Skattskylda innlánsstofnana

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 03:26:54 (7019)

     Ólafur Ragnar Grímsson (frh.) :
    Virðulegur forseti. Það var held ég um miðjan dag í gær að ég ætlaði að bera nokkrar spurningar upp við hæstv. forsrh. Vegna fjarveru hæstv. forsrh. varð að gera hlé á ræðu minni. Ég ætlaði ekki að tala lengi. Nú hefst umræðan á nýjan leik án þess að hæstv. forsrh. sé í salnum og ég spyr nú: Til hvers er verið að þessu öllu saman? Umræðunni var frestað fyrir tæpum hálfum sólarhring síðan vegna þess að hæstv. forsrh. gat ekki verið við umræðuna en nú er henni haldið áfram án þess að hæstv. forsrh. sé við umræðuna.
    Ég verð þess vegna að byrja á að spyrja hæstv. forseta: Er hæstv. forsrh. væntanlegur? Ég hafði satt að segja reiknað með að stjórn þingsins áttaði sig á því að þegar hún frestar umræðu vegna þess að hæstv. forsrh. er fjarverandi þá sé það forsenda þess að hægt sé að halda áfram að hann komi til umræðunnar. --- Hæstv. forsrh. hefur nú gengið í salinn. Hins vegar er það ekki nema takmörkuð lausn á þessu vandamáli að hæstv. forsrh. komi í salinn vegna þess að til þess að reyna að greiða hér fyrir störfum, þótt það sé yfirleitt ekki þakkað mikið af hæstv. ríkisstjórn, var samið um að reyna að ljúka umræðum um kl. þrjú í nótt. Klukkan er núna hálffjögur. Hins vegar var það þannig eftir miðnættið að þingmenn Sjálfstfl., varaformaður þingflokks Sjálfstfl., Björn Bjarnason, hv. þm. Árni Johnsen og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson tóku upp innanflokksdeilur í Sjálfstfl. og tóku rúman hálftíma í það. Það var ekki samið um það á milli þingflokkanna, hæstv. forsrh., að innanflokksdeilur í Sjálfstfl. tækju hér rúman hálftíma af dýrmætum tíma og sérstaklega ekki að varaformaður Sjálfstfl. væri einn aðalhöfuðpaurinn í því. En það gerðist nú engu að síður. Ef það hefði ekki gerst hefðum við getað byrjað hér fyrir kl. þrjú. ( ÖS: Það var hálftímans virði.) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson segir að það hafi verið hálftímans virði. Ég get vel skilið að formaður þingflokks Alþfl. vilji gjarnan sjá átök á fleiri bæjum en heima hjá sér og honum hefur vissulega orðið að þeirri ósk sinni.
    Ég hafði ætlað mér að fara í nokkrar efnislegar umræður við hæstv. forsrh. um samhengið í því sem ríkisstjórnin er að biðja þingið að gera. Annars vegar er ríkisstjórnin að biðja þingið að samþykkja frv. um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins til að létta skuldabyrði af sjávarútveginum til þess að styrkja atvinnuástandið í landinu eins og hæstv. forsrh. hefur sagt í fjölmiðlum. Á hinn bóginn er ríkisstjórnin hér dag eftir dag að biðja um að þetta frv. verði samþykkt sem mun þyngja byrðarnar á sjávarútveginum. Og satt að segja er það þannig að verði frv. samþykkt hafa á þessu fyrsta þingi verið lagðar skattabyrðar á sjávarútveginn í kringum einn milljarð. Síðan á að greiða út úr Verðjöfnunarsjóðnum rúma 2 milljarða kr., þar af u.þ.b. helminginn vegna þessa milljarðs sem ríkisstjórnin hefur lagt í álögur á sjávarúrveginn í vetur. Ég verð að segja eins og er að ég skil ekki þessa atvinnupólitík.
