Vegáætlun 1991--1994

153. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 23:27:43 (7149)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir orð síðasta hv. þm. um að vissulega hefðum við þurft að hafa betri tíma til að ræða um vegáætlun sem hér er lögð fram endurskoðuð. Endurskoðunin er aðallega fólgin í því að nú er verið að skerða vegáætlun enn meira en fyrirhugað hafði verið áður með því að 265 millj. af mörkuðum tekjum eiga að renna í ríkissjóð.
    Þegar fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár var lagt fram á sl. hausti voru vegamálin eitt af fáum málum sem talið var að fengi óskertar eða lítið skertar fjárveitingar. Hæstv. ríkisstjórn hældi sér mjög af því að aukning væri á vegafé á milli ára en ekki niðurskurður. Annað hefur vissulega komið á daginn og það meira en við höfðum þó reiknað með í upphafi að gæti orðið þar sem niðurskurðurinn er allt að 20% á milli ára. Eins og ég sagði er ansi hart að verða að una því að af þessum mörkuðu tekjustofnum fari 265 millj. í ríkissjóð í stað þess að nota það til framkvæmda, atvinnuskapandi og arðbærra framkvæmda.
    Í áliti okkar í minni hluta samgn. kemur fram að fjármunir til stórverkefna vega þyngra á þessu ári heldur en áætlað var og er það ekki síst vegna þess að miðað hafði verið við að fjármögnunin dreifðist á fleiri ár en framkvæmdir stæðu. Framkvæmdum við jarðgöng á Vestfjörðum, sem nú er unnið að, á að ljúka á árinu 1995 en greiðslur áttu að ná allt til ársins 1998. Þessu hefur nú verið breytt í ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar þannig að nú á að fjármagna framkvæmdir við jarðgöng á Vestfjörðum af vegafé jafnóðum og ekki að taka nein lán eins og fyrirhugað hafði verið. Á þessu ári hafði verið fyrirhugað að taka 250 millj. kr. lán til framkvæmda en horfið hefur verið algerlega frá því. Það hefur vitanlega haft í för með sér að erfitt hefur reynst að standa við þá samninga, sem búið var að gera við verktaka og hefur þó Vegagerðin lagt sig alla fram og á vissulega þakkir skildar fyrir að reyna eins og mögulegt var að láta þennan samning standa bæði vegna þess að erfitt er að rifta samningi sem byrjað er að vinna eftir og líka vegna hins að það mundi kosta ríkissjóð ómælda fjármuni.
    Þeir hafa leitað þeirra leiða að taka hluta af eða 40 millj. kr. af snjómokstursfé, sem sparast hefur vegna þess að sl. vetur hafa verið snjóléttir og eru að vonast til að það muni duga til að verktakar fari ekki fram á stórkostlegar bætur vegna samningsrofs. Vissulega vona ég að ekki komi til þess að erfiðleikar verði í framkvæmd þessa verks en þó finnst mér það borin von að það geti staðist miðað við það hvernig á síðan að standa að framkvæmd samningsins. Einnig má geta þess í þessu sambandi að sátt hafði náðst meðal allra flokka og meðal þingmanna í kjördæmum landsins um að fara í þessa jarðgangaframkvæmd vegna þess að það yrði ekki skerðing af almennu vegafé. Síðan hefur komið á daginn að framkvæmdir verða skertar af almennu vegafé, það verða skertar almennar framkvæmdir sem annars hefðu verið meiri úti á landi. Vitaskuld er það ekki góður kostur og verður auðvitað til þess að ef slíkt væri fyrirhugað aftur, t.d. þegar kæmi að því að jarðgöng yrðu byggð á Austfjörðum, taka menn ekki slíkar áætlanir sem trúverðugar.
    Þá vil ég einnig geta þess að ekki er enn þá lokið við vegskála á Óshlíð, sem er hluti af svokölluðum Ó-vegaframkvæmdum sem sérstök framkvæmdaáætlun var gerð um og átti að ljúka öllum Ó-vegum eftir þeim áætlunum. En því var frestað að ljúka þeim skálum sem eftir var að byggja á Óshlíð og átti að gera það í tengslum við jarðgöngin. Síðan hefur komið á daginn að það er ekki inni í þeim samningum sem gerðir voru við verktaka þannig að það er alveg ófyrirséð á þessu stigi málsins hvenær verður unnið að þeim vegskálum sem enn er eftir að byggja við mjög hættuleg gil á veginum á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur.
