Sementsverksmiðja ríkisins

6. fundur
Mánudaginn 14. október 1991, kl. 14:06:00 (155)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég vildi taka það fram að ég teldi heppilegra að ræða þetta mál að viðstöddum hæstv. iðnrh. Þó að ég kunni vel að meta upplestur hæstv. umhvrh. og telji hann ekki síðri í lestri en hæstv. iðnrh. og jafnvel betri, þá teldi ég hitt heppilegra að ræða málin að hæstv. iðnrh. viðstöddum. Ég vil láta það koma fram að ég skildi svo samtöl formanna þingflokka og forsetanna í morgun að það væri ætlunin að standa þannig að þessu að hæstv. umhvrh. mundi hafa framsögu um málið, en síðar færu fram ítarlegri umræður um það þegar hæstv. iðnrh. væri kominn. Með hliðsjón af því hafði ég ekki hirt um það að biðja um orðið í þessari umræðu sem talsmaður Alþb. í þessum málaflokki, en taldi nauðsynlegt úr því að þess var ekki getið af hæstv. forseta að láta þetta koma hér fram af minni hálfu.