    Ég hafði líka ætlað að ræða við hæstv. forsrh. um samhengið í því sem hann er búinn að segja hér í allan vetur að hans ríkisstjórn stjórni bara með almennum aðgerðum en fyrrv. ríkisstjórn hafi stjórnað með sértækum aðferðum. Ég sé ekki betur en hæstv. ríkisstjórn sé komin á kaf í sértækar aðgerðir í atvinnumálum og hafi líklegast, þegar allt er lagt saman, beitt sér fyrir sértækum aðgerðum gagnvart sjávarútveginum í formi sjóðaæfinga fram og aftur, hátt á fimmta milljarð í vetur. Það hefði einhvern tímann verið kallað sjóðasukk af hæstv. forsrh. og talsmönnum Sjálfstfl. Það er augljóst að fyrirtækjum í sjávarútvegi er mjög mismunað með frv. um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins og með þeirri lengingu lána sem átt hefur sér stað í Atvinnutryggingarsjóði.
    Þetta var ætlun mín að reyna í stuttri umræðu að ræða við hæstv. forsrh. að reyna að fá eitthvert samhengi í þetta allt saman. Ég ætlaði líka að reyna að fá eitthvert samhengi í það hvernig stendur á því að Sjálfstfl., sem gerði það að kröfu í desember 1988 að frv. um sama efni og við erum að ræða nú yrði lagt til hliðar, það var frumkrafa Sjálfstfl. til að hægt væri að ljúka þingstörfum fyrir jólin 1988 --- nú snýr Sjálfstfl. við blaðinu og segir: Það er frumkrafa Sjálfstfl. að þetta frv. sé afgreitt núna sem lög til að hægt sé að ljúka þinginu. Ég vil aðeins spyrja: Hvert er samhengið í þessari afstöðu? Mig hefði langað líka til að beina umræðunni nokkuð inn á aðra valkosti í skattamálum vegna þess að ég sé að hæstv. fjmrh. hefur auðvitað fyrst og fremst áhuga á þessum málum út frá hagsmunum ríkiskassans.
    Ég veit satt að segja ekki, virðulegi forseti, hvað á að gera í þessu nú þegar klukkan er orðin hálffjögur. Ég er nefnilega settur í þá erfiðleika að ef ég fer að tala hér lengi þá mun ég örugglega fá það framan í mig að ég sé að svíkja eitthvert samkomulag, hér hafi verið gert samkomulag um að ljúka umræðunni fyrir kl. þrjú. En ef ég rek í stuttu máli afstöðu mína til þessa frv., sem ég á töluverðan þátt í vegna þess að ég flutti frv. upphaflega árið 1988 og það fannst svo í skúffu í fjmrn. þegar ég fór þaðan og var dregið hér inn í þingið af sjálfstæðismönnum, þá verð ég sakaður um að vera að svíkja hér eitthvert samkomulag. Það er satt að segja mjög erfitt að vera settur í svona stöðu. Ég get ekki talað eins og mér finnst nauðsynlegt, ég get ekki gengið á eftir því við forsrh. eins og mér finnst nauðsynlegt vegna þess að þá stefni ég því í hættu að fá á mig ásakanir frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem stendur í dyrunum og nikkar ákaft og samþykkir að ég muni fá á mig þær ásakanir. ( ÖS: Þú átt sem sagt bágt.) Já, ég á nokkuð bágt, hv. þm., í þessu máli. Það er mér ekkert gamanmál vegna þess að það eru ýmsir efnisþættir í þessu sem eru það alvarlegir að auðvitað verður að fást skýring á þeim.
    Af því að ég kýs frekar í þessari stöðu að fara þá frá efnisumræðunni að sinni ætla ég ekki að taka hér tíma í að fara yfir það, sem ég hafði ætlað mér síðdegis í gær að fara yfir, til að fá ekki ásakanir frá forustumönnum ríkisstjórnarliðsins um að ég sé að svíkja eitthvert samkomulag. Þar að auki er það nú þannig að hæstv. fjmrh. á eftir að svara hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni og einhverjir eru fleiri hér á mælendaskrá. Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að hafa mál mitt lengra nú en áskil mér fullan rétt til að taka þessa efnisþætti upp við 3. umr. og óska þá eftir því að fá svör frá hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. Ég mun sem sagt ekki gera kröfu til þess að hæstv. forsrh. svari mér hér og nú, vil taka það skýrt fram, en ég mun ganga eftir því við 3. umr. að svo verði gert.