    Ég þarf áreiðanlega ekkert að lýsa því fyrir hv. þm. hversu mikil hætta getur verið á þeim vegi og hversu mikil nauðsyn er af öryggisástæðum að ljúka þessum vegskálum.
    Hæstv. ríkisstjórn lýsti yfir við fjárlagagerðina að samgöngumálin hefðu nokkurn forgang og í hvítbók hennar segir að áfram verði unnið að stórverkefnum, þ.e. jarðgöngum og endurbyggingum stórbrúa, og framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu og að hraðað verði lagningu bundins slitlags á hringveginn og unnið að tengingu á milli landshluta. Það eru stór og mikil áform sem ríkisstjórnin hefur sett fram en mér þykja efndirnar ekki eftir því þegar byrjað er á fyrsta fjárlagaári hennar að skerða framlög til vegamála. Ef til vill má þó vonast til þess að reynt verði að einhverju leyti að fara eftir þessari áætlun og vil ég þá minna á í sambandi við jarðgöng og endurbyggingu stórbrúa, að nú er lokið við Dýrafjarðarbrú á Vestfjörðum sem er mikil og góð samgöngubót á því svæði og tekur af stórhættulegan veg fyrir Dýrafjörð þar sem mikil snjóflóðahætta hefur verið, auk þess sem það styttir mjög leiðina á milli Ísafjarðar og Þingeyrar. En því hafði verið lofað þegar farið var út framkvæmdir við Dýrafjarðarbrú að næst kæmi röðin að brú yfir Gilsfjörð. Gerð hefur verið úttekt og áætlun um þau mál en ekkert enn þá komist á framkvæmdaáætlun annað en lítils háttar upphæð til hönnunarkostnaðar. Ég vænti þess að í framhaldi af því að nú er lokið við brú yfir Dýrafjörð þá verði það í alvöru skoðað að byggja brú fyrir Gilsfjörð.
    Ég hef ekki hugsað mér frekar en aðrir sem hafa talað í dag að eyða mjög miklum tíma þingsins í það að ræða vegáætlunina. Við í minni hlutanum höfum lýst því að við erum mjög ósátt við það hvernig staðið hefur verið að þessum málum og að ekki skuli hafa verið reynt að fara út í að auka framkvæmdir í vegamálum í stað þess að draga úr þeim og kemur það fram í nál. okkar.
    Ég vil fara nokkrum orðum um greiðslu skuldar Vegasjóðs við borgarsjóð og þann samning sem fyrrv. fjmrh. gerði við Reykjavíkurborg 3. apríl 1991 og hefur verið mjög umdeildur hér í umræðum á Alþingi. Reyndar hefur enn meira verið fjallað um hann í nefndum, bæði í fjárln. og samgn. Ég vil taka undir það að ég lít svo á að ekki sé hægt að rifta þeim samningi. Þó svo ekki hafi verið farið að réttum leikreglum við það að leita samþykkis fjárln. um þennan samning þá er samkomulagið samt sem áður gert samkvæmt heimild í lið 6.7. í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 1991. Það að þáv. fjmrh. leitaði ekki samþykkis fjárln. hlýtur að skrifast á kostnað ríkisstjórnarinnar á þeim tíma og vísa ég því til fjmrh. bæði fyrrv. og núv. að þeir uppfylli þau skilyrði sem þessi liður í 6. gr. fjárlaga kveður á um.
    Við höfum komið óánægju okkar yfir því hvernig framlög eru til vegagerðar á þessu ári á framfæri. Ekki er mikið meira um það að segja. Vegáætlun mun endurskoðuð aftur á næsta ári og vonandi verður staðan þá betri þannig að hægt verði að leggja meiri fjármuni til framkvæmda í vegamálum og ég vænti þess líka að e.t.v. verði ríkisstjórnin orðin það bjartsýnni að hún sjái að þeim fjármunum sem fara til vegagerðar og bættra samgangna um landið sé vel varið.