Lífeyrissjóður sjómanna

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 23:21:28 (6967)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Aðeins til að það sé ljóst, hæstv. forseti, að það var fyrst hæstv. fjmrh. sem talaði fyrir þessu máli og það var við þá umræðu sem formaður Sjómannafélagsins og hv. 16. þm. Reykv. var ekki í húsinu. En um málflutning hans er svo sem ekki mikið að segja. Þegar útgerðin skuldar er gengið í Verðjöfnunarsjóð og alla mögulega og ómögulega sjóði. En til þess að leysa vandræði Lífeyrissjóðs sjómanna er gengið á rétt slasaðra sjómanna til að fá bætur úr sjóðnum sem þeir eru búnir að vera að borga í. Þessi málflutningur er auðvitað fyrir neðan allar hellur, einkum og sér í lagi þegar tekið er tillit til þess að það er búið að svipta sjómenn möguleikanum á að hefja töku ellilífeyris við 60 ára aldur. En þetta segir okkur ekkert annað en það að þetta er hugur hins háa Alþingis til sjómannastéttarinnar og það er þá eins gott að það sé alveg skýrt.