Stefna stjórnvalda gagnvart flóttamönnum á Íslandi

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 10:54:00 (246)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Sem svar við 1. lið fsp. skal tekið fram að Ísland er aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna frá árinu 1951 og breytingum á þeim samningi frá 1957. Þar er að finna skilgreiningu á hugtakinu flóttamaður. Ef flóttamaður fellur undir þá skilgreiningu nýtur hann ákveðinna réttinda og verndar. Hann fær dvalarleyfi og ferðaskilríki ef því er að skipta. Hann á rétt á að fá atvinnuleyfi til jafns við aðra útlendinga og nýtur almennt séð ekki lakari réttinda en aðrir útlendingar. Sum réttindi skulu þó ekki takmörkuð. M.a. er réttur til vinnu ekki háður takmörkunum eftir þriggja ára dvöl. Aðstaða til barnafræðslu skal vera sama og veitt er ríkisborgurum og fleira af því tagi.
    Ísland á aðild að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Samstarf er haft við þá stofnun um úrlausn einstakra verkefna. Þannig var til að mynda um ríkisstjórnarákvörðun þá sem tekin var haustið 1989 um að taka á móti 60 flóttamönnum frá Suðaustur-Asíu á árunum 1990--1992, sem svo komu hingað í tveimur hópum á síðasta ári og þessu ári.
    Sem svar við 2. lið fsp. er það að segja að um landvistarleyfi útlendinga fer eftir lögum um eftirlit með útlendingum frá 1965. Norðurlandabúar þurfa ekki leyfi til að koma hingað til lands. Ríkisborgurum allmargra ríkja er heimilt að koma til landsins án vegabréfsáritunar til allt að þriggja mánaða, þó ekki í atvinnuskyni. Að öðru leyti þurfa útlendingar vegabréfsáritun. Áritun er þá persónubundin og ræðst af erindinu, heimsókn, atvinnu, fjölskyldutengslum og fleiri atriðum. Atvinnuástæður í landinu koma einnig til álita.
    Skv. 10. gr. laganna ber að meina útlendingi landgöngu ef hann uppfyllir ekki tiltekin skilyrði, m.a. ef ætla má að útlendingur hafi í hyggju að ráða sig í vinnu hér eða á hinum Norðurlöndunum án þess að hafa aflað sér leyfis fyrir fram. Ef útlendingur ber að hann hafi orðið að leita sér hælis sem pólitískur flóttamaður og framburður hans telst sennilegur má lögregla ekki meina útlendingi landgöngu heldur ber að leggja það mál fyrir dómsmrh.
    Um brottvísun er fjallað í 11. og 12. gr. laganna um eftirlit með útlendingum. Stundum er lögreglustjóra heimilt að vísa útlendingi úr landi svo sem ef hann hefur komið inn í landið án þess að gefa sig fram við vegabréfaeftirlit eða hefur áður verið vísað úr landi og er á ný kominn til landsins án tilskilins leyfis. Þá er dómsmrh. heimilt að vísa útlendingi úr landi m.a. þegar mátti meina útlendingi um landgöngu og ef útlendingur brýtur gegn reglum um vegabréfsáritun, dvalarleyfi eða atvinnuleyfi eða skilyrðum sem þau eru

bundin. Enn fremur er almenn heimild til að vísa útlendingi úr landi ef áframhaldandi dvöl hans telst hættuleg hagsmunum ríkisins eða almennings eða vist hans er óæskileg af öðrum ástæðum. Ástæður brottvísunar verður að sjálfsögðu að meta hverju sinni.
    Sem svar við 3. lið fsp. er það að segja að stefna ríkisstjórnarinnar er sú að veita flóttamönnum er hingað koma og uppfylla skilyrði alþjóðasamnings aðstoð eftir því sem efni standa til hverju sinni. Þó skal tekið fram að á því er byggt sem meginreglu að flóttamönnum ber að leita til yfirvalda í því sem kallað er fyrsta hælisland, þ.e. í landi er þeir fyrst koma til og er það í samræmi við reglur sem víða erlendis er fylgt, m.a. í nýlegum samningi Evrópubandalagsríkjanna.
    Að öðru leyti hlýtur afstaða til meðferðar á málefnum einstakra flóttamanna sem hingað koma og ekki falla undir skilgreiningu alþjóðasamnings að mótast af aðstæðum.