Fæðingarorlof

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 15:45:00 (204)

     Valgerður Sverrisdóttir :
     Hæstv. forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi við þetta frv. sem flutt er af þingkonum Kvennalistans og tek undir þau rök sem hv. flm. hafði hér uppi um mikilvægi þess að skýra lagatextann. Og ég get tekið undir með henni að mér finnst hann ekki nægilega skýr eins og hann er nú í lögunum og veit einnig dæmi eins og hún nefndi hér sem sanna það.
    Nú skal ég ekki fullyrða það að hér megi ekki orða eitthvað öðruvísi ef það þykir réttara, en meiningunni sem kom fram í máli flm. er ég algjörlega sammála.
    Ég get einnig tekið undir það sem kom fram að lög um fæðingarorlof í heild sinni eru ekki neitt endanlegt plagg að mínu mati og ég tek einnig undir að það skref sem stigið var árið 1987 var stórt og var mikil réttarbót sérstaklega fyrir konur. Það sem er hér til umfjöllunar á aðeins við eina grein laganna og ég vil vegna orða hv. síðasta ræðumanns nefna það að í mínum huga fjallar 6. gr. um þau tilfelli þegar konan óskar sjálf vegna heilsu sinnar eftir að verða flutt í annað starf. En aftur á móti er 7. gr. til þess að tryggja það að vinnuveitandinn noti ekki tækifærið meðan viðkomandi starfsmaður, kona eða karl, er í fæðingarorlofi og færi hann til í starfi að honum forspurðum.
    Ég get nefnt það að í tíð fyrrv. heilbrrh., Guðmundar Bjarnasonar, var unnið í nefnd að gerð nýs frv. um fæðingarorlof og það var í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Þar náðist samstaða um tillögur sem því miður komu ekki til þingsins á því þingi en er til í frumvarpsformi og ég vonast til þess að núv. hæstv. heilbrrh. taki þær tillögur til athugunar og við fáum á þessu hv. þingi að fjalla um nýja löggjöf um fæðingarorlof.
    Hv. Alþingi hlýtur að þurfa að hafa forgöngu um það hverju sinni að þjóðfélagið sé vinsamlegt í garð fjölgunar þjóðfélagsins, sé vinsamlegt í garð barnshafandi kvenna. Eins og þetta þjóðfélag okkar er orðið í dag þá eru konur svo til allar úti á vinnumarkaði og með því að fæðingarorlof er ekki nema sex mánuðir þá er það ekki nægilega langur tími. Nú er mikið lagt upp úr því að ungbörn fái að njóta móðurmjókur sem lengst og í lengri tíma en sex mánuði. Til þess hlýtur að þurfa að taka tillit þegar samin eru lög um fæðingarorlof.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að hafa fleiri orð um þetta frv. en lýsi í öllum aðalatriðum yfir stuðningi við það og þá meiningu sem í því felst.