Afhending skjala úr ráðuneytum

4. fundur
Miðvikudaginn 09. október 1991, kl. 15:50:00 (125)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Ég á erindi við hæstv. forseta út af málum sem hafa borið að í þingnefndum á þessu þingi og á nýliðnu sumarþingi þar sem það hefur gerst í tveimur nefndum þar sem ég á sæti að leitað hefur verið upplýsinga frá ráðuneytum, en þingnefndunum verið meinað um þær upplýsingar. Það sem um er að ræða er í fyrsta lagi það að umhvn. þingsins á síðasta þingi fór fram á það bréflega 12. sept. sl. við umhvrn. og hæstv. umhvrh. að fá tiltekið málsgagn vegna athugana á starfsleyfi fyrir álbræðslu á Keilisnesi. Þessari beiðni nefndarinnar var synjað af hæstv. ráðherra og þetta gerðist á þeim tíma sem auglýsing var um það að heimild væri til athugasemda vegna þessa starfsleyfis. Viðbrögð minni hlutans í umhvn. komu fram á fyrsta degi þessa þings og raunar fyrir þingsetningu og hefði ég út af fyrir sig ekki verið að taka þetta mál fyrir sérstaklega hér á nýju þingi ef ekki hefði bæst við sérstakt tilefni í gær þegar það kom fram á fundi menntmn. þingsins að beiðni frá mér um tilteknar upplýsingar frá menntmrn., nánar tiltekið varðandi málefni Kennaraháskóla Íslands á liðnu sumri og samskipti menntmrn. og Menntaskólans við Hamrahlíð, þar sem ráðuneytið var að óska eftir breytingum á námsskrám, var synjað af menntmrn. og hæstv. ráðherra að sjálfsögðu.
    Ég tel að hér séu í rauninni mjög alvarleg tíðindi á ferðinni í samskiptum Alþingis og framkvæmdarvaldsins og vil vekja athygli hæstv. forseta á þessum sérkennilegu viðbrögðum og jafnframt athygli þingheims á því sem þarna hefur gerst. Ég tel það vera afar alvarlegt mál ef sú regla verður upp tekin í samskiptum þings og framkvæmdarvalds að þingnefndir fái ekki aðgang að málsskjölum eins og þeim sem hér er um að ræða og raunar almennt.
    Nú er það svo að það hafa ekki verið sett lög um upplýsingaskyldu stjórnvalda, en á síðasta þingi, og raunar á þinginu þar á undan, kom fram frv. þar að lútandi. Það væri fróðlegt fyrir menn að kynna sér það frv. þó að ýmissa mati væri ekki gengið nógu langt í þeim efnum í því frv., sem ekki var afgreitt og ekki hefur verið lögfest, í tengslum við það mál sem ég er hér að vekja athygli á.
    Virðulegur forseti. Ég óska eftir að heyra viðhorf hæstv. forseta til þessa máls og óska eftir atbeina forseta þingsins til þess að breytingar fáist fram í samskiptum sem þessum, jafnnauðsynlegt og það er fyrir eðlileg störf þingsins nú og framvegis.