Vegáætlun 1991--1994

154. fundur
Miðvikudaginn 20. maí 1992, kl. 02:54:56 (7192)


     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Það hafa verið notaðar ákveðnar reglur við skiptingu vegafjár í gegnum tíðina. Þessar reglur hafa fyrst og fremst byggst á því að það hefur verið miðað við ástand vega, arðsemi vega og kostnað við byggingu þeirra. Það kemur oft fyrir að einstök umdæmi safni skuldum og þá hafa viðkomandi umdæmi endurgreitt þær skuldir af sínum fjárveitingum. Nú hefur verið brugðist svo við að hin ýmsu kjördæmi landsins eru látin greiða vegna skulda höfuðborgarsvæðisins. Ég vil mótmæla þessum vinnubrögðum. Ég vil jafnframt mótmæla því að þegar fé kemur síðan til úthlutunar til viðbótar, þá eru skiptireglurnar ekki notaðar heldur skipt jafnt án tillits til skiptireglnanna. Ef halda á áfram að beita slíkum vinnubrögðum þá verður ekki lengur samstaða um vegáætlun hér á Alþingi. Mér er skapi næst að greiða atkvæði gegn þessari vegáætlun vegna þessa. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn og hæstv. samgrh. að endurskoða þessi vinnubrögð. En þrátt fyrir þetta mun ég sitja hjá að þessu sinni í von um að hér verði bætt um og reynt að koma í veg fyrir slíkt, að það verði reynt að vinna að því að skapa betri samstöðu um þessi mál, en það hefur verið hægt í gegnum tíðina að vinna að þessum málum í góðri samstöðu á Alþingi því að auðvitað hafa einstök kjördæmi þurft að sætta sig við það að stundum hefur verið minna fé en þá verður að skipta því í samræmi við þær vinnureglur sem menn hafa komið sér saman um.