Sveitarstjórnarlög

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 14:59:00 (197)

     Einar Már Sigurðarson :
     Herra forseti. Hér er hreyft stóru og mikilvægu máli og á margan hátt róttækar tillögur fram færðar. Þær varða hin stóru mál í okkar samfélagi, þ.e. þróun byggðar í landinu og hvernig auka má þátt heimamanna sem ég er sammála flm. um að er lykilatriði ef menn hafa áhuga á því að snúa hinni óheillavænlegu byggðarþróun við. Ég vil þess vegna í upphafi taka undir það sem segir í grg. um meginmarkmið frv., ,,að það að auka ábyrgð heimamanna á eigin málum og jafnvægi í byggð sé sá grundvöllur sem þurfi að vera fyrir hendi ef takast eigi að auka hagvöxt í landinu öllu.``
    Það eru þó einstaka athugasemdir sem ég vil koma á framfæri í þessari umræðu. Í fyrsta lagi gerir frv. ráð fyrir því að starfssvæði landshlutasamtaka sveitarfélaga, sem gert er ráð fyrir að lögleiða, verði núverandi kjördæmi. Þetta þýðir að hér er verið að gera tillögu um að starfssvæði samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu verði breytt. Það eru reyndar landshlutasamtök sem spanna tvö kjördæmi, þ.e. Reykjavíkurkjördæmi og hluta af Reykjaneskjördæmi. Þá eru Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum einnig í Reykjaneskjördæmi. Þarna er því raunverulega gengið á hlut heimamanna að ákvarða þau mörk sem landshlutasamtök sveitarfélaga starfa eftir og er það að hluta til þveröfugt við megintilgang frv.
    Ég sagði að þetta væru á margan hátt róttækar tillögur. Samt sem áður finnst mér þær ekki nógu róttækar vegna þess að í frv. segir m.a.: ,,Þau skulu gera tillögur um`` --- þ.e. landshlutasamtökin --- ,,skipulag og uppbyggingu opinberrar þjónustu og ráðstöfun fjárveitinga úr ríkissjóði í hverju kjördæmi um sig.``
    Þarna er sagt ,,gera tillögu um`` en ekki ,,ákvarða`` sem ég hefði haldið að væri miklu mun vænlegra ef menn í raun og veru vilja koma valdinu heim í hérað.
    Stærsta athugasemd mín við frv. er þó þar sem fjallað er um kosningu til byggðastjórna og byggðaráða. Þar er gert ráð fyrir að eingöngu séu kjörgengir héraðsnefndarfulltrúar. Þetta þýðir, ef við höldum okkur við höfuðborgarsvæðið eða þann hluta Reykjaneskjördæmis sem tilheyrir starfssvæði Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, að stærstu kaupstaðir þess eiga ekki, að því að ég best veit, aðild að neinni héraðsnefnd og hefðu þar af leiðandi miðað við frv. ekki neina möguleika á að eiga menn í byggðastjórnum. Hins vegar kemur fram í frv. að öll sveitarfélög eru skuldbundin til þess að vera aðilar að landshlutasamtökum sveitarfélaga. En samkvæmt núverandi sveitarstjórnarlögum er kaupstöðum ekki skylt að eiga aðild að héraðsnefndum, eingöngu heimilt. Þannig er það í dag að margir kaupstaðir, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, eru ekki aðilar að héraðsnefndum. Einnig má nefna Vestmannaeyjakaupstað og Siglufjörð sem ekki eiga aðild að héraðsnefndum. Á Austurlandi eru rétt nokkrir mánuðir síðan síðasti kaupstaðurinn gerðist aðili að héraðsnefnd Múlasýslna. Þetta er aftur á móti hluti af vandamálum vegna þeirra sveitarstjórnarlaga sem sett voru 1986 og er vissulega kominn tími til að menn hugi að breytingum á þeim.
    Ég tel miklu mun vænlegra, ef menn vilja í raun gera þá breytingu að auka vald heimamanna, að tryggja lýðræðislega kosningu til þeirra stjórna sem með það vald fara. Ég er hræddur um að ef fyrirkomulag frv. verði samþykkt verði of lítið mark tekið á byggðastjórnunum vegna þess að þar erum við komin, ef við horfum til byggðaráðanna, líklega í fjórða lið frá kjósandanum. Fyrst yrðu sveitarstjórnir kosnar, síðan kjósa sveitarstjórnir héraðsnefndina, síðan á að kjósa úr hópi héraðsnefndanna í byggðastjórnina og síðan á byggðastjórnin að kjósa byggðaráðið. Þarna held ég að vegurinn frá kjósandanum til ákvarðanatökunnar sé heldur langur.
