvarlega ofan í það. Það virðist vera það andrúmsloft í þinghúsinu að þessu máli skuli bara ljúka alveg án tillits til þess hvað hefur verið sagt. Við höfðum ekki gert ráð fyrir því í stjórnarandstöðunni að það yrði mikið hlustað á okkur í þessu máli þótt við teljum nauðsynlegt að setja fram okkar skoðanir með rökstuddum hætti. En við áttum satt best að segja von á að ríkisstjórnin mundi hlusta á aðvörunarorð frá sjóðunum sjálfum og taka eitthvert tillit til sinna eigin yfirlýsinga samkvæmt því sem fram kom þegar gengið var frá kjarasamningum þar sem ríkisstjórnin lofar því að treysta undirstöður hagvaxtar og atvinnuöryggis og hafa um þetta allt saman náið samráð við aðila í atvinnulífi og aðila á fjármagnsmarkaði. Þetta mál ber þess ekki vott að þar sé vel farið af stað. Það ber vott þess að við þessa aðila sé ekkert talað, á ekkert aðvörunarorð þeirra hlustað. Ég skora á hæstv. ráðherra að endurskoða afstöðu sína í þessu mikilvæga máli og taka það til skoðunar á sumarmánuðum og endurflytja það í nýju formi eftir vandlega yfirvegun á komandi hausti. Ég vænti þess að þann tíma muni hæstv. ráðherrar nýta vel og komast að svipaðri niðurstöðu og fyrrv. fjmrh., að best sé að geyma málið í skúffu í fjmrn. sem hann segir að sé sérstaklega merkt og standi á: Óhæf frumvörp. Það er skynsamlegt að hafa slíka skúffu og ég held að það sé ljóst að þar á frv. heima.