EES-samningurinn og fylgiefni hans

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 11:04:05 (7030)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Vegna ummæla hæstv. utanrrh. áðan er óhjákvæmilegt að árétta það að í bréfi, sem allir þingflokkar stjórnarandstöðunnar sendu hæstv. ríkisstjórn fyrir nokkrum vikum síðan, var knúið á um það að skýr svör fengjust við því hvenær hæstv. ríkisstjórn hygðist leggja fram á Alþingi tæmandi lýsingu á öllu því regluverki Evrópska efnahagssvæðisins sem á að fá lagagildi, og ég legg áherslu á það, lagagildi á Íslandi með samþykkt samningsins. Einnig var í því bréfi óskað eftir því að gerð yrði grein fyrir hvenær og í hvaða formi lagt yrði fram efnisyfirlit og lýsing á dómsúrskurðum Evrópudómstólsins sem einnig fá lagagildi, og ég legg aftur áherslu á það, lagagildi á Íslandi samkvæmt því frv. um samning sem hér er lagt fram. Það er auðvitað ekki unnt fyrir Alþingi Íslendinga að samþykkja samning þar sem lýst er yfir að mikið safn reglna og dómsúrskurða fái lagagildi sem er æðra lagasetningarvaldi Alþingis á Íslandi án þess að það sé lagt fyrir Alþingi Íslendinga. Það væri álíka og hæstv. utanrrh. kæmi með lokaðan kassa hér inn á borðið og segði við Alþingi: Alþingi á að lögfesta það sem í þessum kassa er en hann verður ekki opnaður.
    Þess vegna óskuðu allir þingflokkar stjórnarandstöðunnar eftir því að þetta efni yrði lagt fram á Alþingi Íslendinga og þetta efni er fimm sinnum meira að vöxtum en það sem hæstv. utanrrh. hefur lagt fram hér í dag.
    Ég vil árétta þetta vegna fyrirspurnar hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, til þess að hæstv. utanrrh. geri sér grein fyrir því að þetta er ekki einungis ósk hv. þm., að þetta er formleg ósk sem hefur komið frá

þingflokkum allra stjórnarandstöðuflokkanna í formlegu bréfi til ríkisstjórnarinnar fyrir nokkrum vikum síðan. Og hæstv. utanrrh. getur ekki ætlast til þess að í sumar fari Alþingi að vinna að samningi þar sem hann hefur aðeins lagt fram eitt box af fimm á borð þingmanna. Hin boxin fjögur eru ekki lögð fram og Alþingi fær þau ekki til meðferðar.
    Þess vegna er mikilvægt að hæstv. utanrrh. svari því, verður þetta efni lagt fram núna á næstunni áður en þing kemur saman í ágúst eða er það virkilega ætlun hæstv. utanrrh. að leggja þessi fjögur box, svo að ég noti það orðalag, ekki fyrir þingið. Þingið eigi að veita þeim lagagildi á Íslandi án þess að skoða í þau og án þess að þau séu til á íslenskri tungu, þannig að almenningur á landinu og hagsmunaaðilar hafa enga möguleika til að skoða hvað verður æðra íslenskum lögum eftir gildistöku EES-samningsins. Svona vinnubrögð duga auðvitað ekki, hæstv. utanrrh.
    Ég vil einnig vekja athygli á því, sem undrar mig, að hér er lagt fram frv. um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Það frv. er í raun og veru bara ein blaðsíða. Það er það sem Alþingi á að samþykkja. Það er ein blaðsíða. En í þessu frv. er hvergi vikið að sjávarútvegssamningi Íslands og Evrópubandalagsins. Hann er sem sagt ekki hluti af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði eins og hann er lagður fyrir Alþingi Íslendinga. Hann er bara einhvers staðar annars staðar algjörlega utan við þetta þingskjal og þetta frumvarp. Er það virkilega þannig að þegar þetta mál kemur til Alþingis Íslendinga þá sé samningurinn um sjávarútvegsmál, sem var aðalatriði málsins, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár af hálfu hæstv. utanrrh., ekki til í þingskjalinu? Og svona til málamynda er dreift með einhverri greinargerð en samningurinn um sjávarútvegsmál, sem hæstv. sjútvrh. hefur sagt þjóðinni lon og don í tvö ár að sé aðalatriði málsins, er einfaldlega ekki með. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. utanrrh.: Er það virkilega þannig að þingbúningur EES-samningsins verði á þann veg að í sjálfu frv. er hvergi vikið að samningnum um samvinnu í sjávarútvegsmálum milli Íslands og Evrópubandalagsins?