    Síðan kemur í frv. um frumkvæði, þ.e. það sem snýr að héraðsmiðstöðvum. Þar vil ég benda á að í raun er farið í öfuga átt miðað við það sem segir í megintilgangi frv. Þar segir: ,,Í hverju kjördæmi skal Byggðastofnun falið að hafa frumkvæði að . . . `` Þarna hefði ég talið eðlilegt að heimamenn hefðu frumkvæði. Það mætti hugsanlega vera frumkvæði með Byggðastofnun, þ.e. að heimamenn og Byggðastofnun hefðu frumkvæði í sameiningu, en alls ekki Byggðastofnun ein sem ætti síðan að hafa samvinnu við heimamenn um héraðsmiðstöðvarnar.
    Í grg. er einnig gengið þvert á meginmarkmið frv. þar sem heimamönnum er leiðbeint um hvar þeir eigi að staðsetja héraðsmiðstöðvarnar og taldir upp nokkrir annars ágætir staðir. Varðandi þetta vil ég segja: Við eigum ekki að taka frá heimamönnum rétt til að ákveða staðsetningu vegna þess að það geta verið mjög misjöfn viðhorf í landshlutunum um það hvar hentugast sé að hafa héraðsmiðstöðvarnar. Eða, svo ég vitni til þess landshluta þaðan sem ég kem, þar hafa menn ákveðið að dreifa þessum stofnunum um kjördæmið, á milli staða, vegna þess að menn telja það ekki rétt að auka miðstýringu, hvort heldur hún er á höfuðborgarsvæðinu eða í litlum höfuðborgum í kjördæmunum. Þess vegna segi ég: Það á að láta heimamenn ræða þessi mál og gera þau upp við sig. Þeir hafa líka gott af því að takast á um ákveðin mál eins og staðsetningarmálin vegna þess að það eru þeir sem eiga að nota þjónustuna og þess vegna held ég að þeir hafi miklu mun betri forsendur til þess að taka þessar ákvarðanir.
    Rétt undir lok grg. segir: ,,Því er skynsamlegast að efla sveitarstjórnarstigið, auka völd og ábyrgð réttkjörinna sveitarstjórnarmanna í stað þess að koma á nýju stjórnstigi.``
    Það er rétt að með þessu er verið að efla að hluta til sveitarstjórnarstigið, en þarna er líka verið að stíga fyrsta skrefið í átt að nýju stjórnstigi. Ég held að það sé ekki rétt að taka skrefið svona stutt, það eigi í raun að taka skrefið allt og koma á fót nýju stjórnstigi þar sem við færum völdin nær heimafólkinu og gerum þau raunveruleg, en ekki á eingöngu að ýja að ákveðnum völdum og, sem maður óttast helst, að byggðastjórnirnar verði eingöngu umsagnaraðilar og síðan verði niðurstaðan sú að fólkið úti í landshlutunum missi trúna á að við getum fært hin raunverulegu völd út til fólksins því þá er ég hræddur um að verr sé af stað farið en heima setið.
    Það er eitt sem nauðsynlegt er að átta sig á þegar þessi mál eru rædd og það er vandamál sem hin nýju sveitarstjórnarlög hafa skapað varðandi héraðsnefndir og landshlutasamtök. Það er mjög misjafnt eftir kjördæmum hvernig þessi mál hafa þróast. Á Austurlandi eru héraðsnefndir tvær. Annars staðar eru þær margar og sums staðar, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu eins og ég sagði áðan, eru margir kaupstaðir utan héraðsnefnda. Það er líka rétt að þetta hefur valdið sumum landshlutasamtökum ákveðnum vandræðum. Við höfum leyst þetta mál þannig á Austfjörðum að við höfum í raun tekið héraðsnefndina og látið hana inn í landshlutasamtökin. T.d. er sameiginleg stjórn fyrir héraðsnefnd Múlasýslna og Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi. Hins vegar er sérstök héraðsnefnd fyrir Austur-Skaftafellssýslu. Þetta hefur ekki valdið okkur miklum vandræðum vegna þess að við höfum í raun reynt að halda verkefnum héraðsnefndarinnar eins mikið niðri og nokkur kostur er, en þess meira tekið af verkefnum inn til landshlutasamtakanna.
    Þessu er ekki þannig farið í öllum kjördæmum og mér er kunnugt um að núverandi fyrirkomulag hefur valdið vandkvæðum víða. Ég held að það sé ljóst að ekki er hægt til frambúðar að búa við hvort tveggja, landshlutasamtök í þeirri mynd sem þau eru í dag og héraðsnefndir. Þess vegna er það auðvitað löggjafans að taka á málinu og þess vegna er þetta frv. brýnt og mjög nauðsynlegt að það fái alvarlega og ítarlega skoðun.
    Að lokum vil ég taka undir það og leggja á það áherslu að ég er sammála því meginmarkmiði að við eflum stjórnsýslu heima í héraði en reynum að færa raunveruleg völd en ekki gervivöld til heimahéraðs.