Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 12:51:48 (7051)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Málflutningur hv. 8. þm. Reykn. er nokkuð sérkennilegur í þessu máli. Það fer hv. þm. heldur illa að tala um mótsagnir af hálfu annarra eftir að hafa flutt slíka ræðu sem hann hefur gert í þessari umræðu, þyrlað upp moldviðri sem í raun beinist gegn því máli sem hér er til umræðu en ítrekar svo enn og aftur stuðning síns eigin flokks við aðgerðina.
    Ég vil líka rifja upp, vegna þess að hv. þm. var að gera samanburð við þær aðgerðir sem nú eru til umræðu og þær ráðstafanir sem hæstv. síðasta ríkisstjórn stóð fyrir í þágu sjávarútvegsins, að þá var á það deilt að þær væru að talsverðum hluta sértækar aðgerðar. Ég minnist þess að enginn stóð jafnoft upp og varði þær aðgerðir sem almennar aðgerðir eins og þáv. fjmrh., núv. hv. 8. þm. Reykn. Ég minnist þess aldrei að hann hafi á þeim tíma viðurkennt að sú ríkisstjórn hafi staðið fyrir sértækum ráðstöfunum. Svo kemur hann allt í einu nú og segir að allt það sem þá hafi verið gert hafi verið sértækt. Þetta eru í meira

lagi miklar mótsagnir sem mér sýnist að þjóni ekki miklum tilgangi í umræðum um það mál sem hér er verið að fjalla um og mjög góð sátt og samstaða hefur tekist um hér á Alþingi milli stjórnarflokka og stjórnarandstöðu og ég ítreka þakkir mínar í því efni, m.a. til þingmanna Alþb.
    Það hefur margsinnis komið fram af hálfu núv. ríkisstjórnar að hún leggur megináherslu á að treysta rekstrargrundvöll atvinnufyrirtækjanna í landinu með almennum ráðstöfunum í efnahagsmálum. Það hefur margsinnis komið fram að þungamiðja í þeirri baráttu hefur verið að ná tökum á ríkisfjármálunum, draga úr lánsfjáreftirspurn ríkisins, minnka þrýsting á vexti og ná þannig raunverulegum árangri í að lækka raunvextina. Það er óumdeilt, hv. 8. þm. Reykn., að þessi barátta hefur skilað þó nokkrum árangri og almennir vextir eru nú lægri en þegar ríkisstjórnin tók við og raunvextir hafa verið að lækka að undanförnu. Þetta er afleiðing af almennum ráðstöfunum í efnahags- og peningamálum. Það hefur á hinn bóginn aldrei verið dregin dul á það að samhliða ráðstöfunum af þessu tagi yrði að grípa til sérstakra almennra ráðstafana til að mæta þeim sérstaka vanda sem útflutningsstarfsemin stendur frammi fyrir. Fyrir þá sök samþykkti ríkisstjórnin tillögu þess efnis að fresta afborgunum af lánum í Atvinnutryggingarsjóð og beita sér fyrir því að sams konar aðgerð yrði framkvæmd hjá Fiskveiðasjóði. Hér er ekki verið að hlutast til um málefni einstakra fyrirtækja heldur að taka ákvarðanir um almenna reglu um skuldbreytingu sem gildir gagnvart öllum þeim sem þar eiga hlut að máli án þess að ríkisstjórn sé að draga þau fyrirtæki í dilka. Nákvæmlega það sama og nú þegar tekin er ákvörðun um að beita útgreiðslum eða forsendu fyrir útgreiðslu úr Verðjöfnunarsjóði. Þá fer sú útgreiðsla fram í réttu hlutfalli við það sem einstök fyrirtæki hafa greitt inn með nákvæmlega sama hætti og orðið hefði ef til útgreiðslu hefði komið vegna verðfalls. Nú er útgreiðslan ákveðin vegna annarra áfalla í sjávarútveginum, eins og hæstv. forsrh. hefur hér bent á, og í raun verið að gera þennan sveiflujöfnunarsjóð eða forsendur hans víðtækari. Útgreiðslan fer fram með sama hætti og orðið hefði að óbreyttum lögum þannig að hvert fyrirtæki fær greitt út í samræmi við það sem það hefur greitt inn. Þar er ekki um að ræða neinar sértækar ráðstafanir gagnvart einstökum fyrirtækjum. Vitaskuld er hér um stjórnmálalega ákvörðun að ræða. Það var líka stjórnmálaleg ákvörðun þegar þessi sjóður var settur á fót. Það var stjórnmálaleg ákvörðun sem hafði hins vegar almenna skírskotun gagnvart einstökum fyrirtækjum.
    Hv. 14. þm. Reykv. tók til máls í umræðunni í gær og kom fram með þá athugasemd að hún hefði kosið að fara í þetta mál með öðrum hætti. Það væri óeðlilegt að standa að málum eins og frv. gerir ráð fyrir. Það hefði verið rétt að skoða reikninga hvers einstaks fyrirtækis áður en ákvörðun væri tekin um útgreiðslu til þess. Ef farið hefði verið að þessum ráðum eins af þingmönnum Alþb. hefði verið hægt að tala um að hér væri um sértækar aðgerðir að ræða gagnvart einstökum fyrirtækjum. En það hefur ekki verið gert og því vísa ég á bug þeim ásökunum sem fram hafa komið í ræðu hv. 8. þm. Reykn. að þessu leyti. Ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti aldrei dregið dul á nauðsyn þess, auk almennra ráðstafana í efnahags- og peningamálum, að taka á með sérstökum hætti vegna þess vanda sem er í sjávarútveginum. Það hefur verið gert með ýmsu móti á síðustu mánuðum og m.a. með frv. sem hér liggur fyrir.