Málefni og hagur aldraðra

153. fundur
Miðvikudaginn 20. maí 1992, kl. 01:24:48 (7173)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég fylgi hér úr hlaði skýrslu heilbr.- og trmrh. um málefni og hagi aldraðra. Í henni eru svör við spurningum sem fram komu í beiðni níu þingmanna Alþb. sem lögð var fram á þessu löggjafarþingi á þskj. 3. Beiðnin er umfangsmikil og í mörgum liðum og því hefur tekið nokkurn tíma að semja þessa skýrslu og leita svara við öllu sem um er spurt. Leitast er við að svara flestu því sem þar er fram sett.

    1. kafli skýrslunnar fjallar um húsnæði fyrir aldraða í landinu og er þar farið eftir landshlutum og þjónustuþörf.
    2. kafli er um þróun öldrunarmála frá því að fyrstu lög um þau efni gengu í gildi fyrir áratug og um þá stefnu sem þau mál hafa tekið, en þetta er ört vaxandi málaflokkur.
    3. kafli tekur til kjara aldraðra hvað varðar greiðslur frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum. Þessi kafli er saminn af starfsmanni Tryggingastofnunar ríkisins og tekur til allra helstu bóta eða greiðsluþátta til aldraðra.
    4. kaflinn fjallar um Framkvæmdasjóð aldraðra og kemur þar fram heildaryfirlit yfir úthlutanir úr sjóðnum frá því að hann hóf starf sitt. Þar er einnig að finna stutta lýsingu á þeim stofnunum sem styrki hafa hlotið.
    Síðasti kaflinn er samantekt og lokaorð.
    Skýrslunni fylgja þrjú fylgiskjöl. Það fyrsta er yfirlit yfir heimilishjálp sem sveitarfélög veita og er það flokkað eftir sveitarfélögum. Annað fylgiskjal sýnir kostnað sveitarfélaga við heimilishjálp árin 1984--1988 og það þriðja er unnið úr skattframtölum sem sýna tekjudreifingu og eignadreifingu ellilífeyrisþega.
    Meginniðurstaða í 1. kafla skýrslunnar er sú að vistrými fyrri aldraða hefur aukist mjög mikið á tveimur áratugum eða ríflega tvöfaldast og er það einkum hjúkrunarrými sem hefur aukist. Er svo komið að nú er vistrými fyllilega sambærilegt við það sem gerist hjá grannþjóðum okkar á Norðurlöndunum.
    Þessi uppbygging hefur þó orðið mismikil eftir landshlutum og virðist hún hafa orðið minni en efni standa til hér suðvestanlands og þó einkum í Reykjavík. Þannig eru 12,7 rými á hverja 100 íbúa 70 ára og eldri í Reykjavík þegar landsmeðaltalið er 17,3. Því er enn talin nokkur þörf á auknu vistunarrými í Reykjavík.
    Viss vandi hefur komið upp vegna þess að meðalaldur fólks hefur farið hækkandi og því þrýstingur á að breyta þjónusturými í hjúkrunarrými. En þar geta hagsmunir rekist á því að slík breyting veltir stærri hluta kostnaðar yfir á ríkið.
    Í 2. kafla skýrslunnar er fyrst rakin saga lagasmíði um málefni aldraðra en þar ber hæst lög um málefni aldraðra frá árinu 1983 og lög um Framkvæmdasjóð aldraðra frá 1981. Þá er í þessum kafla reynt að meta þörfina á mismunandi þjónustu vegna aldraðra. Má sérstaklega vekja athygli á býnni þörf fyrir rými fyrir heilabilaða aldraða. Þetta mál hefur hlotið sérstaka skoðun í tíð þessarar ríkisstjórnar og var á þessu ári opnað nýtt vistheimili í Reykjavík fyrir þetta fólk með níu rúmum. En betur má ef duga skal og verið er að íhuga að hleypa rekstri annars vistheimilis af þessu tagi af stað.
    Í 3. kaflanum er fjallað um kjör aldraðra. Fólk á ellilífeyrisaldri er nú um 24.000. Þetta fólk nýtur að jafnaði tekna af a.m.k. þrennum toga. Sumt af því er enn að hluta til vinnufært og hefur því atvinnutekjur og er um helmingur tekna meðalellilífeyrisþega atvinnutekjur. Næststærsti tekjupósturinn eru bætur frá almannatryggingum en greiðslur úr lífeyrissjóðum koma í þriðja sæti.
