Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 00:52:07 (6991)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hér eru undarlegir hlutir á ferð. Það gerist upp úr hálfeitt að þingmenn Sjálfstfl. fara að beita sér fyrir því að þetta frv. verði ekki afgreitt. Hver er saga þessa frv.? Það er rætt efnislega í sjútvn. þar sem Sjálfstfl. fer með forustu, þ.e. hv. þm. Matthías Bjarnason, síðan er frv. flutt og 1. flm. er þingmaður Sjálfstfl., Árni R. Árnason. Í frv. er lagt til að fela sjútvrh. Sjálfstfl. að setja reglur um málið. Við hinir stóðum í þeirri góðu trú að þetta væri einfalt samkomulagsmál. En þá rísa upp þingmennirnir Árni Johnsen og Björn Bjarnason og síðan bætir um betur hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson og leggjast gegn þessu frv. Hvað er að gerast innan Sjálfstfl. í þinginu? Samkvæmt öllum eðlilegum reglum hefði þingflokkur Sjálfstfl. átt að vera sá flokkur sem styddi þetta frv. því það á sér uppruna í nefnd þar sem hann fer með forustu og 1. flm. frv. er þingmaður flokksins. Var þessu máli ekki veitt blessun í þingflokki Sjálfstfl. áður en það var lagt fram? Það er nú venja hér í þinginu. ( ÖS: Þetta er sögulegt mál.) Það er alla vega mjög undarlegt, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, og maður veltir því fyrir sér hvað liggi á bak við. Menn hafa verið að leiða líkum að því að það kunni að vera einhver valdabarátta innan Sjálfstfl. og vantraust í garð hæstv. sjútvrh. og hv. þm. Árni Johnsen geti ekki unað sjútvrh. þess að setja reglur um málið, hann þurfi sérstaklega að beita sér fyrir því að sjútvrh. Þorsteinn Pálsson fái ekki þessa heimild. Það er afar óvenjulegt að menn beiti sér þannig gagnvart samflokksmanni sínum úr manns eigin kjördæmi sem er þar að auki ráðherra fyrir flokkinn.
    Síðan kemur upp Björn Bjarnason, varaformaður þingflokks Sjálfstfl. og einn af forsetum þessa þings, og fer að spóla málinu enn frekar. ( Gripið fram í: Er ekki best að fresta þessu bara?) Nei, ég tel ekki rétt að fresta þessu, ég tel rétt að ljúka þessu og óska eftir því að Sjálfstfl. leysi sín innanflokksvandamál í sínu þingflokksherbergi, en komi ekki með þau upp í þingsalinn og trufli okkur hina. Umræða um iðnaðarmál átti að hefjast fyrir rúmum hálftíma en hún hefur ekki getað hafist vegna þess að þingmenn Sjálfstfl. hafa verið að tefja mál með innanflokksdeilum sínum hér í þingsalnum. Ég vil mælast til þess við þingmenn Sjálfstfl. að þeir láti af þessari sérkennilegu baráttu, hvort sem hún er valdabarátta innan Sjálfstfl. eða eitthvað annað og leyfi okkur hinum að halda hér áfram með að hleypa málum í gegnum þingið.