Málefni fatlaðra

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 16:48:05 (7080)

     Frsm. minni hluta félmn. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Nú er senn komið að lokum umræðu um þetta mikla mál. Umræður hafa orðið betri en ég átti von á fyrir fram, þessar umræður við 3. umr. málsins. Þær hafa í meginatriðum einkennst af því að ræðumenn hafa haft mikinn áhuga á málaflokkinum og haft verulegan vilja til þess að búa þannig um lagasetninguna að hún sé sem best.
    Ég hef ekki séð að neinn ágreiningur væri uppi um meginmarkmiðin og ekki neinn ágreiningur eða áherslumunur um það að menn ættu að vinna að sem mestri kostgæfni að gerð frv. Ég er því ósammála því sem fram kom hjá hv. 3. þm. Vestf., sveitunga mínum. Að vísu tók ég orð hans ekki mjög nærri mér, ég er vanur orðræðum af þessu tagi úr minni sveit og mér fannst ég vera kominn heim um stund þegar ég hlýddi á fyrri hluta ræðu hans. Ég vil því bara þakka honum fyrir að minna mig á mína heimabyggð með ræðu sinni.
    Það sem upp úr stendur í frv. eru fáein atriði. Það er ljóst og verður ekki í móti mælt að jafnvel þótt nefnd hafi verið að störfum í tvö ár við að vinna að frv. þá er það fjarri því að vera þannig úr garði gert að þegar löggjafarsamkoman tekur það til sín geti hún einfaldlega tekið við því með vinstri höndinni og rétt það út um næsta glugga með þeirri hægri. Það bera brtt. vott um því af þessum 80 brtt. er bróðurhlutinn lagður fram af meiri hluta nefndarinnar. Það hefur ekki verið mikill ágreiningur um vel flestar tillögurnar, t.d. höfum við stutt þær nánast allar, þótt það hafi hins vegar ekki verið gagnkvæmt í þessum brtt. öllum.
    Vandamálið er það að menn hafa haft of skamman tíma. Rúmir tveir mánuðir í praktíska vinnu í verkefninu er of skammur tími til þess að komast frá því og ég er alveg sannfærður um að ýmsir agnúar eru á frv. Ég var búinn að skrifa upp af nokkrum blöðum ýmsar spurningar og athugasemdir sem ég hugðist bera undir nefnina á nefndarfundi í morgun, ásamt hugmyndum að brtt. sem ég hafði þá sett saman. En því miður var hvorki gefið færi á því í nefndinni að sýna tillögurnar né ábendingarnar sem ég hef tekið niður. Ég hygg því að menn hafi verið komnir í þvílíka úlfakreppu varðandi vinnu að þessu máli að það var ekki einu sinni hægt að gefa nokkrar mínútur til yfirferðar á þeim punktum.
    Ég vil ekki lengja umræðuna með því að draga þau atriði fram, ég hef þau hjá mér. Auðvitað er málinu ekki lokið þó að það sé afgreitt frá þinginu. Í mínum huga er mikil vinna eftir enn því það er eins og fram kom hjá hv. 2. þm. Vesturl. að það kemur innan tíðar að því að sveitarstjórnir taka við þessu og menn eru farnir að sjá það handan við sjóndeildarhringinn að það stefnir í þá átt. Menn vita af því að væntanlegar eru tillögur í haust um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og þó það sé enn of snemmt að spá um hvað þær muni fela í sér þá er það ljóst að breytingar munu verða á verkaskiptingu varðandi þennan málaflokk.
    Mér finnst menn hafa flýtt sér of mikið með tilliti til þessa atriðis og búnaðar frv. og enn fremur hins sem er kannski meginatriðið að frv. hefur ekkert praktískt gildi fyrir þá sem á þurfa að halda fyrr en við næstu fjárlög. Það er, eins og ítrekað hefur verið tekið fram, ekki fimmeyringur í fjárlögum þessa árs til að mæta þeim réttindum sem felast í frv., alla vega ekki þeim kafla sem lýtur að því sem ríkið á að borga. Það er spurning hvort fatlaðir geti gert kröfu á sveitarfélög við gildistöku laganna, að þau uppfylltu lögin að því marki sem lögin víkja að sveitarfélögunum.