    Bætur almannatrygginga eru sem kunnugt af ýmsum toga. En hinir almennu bótaflokkar eru grunnlífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót. Brýnt er að samræma og einfalda þetta kerfi. Mikið undirbúningsstarf var unnið á því sviði sl. haust en var ekki lokið. Áfram verður haldið á þeirri braut að skapa heilsteypt og skiljanlegt kerfi fyrir lífeyrisþega, hugsanlega með samtvinnun við skattkerfið. Mikilvægt er jafnframt að hugað sé að lífeyrissjóðunum og samspili þeirra og greiðslna almannatrygginga.
    Í 4. kafla skýrslunnar er m.a. heildaryfirlit yfir framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra þann áratug sem hann hefur starfað. Á verðlagi í desember sl. hafa framlög úr sjóðnum numið alls um 2,3 milljörðum kr. Ekki liggur fyrir hver hefur verið heildarkostnaður við þær framkvæmdir sem styrktar hafa verið en leiða má líkur að því að það nálgist milljarða tug.
    Af þessu sést að gífurleg uppbygging hefur átt sér stað á þessu sviði á sl. áratug. Heilbrrh. hefur nýlega skipað nefnd til að setja staðla sem greiðsluþátttaka Framkvæmdasjóðs aldraðra gæti miðast við en hliðstæðar reglur hafa lengi verið í gildi varðandi skólahúsnæði. Nokkurs misræmis hefur gætt í stærð rýmis og aðbúnaði á vistheimilum aldraðra. Ekki er ætlunin að staðla gerð eða stærð slíks húsnæðis einungis að skilgreina hvað eðlilegt sé að ríkið miði greiðslur sínar við.
    Aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast. Fjöldi þeirra sem eru 65 ára og eldri fer vaxandi en þeir hafa lokið eða eru að ljúka sinni starfsævi. Þessi fjöldi vex væntanlega úr 10,7% árið 1991 í 16,5% á næstu þremur áratugum, samanber nýlega mannfjöldaspá Hagstofu. Hlutfall fólks á vinnualdri eða 25--64 ára vex úr 49% í um 52% á næstu þremur áratugum. Á móti kemur að stórir árgangar þeirra sem fæddust eftir seinni heimsstyrjöldina eru enn á vinnualdri. Samtímis fækkar þeim sem hafa ekki enn hafið störf. Því virðist framfærslubyrðin vegna ungra og aldraðra eiga að geta verið viðráðanleg á næstu árum. Þetta er sagt með þá mikilvægu forsendu í huga að hinir vinnufæru hafi allir arðbær störf, hér sé heilbrigt og arðbært atvinnulíf. Það er því e.t.v. okkar stærsta velferðarmál.
    Vegna umræddrar breytingar á aldurssamsetningu einni sér vaxa útgjöld til velferðarmála og þá einkum heilbrigðismála á fyrrgreindu tímabili umtalsvert eða um 33% á sama tíma og fólksfjöldi vex aðeins um 18%. Sakir þess að fólki á almennum vinnualdri eða á aldrinum 25--64 ára fjölgar enn meira vaxa útgjöldin á hvern vinnandi mann yfir þetta tímabil ekki. Því er ekki von á neinni kollsteypu hvað varðar heilbrigðisútgjöld á næstu árum vegna þess eins að þjóðin eldist. En mikilvægt er að koma böndum á ríkisútgjöldin nú og efla atvinnulífið til þess að efnahagslegar forsendur velferðarþjónustunnar bresti ekki.
    Mjög mikið hefur verið gert til að bæta og auka aðstöðu fyrir aldraða á undanförnum árum. Þannig hefur tala hjúkrunarrúma tvöfaldast á seinustu tíu árum eins og fyrr sagði og þjónusturými aukist um 30%. Sérstaklega hefur ástandið batnað á landsbyggðinni. Enn er þó talið að það skorti hjúkrunarrými a.m.k. í Reykjavík. Rætt er um 200--300 rúm í því sambandi. Verulega mun þó draga úr þessum skorti á næsta ári þegar hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi tekur til starfa með 130 rúmum.
    Margir telja að við leysum umönnunarvanda aldraðra ekki á réttan hátt, að hér sé lögð of mikil áhersla á stofnanavistun og heimavistun ekki sinnt sem skyldi. Samkvæmt norrænum upplýsingum er um tíundi hver Íslendingur 65 ára og eldri á stofnunum á meðan hlutfallið er á bilinu 4--7% á hinum Norðurlöndunum samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis. Ástæðan virðist m.a. sú að heimaþjónusta og heimahjúkrun er hér stunduð í minna mæli en annars staðar. Félagsleg og fjárhagsleg rök hníga að því að styðja fólk til að vera sem lengst á heimilum sínum. Að flestra mati er kostnaður við framfærslu og umönnun aldraðra í heimahúsum minni en á stofnunum allt þar til hjúkrunarþörfin er orðin veruleg.
