Skattskylda innlánsstofnana

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 15:30:51 (6894)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Mér er ljúft að svara þeim spurningum sem hv. þm. lagði fyrir mig.
    Það er í fyrsta lagi að segja að sú umsögn sem efh.- og viðskn. barst frá Stofnlánadeild landbúnaðarins miðast við frv. eins og það var lagt fram en á hinn bóginn liggur ekki fyrir endurskoðað álit Stofnlánadeildar varðandi þann búning sem lögin munu væntanlega fá ef brtt. meiri hluta efh.- og viðskn. verða samþykktar. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Lögbundin framlög, sem opinberir fjárfestingarlánasjóðir skv. 1. mgr., fá frá ríkissjóði eða sveitarfélögum, sem og lögbundnar tekjur þeirra aðrar, teljast ekki til tekjuskattsstofns viðkomandi sjóðs.`` Við nefndarstörfin hefur verið tekið tillit til sérstöðu Stofnlánadeildar landbúnaðarins enda var raunar um það talað á milli mín og hæstv. fjmrh. áður en 1. umr. fór fram um frv. Því er ekki til að dreifa að Stofnlánadeild landbúnaðarins verði íþyngt með tekjuskatti. Það mun því ekki leiða til hækkunar á verði á landbúnaðarvörum. Sá baggi sem þyngstur er Stofnlánadeildinni nú er það tap og áföll sem hún hefur orðið fyrir vegna lánveitinga, einkum til loðdýraræktarinnar eins og hv. þm. er kunnugt.
    Hv. þm. spurði hvort ég teldi að frv. væri lagt fram vegna tekjuþarfar ríkissjóðs og mér er ljúft að svara honum með því að segja að vitaskuld er svo um öll tekjuöflunarfrumvörp fjmrh. Hann hefur fyrst og fremst ríkissjóð í huga.