Málefni St. Jósefsspítala í Hafnarfirði

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 13:53:00 (175)

     Finnur Ingólfsson :
     Virðulegi forseti. Þetta er nokkuð sérkennileg staða sem menn standa hér frammi fyrir þegar þeir eru komnir inn á þingflokksfund kratanna í þinginu. Það er hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, samflokksmaður heilbrrh. sem þarf að koma hingað inn til þess að óska eftir liðsinni stjórnarandstöðunnar við að stoppa það mál sem hann segir okkur að hann sé að berjast fyrir að stoppa suður í Hafnarfirði, að St. Jósefsspítali verði tekinn af Hafnfirðingum. Þetta vekur auðvitað upp ákveðnar spurningar og ekki síst í ljósi þess sem forsrh. lýsti hér yfir áðan, að þetta hafi allt saman verið kynnt í þingflokkum stjórnarliðsins. Ég veit ekki betur, a.m.k. horfði maður oft upp á það í sjónvarpinu að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sat þingflokksfundi Alþfl., og spurningin er þá auðvitað þessi: Vissi hann um þetta? Ég trúi því tæpast að svo sé. Enda ef svo væri þá væri hér um hreint lýðskrum af hans hálfu að ræða gagnvart kjósendum bæjarstjórans í Hafnarfirði. Ég vil hins vegar trúa því að þingmaðurinn sé uppgefinn á því að ná fram sínum sjónarmiðum inn í þingflokki Alþfl. og sé þess vegna kominn inn í þingið til þess að óska liðsinnis stjórnarandstöðunnar í þessum efnum.
    Það er rétt hjá hæstv. heilbrrh. að það er nauðsynlegt að taka skipulag heilbrigðisþjónustunnar og sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu til sérstakrar athugunar. Það var gert af fyrrv. heilbrrh. Það voru lagðar fram margar tillögur en því miður strönduðu þær allar á þeim manni sem hérna situr, hæstv. forsrh., sem þá var borgarstjóri í Reykjavík. Fyrir tveimur árum síðan ætlaði þessi maður vitlaus að verða þegar þáv. heilbrrh. lagði fram hér í þinginu frv. til laga um breytingu á heilbrigðisþjónustu, þar sem gert var ráð fyrir því að einn fulltrúi frá ríkinu ætti að setjast í stjórn Borgarspítalans. Hann varði sig með því að það væri verið að stela Borgarspítalanum í Reykjavík af Reykvíkingum með því að setja einn fulltrúa ríkisins inn í stjórn hans. En það var forsenda fyrir því að menn gætu staðið saman um breytingar á skipulagi sjúkrahúsanna í Reykjavík sem er mjög nauðsynlegt.
    Það hefur komið hér fram að það eru engin fagleg rök (Forseti hringir.) fyrir þessari breytingu sem hér er fyrirhuguð á rekstri St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Það hefur líka komið fram að þetta er best rekna sjúkrahúsið í landinu. Það er lægstur kostnaður á dag við rekstur þessa sjúkrahúss. (Forseti hringir.) Ég er rétt að ljúka máli mínu, virðulegi forseti. Það hefur líka komið fram að sparnaðurinn sem af þessu hlýst er enginn vegna þess að þær aðgerðir og annað slíkt sem þarna eru gerðar í dag munu allar flytjast yfir á hin sjúkrahúsin í Reykjavík.
    Að lokum, virðulegi forseti: Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að breyta St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði er ákvörðun sem ríkisstjórnin hefur tekið, en hún er ekki tekin af vel yfirlögðu ráði. Það er eins og ríkisstjórnin hafi ekki verið allsgáð þegar hún gerði þetta.