    Meginágreiningurinn milli mín og meiri hluta nefndarinnar og hæstv. félmrh. var um stjórnunarþáttinn. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að málaflokkurinn eigi að fara til sveitarfélaga og ég er eindregið þeirrar skoðunar að framkvæmd og verkstjórn málaflokksins eigi að vera í höndum heimamanna undir yfirstjórn ráðuneytisins sem er sama skipan og verið er að ganga frá í frv. til laga um vernd barna og ungmenna og ég gæti tínt til fleiri lög, t.d. lög um félagsþjónustu sveitarfélaganna þar sem þessi stjórnsýsluskipan er í löggjöf, nýlegri og væntanlegri.
    Nú er búið að afgreiða þennan ágreining með atkvæðagreiðslu svo hann er að baki og eftir það liggja leiðir saman sýnist mér. Þótt ég sé sannfærður um að mitt sjónarmið muni koma fram fyrr en síðar, eins og reyndar hv. 2. þm. Vesturl. Ingibjörg Pálmadóttir vék að, en hún er einmitt vel kunnug sveitarstjórnarmálum og þeirri gerjun sem þar er.
    Ég vil benda á að í norrænni löggjöf hefur þróunin verið í þá átt að sérlögin væru afmarkaðri og þau næðu yfir minni hóp. Við erum að ganga til öfugrar áttar með því að láta sérlögin verða víðtækari og ná yfir stærri hóp. Við erum líka að ganga til annarrar áttar en frændur okkar á Norðurlöndum hvað það varðar að þeir eru búnir að færa verkefnin yfir á sveitarfélög en við erum að færa verkefnið yfir á ríkið og valdsstjórnina að öllu leyti, undir beina boðleið ráðuneytisins sem er alveg þveröfugt við það sem grannar okkar hafa gert.
    Ég vil upplýsa það, svo menn viti að því, að ég óskaði eftir því í upphafi í nefndinni að fá norsku löggjöfina um þessi mál, en fékk þau svör nokkuð löngu síðar að hún væri ekki til. Ég reyndi fyrir mér næst í félmrn. en fékk sömu svör, að hún væri ekki til. Úrræði mitt varð því það að ég leitaði til norska sendiráðsins og þess sænska og danska og aflaði mér laga á þessu sviði fyrir skömmu. Það er verið að þýða þau í þinginu þessa dagana. Ég vænti þess að hafa þau í íslenskri útgáfu undir höndum innan skamms og ég mun í sumar vinna að endurskoðun þeirra laga sem verða samþykkt á næstu klukkutímum. Ég tel að það sé nauðsynlegt að fara yfir þau og ég mun leitast við að kalla til þeirra starfa svo marga sem auðið er sem vinna á þessu sviði og eru áhugamenn, því ég held að menn geti gert enn betur en þessi frumvarpsdrög sýna og menn geti og eigi að leggja sig fram um að lagfæra lögin og gera þau betur úr garði. Sérstaklega eiga menn að fella þessi sérlög saman við lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga. Hvort tveggja er löggjöf á afmörkuðu sviði, hinu félagslega, og menn eiga að fella þessi lög saman.
    Ég nefni bara eitt atriði sem mér finnst hortittur í frv. Það er ákvæði í 18. gr. frv. sem víkur að starfsmönnum sem falla ekki undir lögin, starfsmönnum í menntakerfi og starfsmönnum í heilbrigðisþjónustu. Mér finnst það ekki góð sérlöggjöf um málefni fatlaðra sem felur í sér ákvæði um starfsmenn sem vinna undir annarri löggjöf, sérstaklega þegar menn eru með frv. að miða að því að aðgreina hlutina frá menntakerfi og heilbrigðiskerfi.
    En ég vil, virðulegur forseti, ekki hafa fleiri orð um þetta og láta senn máli mínu lokið. Ætli ég láti því ekki lokið með því að vitna í hæstv. félmrh. sem dregur kannski fram það sem einkum hefur einkennt ágreininginn á milli okkar en það eru ummæli hennar á Evrópuráðstefnu um málefni fatlaðra. Þar viðhafði hún orð sem ég er fyllilega sammála en mér finnst hún hafi stefnt til annarrar áttar en þau orð gefa til kynna. Þau orð eru, með leyfi forseta:
    ,,Ráðherra benti á að við endurskoðun á lögum um málefni fatlaðra væri nauðsynlegt að draga úr miðstýringu í þessum málaflokki og færa ákvarðanatöku nær þeim sem njóta þjónustunnar.``