    Dagvistarrýmum fyrir aldraða hefur fjölgað mjög verulega á undanförnum árum. Mikilvægi dagvistunar í þjónustukerfi aldraðra er ótvírætt enda eiga dagvistir mikinn þátt í því að aldraðir geti dvalið lengur heima en ella. Hvíldarinnlagnir eru einnig úrræði í öldrunarþjónustu sem notað er í æ ríkari mæli. Það, líkt og dagvistir, stuðlar að því að aldraðir geti dvalið lengur heima. Þeim öldrunarstofnunum hefur fjölgað sem bjóða upp á hvíldarinnlagnir einkum yfir sumarleyfistímann.
    Á Norðurlöndum hafa heyrst raddir um að þar hafi sumpart verið gengið of langt í þessum efnum. Fólki sem hvorki hafi burði né vilja til að dvelja heima sé haldið þar lengur en góðu hófi gegnir. Hér sem víðast er meðalvegurinn bestur. Þá er talið nauðsynlegt að efla öldrunarlækningar og endurhæfingu á sjúkrahúsum.
    Hví leggjum við meiri áherslu en grannþjóðirnar á stofnanavistun þrátt fyrir að það sé að jafnaði hagkvæmara að vista aldraða í heimahúsum? Ástæðan er e.t.v. sú að ábyrgð og umfram allt kostnaður við öll málefni aldraðra skiptist á milli ríkis- og sveitarfélaga, áhugasamtaka og einstaklinganna sjálfra. Sveitarfélögin reka heimilishjálpina en ríkið heimahjúkrun. Og enda þótt lög kveði á um samvinnu á þessu sviði er það upp og ofan hvernig þar tekst til. Sveitarfélögin leggja síðan kapp á að reist séu hjúkrunarheimili en ríkið sér síðan um reksturinn. Best er e.t.v. að færa framkvæmdina og ábyrgðina á sem flestum málefnum aldraðra til sveitarfélaga. En málefni aldraðra verða ekki skilin frá öðrum þáttum heilbrigðisþjónustu. Þannig þarf a.m.k. heilsugæslan að fylgja með við slíkan flutning. Með heilsugæslunni flyttist heimahjúkrunin yfir til sveitarfélaganna sem einnig sjá um heimilishjálpina eins og fyrr segir. En meira þarf til. Hjúkrunarheimilin eiga líka heima hjá sveitarfélögunum fremur en ríkinu. Og vel má spyrja hvort landsbyggðarsjúkrahúsin, a.m.k. þau sem nú eru ekki deildaskipt, eigi ekki að fljóta með, hvort ríkið eigi ekki að takmarka sig við að reka eða fjármagna meginsjúkrahúsin. Nýlega hefur verið sett á laggirnar nefnd í heilbrrn. til að endurmeta hlutfall sjúkrahúsa.
    Að sjálfsögðu geta sveitarfélögin ekki tekið á sig þessar auknu byrðar án aukinna tekna. Jafnframt er brýnt að sveitarfélög sameinist og stækki til þess að geta betur tekið við þessum verkefnum. En fleiri en sveitarfélög geta og eiga að koma við sögu varðandi byggingu og rekstur vista fyrir aldraða. Fyrir því er löng hefð að slíkt sé í höndum samtaka og einnig í beinum einkarekstri. Stuðla ber að fjölbreytni á þessu sviði. Allt eins og hver og einn skapar sér sitt lífsmynstur, umhverfi og velur sér félaga á lífsleiðinni á ekki að þröngva öllu fólki í sömu bása í ellinni.
    Þjóðfélaginu ber skylda til að hlaupa undir bagga með þeim sem ekki geta alið önn fyrir sér sjálfir og sjá til þess að nægt framboð sé á vistun, hjúkrun og læknishjálp fyrir aldraða. En skipulag og fjármögnun slíkrar samhjálpar verður að miðast við að hver og einn geti búið þannig um sig sem hann helst kýs.
    Að lokum þetta, virðulegi forseti. Mikilvægt er að endurmeta allt umönnunarkerfi aldraðra. Eins og þegar hefur verið sagt tengist það mjög verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Jafnframt þarf að íhuga hlutverk minni sjúkrahúsanna í þessu sambandi. Að þessum málum er nú unnið í heilbr.- og trmrn. Skýrslan er mikilvægt gagn í því sambandi.