Evrópska efnahagssvæðið (EES)

8. fundur
Miðvikudaginn 16. október 1991, kl. 17:18:00 (228)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Staðreyndin er sú í þessu máli að þessi tiltekna tegund fisks hefur ekki verið nýtt. Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið uppi nein sérstök áform um að nýta hana. Mér er ekki kunnugt um að það hafi einu sinni verið uppi nein sérstök áform um að rannsaka eða kanna útbreiðslu þessarar tegundar eða stofnstærð hennar fyrr en þessi mál bar á góma hér fyrr í vor. Það var reyndar staðfest af Jakobi Jakobssyni á fundi utanrmn., þar sem ég var staddur sem varamaður. Það liggur því alveg fyrir, ágæti þm., að í þessu dæmi var um það að ræða að við mundum fá 30 þús. tonn af loðnu gegn því að veita þessar mjög takmörkuðu heimildir, ígildi 2.600 þorsktonna af langhala. Menn geta svo dæmt um það hvað í því raunverulega felst.