Málefni fatlaðra

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 15:14:45 (7068)

     Guðjón Guðmundsson (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. 5. þm. Vesturl., Kristinn H. Gunnarsson, hefur ítrekað við 2. og 3. umr. um þetta mál lýst því yfir að ákveðnir hagsmunaaðilar hafi ekki fengið að koma á fund félmn. Nú mættu þessir aðilar á fundinn í morgun að beiðni þingmannsins og aðspurðir upplýstu þeir að þeir hefðu leitað eftir fundi meðan formaður nefndarinnar, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, var erlendis. Þar sem ég gegndi formannsstöðu í nefndinni þessa þrjá daga sem hún var erlendis og stýrði einum fundi vil ég upplýsa það að beiðni frá þessum samtökum kom aldrei á mitt borð og ég hafði ekki heyrt um hana fyrr en í gær að þessir aðilar hefðu beðið um fund. Ég verð að segja það að þar sem formaðurinn var ekki erlendis nema þrjá daga hefði þessum aðilum verið það í lófa lagið að hafa samband við hana þegar hún kom heim aftur ef þeir vildu ekki tala við varaformanninn.
    Ég vil líka taka það mjög skýrt fram að það hefur örugglega engum verið synjað um að koma á fund félmn., hvorki út af þessu máli eða öðru í vetur. Formaður nefndarinnar hefur alltaf leitað eftir því við nefndarmenn og spurt þá hvort þeir óskuðu eftir því að fá einhverja til viðræðna um þau mál sem hafa verið á dagskrá hjá nefndinni. Kannski hefur það verið svo í þessu máli að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi ekki verið á fundi nefndarinnar þegar það gerðist. Ég man ekki betur en formaðurinn hafi ítrekað þetta tvisvar eða þrisvar sinnum en menn eru ekki alltaf við. Hafi þingmaðurinn haft einhverjar óskir um að fá tiltekna aðila til viðræðna átti hann að sjálfsögðu að koma þeim á framfæri við formann nefndarinnar og ég er ekki í vafa um það að hún hefði orðið við því að kalla menn til viðræðna.
    Ég vil líka láta það koma skýrt fram, vegna þess að mér finnst formaður nefndarinnar hafa orðið hér fyrir dálítið ómaklegum ásökunum, að mér finnst að hún hafi sýnt mjög mikinn samstarfsvilja í þessari nefnd í vetur og eigi alls ekki skilið annað en allt það besta frá nefndarmönnum og hafi virkilega lagt sig fram um að störf nefndarinnar gengju vel fyrir sig og þar væri gott samkomulag.
    Ég vil bara að lokum fagna þeirri miklu samstöðu sem náðst hefur um þetta mál og að átta af níu nefndarmönnum skuli standa að frv., eins og það er í dag. Ég tel að frv. sé miklu betra, eins og það lítur út núna, en það var þegar það var lagt fram og það er árangurinn af starfi nefndarinnar.