Þróun íslensks iðnaðar

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 02:40:41 (7008)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það var vegna þess sem hæstv. starfandi iðnrh. sagði um EFTA-aðildina á sínum tíma og að allir gætu verið sammála um það núna að vel hefði til tekist. Dómur íslenskra iðnrekenda er reyndar annar því að í ályktun frá því í mars í vetur frá þeim stendur m.a., með leyfi forseta: ,,Ekki hefur tekist að efla almennan útflutningsiðnað. Hlutur hans í heildarútflutningi er svipaður og hann var fyrir 20 árum`` --- reyndar kemur þetta fram í skýrslunni --- ,,og síðustu fjögur árin hefur ríkt nær alger stöðnun í þjóðfélaginu. Þetta er vert að rifja upp þegar við stöndum á þröskuldi Evrópska efnahagssvæðisins sem að sumu leyti má líkja við inngönguna í EFTA á sínum tíma. Fyrirheit um bætt starfsskilyrði iðnaðarins við aðildina að EFTA hafa ekki enn verið efnd að fullu.``
    Þetta er dómur íslenskra iðnrekenda um þetta síðasta 20 ára tímabil undir EFTA-aðildinni og síðustu fjögur árin undir hæstv. núv. iðnrrh.