Málefni St. Jósefsspítala í Hafnarfirði

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 14:00:00 (177)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Þessi umræða sýnist ekki vera tímabær af þeirri góðu og gildu ástæðu að þrátt fyrir það að tillaga hafi verið gerð af hæstv. heilbrrh. um breytingar á skipulagi heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, sem m.a. felur það í sér að St. Jósefsspítali verði ekki deildaskipt sjúkrahús, þá hefur hann jafnframt tekið það skýrt fram að þetta eru engin fyrirmæli eða tilskipanir. Hann hefur lýst sig reiðubúinn til þess að taka upp viðræður við forráðamenn sjúkrahússins um það að þeir leggi fram sínar eigin tillögur um það hvernig þessum sparnaðarmarkmiðum megi ná. Þeim viðræðum er ekki lokið, þær viðræður eru í gangi og það á að bíða einfaldlega eftir því að fagleg umfjöllun um það mál fari fram. Markmiðið með tillögum sem ríkisstjórnin í heild að sjálfsögðu stendur að, á ábyrgð þingflokka hennar, eru þau að ná fram nauðsynlegum sparnaði og hagræðingu í heilbrigðisþjónustu. Það á við um landið allt og það á við um höfuðborgarsvæðið. Og það er ekki gert á kostnað eins né neins vegna þess að hinn kosturinn er sá að ef menn heykjast á þessu þá mun það bitna á öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins, jafnt Hafnfirðingum sem öðrum. Það er alls ekki verið að veitast að hagsmunum Hafnfirðinga af þeirri einföldu ástæðu að hér er um samfellt heilbrigðisþjónustusvæði að ræða. Að sjálfsögðu sækja Hafnfirðingar og njóta þjónustu sjúkrahúsa í Reykjavík og eins er það að menn njóta þjónustu St. Jósefsspítala þótt ekki séu búsettir í Hafnarfirði.
    Meginmarkmiðið er það að taka á þeim vanda sem er orðinn vegna þeirrar þróunar sem gerst hefur á 10--15 árum. Það er skortur á hjúkrunarrými fyrir aldrað fólk, en það er offramboð á almennum sjúkrarúmum og það eru tillögur uppi um það að breyta þessu með því að líta á þetta svæði í heild sinni --- og það tekur ekki bara til St. Jósefsspítala, það tekur til viðamikilla skipulagsbreytinga varðandi stóru sjúkrahúsin hér í Reykjavík. Ættu Reykvíkingar að rísa upp á afturfæturna gegn því þegar um er að ræða sjálfsagða, vel rökstudda sparnaðaraðgerð? Í hverra þágu er hún? Hún er í þágu skattgreiðenda, þeirra sem þjónustunnar njóta, hvort sem þeir eru búsettir í einu sveitarfélagi eða öðru.

    Um það var spurt hvort þessar tillögur hefðu verið lagðar fram í þingflokkum stjórnarflokkanna. Ég vil láta það koma skýrt fram hér að þessar tillögur voru rækilega ræddar í þingflokki Alþfl., (Forseti hringir.) þær eru sameiginlegar tillögur ríkisstjórnarinnar, þær eru á ábyrgð þeirra þingflokka sem að þeim standa. Og ég vil láta í ljós þá ósk að forráðamenn sjúkrahússins St. Jósefsspítala í Hafnarfirði bregðist vel við þeim umræðum, þeim faglegu umræðum sem nú eiga að fara fram og sýni þá ábyrgð að koma með tillögur sem þeim væri meira að skapi um að ná þessum sparnaðarmarkmiðum.