Þróun íslensks iðnaðar

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 02:27:48 (7006)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég skal reyna að vera ekki langorður þótt margt hafi verið sagt sem ástæða væri að víkja að. Ég vil fyrst þakka ýmis jákvæð ummæli sem hafa fallið um þessa skýrslu, enda þótt sumir þeir sem hér hafa talað hafi kosið að sjá þar ekkert nema svartnætti.
    Hv. þm. Finnur Ingólfsson talaði um stórfelldan samdrátt og stöðnun og gagnrýndi einnig að hér væri fjallað um 20 ára tímabil þar sem hefði verið hraksmánarlega farið með iðnaðinn. Þar hefði lítill metnaður komið við sögu, hins vegar hefði núv. hæstv. iðnrh. verið um einum of metnaðarfullur.
    Ég minni hv. þm. á að þau 20 ár sem hér er um fjallað hefur flokkur hans, Framsfl., verið í ríkisstjórn allan tímann og oftar en ekki haft stjórnarforustuna á hendi. Hins vegar hefur núv. iðnrh. aðeins gegnt því starfi í fimm ár. Þannig að það er kannski ekki einhlítt hverjum er um að kenna ef kenna á einhverjum um.
    Hv. þm. bar fram þrjár spurningar. Ég viðurkenni að ég hefði kannski viljað hafa svolítið betri frest og aðdraganda til að svara þeim. Hann spurði um tekjuskattinn. Því er til að svara að það er að störfum sérstök Evrópuskattanefnd sem vinnur að athugun þessara mála gagnvart skattlagningu fyrirtækja eins og ég hygg að hv. þm. viti. Hún hefur ekki lokið störfum.
    Í öðru lagi spurði hann um hvort það ætti að leggja niður aðstöðugjaldið. Ég hygg að hann viti raunar líka að á vegum félmrh. er starfandi nefnd að athugun þess máls.
    Þriðja spurning hans var um vörugjaldið, hvort ætti að leggja það niður. Ég er ekki tilbúinn að

svara því en bendi hins vegar á að víða er í vaxandi mæli verið að taka upp vörugjöld í stað tolla.
    Hv. þm. var nokkuð tíðrætt um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja sem hann taldi bjargráðaleið en mér sýnist nú, eins og hann fjallaði um þau mál, að þá hafi sú fjárhagslega endurskipulagning einkum átt að felast í því að fé væri greitt úr ríkissjóði til styrktar eða viðreisnar fyrirtækjum. Ég held að það hafi ekki gefist okkur vel og ég held það séu ekki tímar eða staða til þess að auka þess konar aðstoð.
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir vék nokkuð að álveri á Keilisnesi og ræddi umhverfisþátt þeirra fyrirhuguðu framkvæmda. Ég ætla ekki að hafa um það langt mál en segja einfaldlega að flest af því sem hún sagði um þau efni er rangt, að mínu mati. Lögð hefur verið fram í þinginu skýrsla frá umhvn. um þau efni þar sem ýmislegt er missagt.
    Ég verð að viðurkenna að þegar talað er um orkufrekan iðnað sem erlenda iðju en ekki íslenskan iðnað þá er ég ósammála þeirri túlkun vegna þess að orkufrekur iðnaður hér byggir á íslenskri orku og íslenskum auðlindum þess vegna.
    Ýmsir ræðumenn hér hafa mjög talað um hið Evrópska efnahagssvæði og það sem fram undan væri þar. Auðvitað bindum við vonir við það. Við bindum vonir við það að þar gefist íslenskum iðnaði aukin sóknarfæri, einkum úrvinnsluiðnaði í sjávarútvegi. Við höfum gildar ástæður til að ætla að svo muni verða.
    Hv. þm. hafa líka minnst á aðild okkar að EFTA. Nú er það auðvitað alkunna að Alþb. barðist mjög harkalega gegn aðild okkar að EFTA og það gerði raunar stór hluti Framsfl. líka á sínum tíma. Skömmu eftir að Íslendingar gerðust aðilar að EFTA áttu þessir flokkar þess kost að stíga til baka og gera ráðstafanir til þess að Íslendingar hættu aðild að þessum fríverslunarsamtökum. Þeir gerðu það ekki og ég hygg að við getum raunar verið sammála um að aðildin að EFTA hafi verið okkur til góðs og það væri í rauninni erfitt að hugsa sér stöðu íslensks iðnaðar í dag ef við hefðum valið þá leið að vera utan EFTA. Ég hygg, þrátt fyrir það sem fulltrúar þessara flokka nú segja, að ekki sé um það ágreiningur að öll þau skref sem undanfarna áratugi hafa verið stigin til þess að auka frelsi í verslun og viðskiptum á Íslandi hafi verið til góðs enda þótt úrtölumennirnir hafi haldið langar ræður um það að allt mundi verða hér á hverfanda hveli ef höftunum yrði aflétt. Það hefur ævinlega verið bæði almenningi og efnahagslífinu öllu til góðs þegar höftum hefur verið aflétt.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta til viðbótar. Það er auðvitað rétt að íslenskum iðnaði hefur vegnað misjafnlega eftir greinum á umliðnum árum og þar hefur ekki verið eingöngu við aðgerðir stjórnvalda hér að sakast eða þeim um að kenna heldur er heimurinn orðinn svo samtengdur efnahagslega að það sem gerist annars staðar hefur áhrif hér, fljótar og meira en áður. En ég minni á að þegar stigið var það skref að veita t.d. innflutning á sælgæti frjálsan var því spáð héðan úr þessum ræðustóli af fleiri en einum og fleiri en tveimur að nú væri úti um þessa iðngrein á Íslandi. Ekkert slíkt hefur gerst. Þvert á móti er íslenskur sælgætisiðnaður ein af þeim greinum sem hefur dafnað mjög vel, sýnt frumkvæði í vöruþróun og hefur staðið sig mjög vel. Sama gildir um ýmsar aðrar greinar í matvælaiðnaði og auðvitað hefur þetta verið að hníga í þá átt að við erum að sérhæfa okkur í matvælaiðnaði þar sem við stöndum betur að vígi en aðrar þjóðir um margt. Þetta er eðlileg þróun, þetta er jákvæð þróun og þetta er vonandi þróun sem heldur áfram.
    Ég held, virðulegi forseti, að ég láti þetta nægja að sinni, það gefst kannski tækifæri til að bæta við þótt áliðið sé orðið í þessari umræðu.