Ummæli forsætisráðherra um byggðamál

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 14:41:00 (321)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :

     Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu efni. Að vísu er það svo að tilefnið er kannski ekki jafnmerkilegt og mikið og málshefjandi vildi vera láta. Ég hygg að ekki sé ágreiningur um það á milli þingmanna og reyndar þjóðarinnar að byggðastefna undanfarandi ára hefur brugðist og umræðan er gjörsamlega stöðnuð. Það er auðvitað nauðsynlegt að hleypa þar inn nýju ljósi og nýjum hugmyndum og ræða málið af hreinskilni og ekki með þeim klisjukennda hætti sem hefur tíðkast og flestir stjórnmálaflokkar hafa tamið sér og étið hver upp eftir öðrum. Ég tel að byggðamál hafi ekki verið rædd í samhengi. Ég tel að byggðamál hafi heldur ekki verið unnin í samhengi. Ég tel að það sé nauðsynlegt í framtíðinni að Byggðastofnun sé ekki að fjalla um einn þátt, þingmenn að fjalla um vegagerð í þessu skotinu og hafnagerð í hinu skotinu, félagsleg úrræði og heilbrigðisúrræði í enn einu skotinu. Menn verði að ræða þessi mál í samhengi.
    Þau orð sem helst hafa verið höfð til þess að snúa út úr þeim, af því sem ég lét frá mér fara á fundi sjálfstæðismanna nú fyrir nokkru, eru um að ég vildi láta hugleiða hvort ekki gæti komið til álita að í stað þess að dæla fjármunum ár eftir ár, áratug eftir áratug, í tiltekin fyrirtæki til þess að byggðirnar legðust ekki af, til þess að eignir manna yrðu ekki verðlausar, yrði skoðað í heild hvort það mætti ekki nýta fjármunina betur einmitt í þágu þessa fólks. Til að mynda með því að stuðla að því, ef fólk kysi svo sjálft, auðvitað ekki með valdboði, að fólk gæti flust til innan tiltekinna svæða. Vestfirðir eru nefndir sérstaklega og málshefjandi rakti það að nýlega hefðu komið fram ummæli um að á Vestfjörðum væru mikil staðbundin byggðavandamál. Samt horfum við upp á að þar er atvinnuleysi ekkert heldur mikil umframeftirspurn eftir vinnuafli, fjöldi erlendra manna er þar í vinnu. Við horfum upp á að þar eru meðaltekjur hæstar á landinu. Þrátt fyrir það eru þar ,,stórkostleg`` byggðavandamál. Það er örugglega alveg rétt.
    Hugsun mín er þessi: Við eigum að taka málið fyrir í samhengi. Við eigum að horfast í augu við það að byggðastefnan hefur brugðist. Við eigum að tala ófeimin um það að hægt sé með öðrum hætti en gert hefur verið að stuðla að því að landið allt haldist í byggð, eins og var haft eftir mér frá landsfundinum af hv. málshefjanda. ,,Að lífvænleg byggð megi vera hvarvetna um landið.``
    Það eru ekki efni til þess af minni hálfu hér og nú að svara einstökum spurningum málshefjanda enda gefa þau ummæli sem eftir mér voru höfð á flokksráðsfundi Sjálfstfl. ekki sérstaklega tilefni til þess. En ég held að það sé nauðsynlegt að menn komist út úr þeirri þráhyggju og þeirri stöðnun sem umræða um byggðamál hefur verið í. Það nægir ekki að halda blaðamannafund og lýsa því yfir að 20 ára byggðastefna hafi brugðist, og halda síðan áfram umræðunni í sama farvegi. Menn eiga ekki að vera í þessum klisjukenndu umræðum um það að menn vilji halda byggð alls staðar og sjá samt ekki út úr því hvernig þeir ætli að gera það. Menn segja annars vegar eftir að afli hefur dregist saman: Við verðum að veiða fisk með færri skipum, við verðum að hafa færri vinnslustöðvar. Um þetta segjast allir menn vera sammála. En þegar kemur að því að það geti haft áhrif í byggðalegum efnum hlaupa menn frá skoðunum sínum eins hratt og fætur toga.