Páll Pétursson (um þingsköp) :
     Frú forseti. Það er sýnilega viðurhlutamikið að sitja fundi með forseta Alþingis nú um stundir þegar maður getur átt von á því að upp á mann verði vitnað hér í þingsalnum. Það var að vísu alveg rétt hjá hv. 3. þm. Reykv. að ég hreyfði ekki mótmælum í morgun við því að kosningar yrðu hér á dagskrá, gerði enga athugasemd þar um. Hins vegar kom það skýrt fram hjá einum fundarmanni að um það yrðu umræður og ég taldi ekki ástæðu til þess að árétta það.
    Hér hafa komið fram óskir um frestun á málinu og þær hafa verið rökstuddar og rökstuddar bara mjög gildum rökum. Ég hef hæfileika til þess að skipta um skoðun, hv. 3. þm. Reykv., og ég tel það frekar þroskamerki að geta lagað sig að breyttum aðstæðum og vera ekki eins og eintrjáningur því að venjulega farnast þeim mönnum illa í pólitík sem eru eins og eintrjáningar. Í ljósi þeirra umræðna sem hér hafa farið fram lít ég málið öðrum augum heldur en ég gerði í morgun.
    Hér hafa þrír ráðherrar haldið uppi umræðum og ég tel það alveg óþarfi fyrir hæstv. umhvrh. að láta sér renna í skap út af þessu atriði. Hann hefur nóg tækifæri til þess að ergja sig síðar í vetur yfir stærri hlutum en þessum. Ég minnist þess aldrei að það hafi verið neitað að fresta kosningu. Ég minnist þess heldur aldrei að kosningu hafi borið að með sama hætti og þessa og ég skil ekkert í því, frú forseti, að forseti skuli ekki verða við þessari eðlilegu ósk okkar. Ég vek athygli á því að þetta er í fyrsta skipti sem þessi kosning er á dagskrá. Venjan er sú þegar um kosningar er að ræða að þær eru hafðar oftar en einu sinni á dagskrá áður en þær fara fram. Þegar af þeirri ástæðu er eðlilegt að láta þær ekki fara fram í dag.
    Ég vek athygli hæstv. fjmrh. á því að við erum ekki að stilla upp á móti kandídötum Sjálfstfl. Ég sé hins vegar enga ástæðu til þess að glúpna fyrir hótunum hans um það að Sjálfstfl. fari að beita valdi til þess að taka viðbótarmenn í bankaráði Landsbankans eins og hann lét sig hafa hér áðan. Hæstv. fjmrh. fullyrti að um þessa uppstillingu til þessarar kosningar í útvarpsráð væri fullkomin eining innan Sjálfstfl. Ég leyfi mér að efast um að hæstv. ráðherra fari með rétt mál. Þrír gegnir sjálfstæðismenn hafa sagt sig úr útvarpsráði og væntanlega hafa þeir verið óánægðir þegar þeir gengu út. Mér er ekki kunnugt um að þeir hafi sagt sig úr Sjálfstfl. Það kann að vera að svo sé. Mér er ekki kunnugt um það og ef þeir eru enn í Sjálfstfl. þá held ég að það sé hæpið að treysta því að fullkomin eining sé í Sjálfstfl. um uppstillinguna. Og ég árétta enn og aftur ósk mína við hæstv. forseta með vísan til þess að ég tel að forseti eigi að reyna að sýna stjórnvisku þegar hún hefur tækifæri til að fresta þessum kosningum.