Ummæli forsætisráðherra um byggðamál

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 15:06:00 (330)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Ég tel að það vanti mikið á að þingheimur hafi fengið að vita hvaða hugsun lá falin á bak við þá fullyrðingu hæstv. forsrh. ( Gripið fram í: Ef einhver.) að skynsamlegt væri að greiða mönnum fjárstyrki til þess að flytjast frá ákveðnum þorpum, ef ég skil þetta rétt, til annarra þorpa eða annarra byggða. Nú er það svo að hvort sem menn telja byggðastefnuna hafa brugðist eða ekki þá hefur verið höfð sú eina stefna varðandi stuðningsaðgerðir við þorp og byggð í þeim að það hefur verið lagt fé til framkvæmda til ýmissa málefna í viðkomandi þorpum. Ég vil ekki segja að menn hafi dælt fjármunum til byggða. Menn hafa vissulega lánað fé í verulegum mæli til sumra atvinnufyrirtækja. Það hefur verið gert hvar sem er á landinu.
    Sé horft á Vestfirði og talað um þorp þar, þá blasir það við að þar eru tvö þorp sem hafa vaxið, annars vegar Hólmavík og hins vegar Tálknafjörður. Ef skoðað er hvað fjölgað hefur á Ísafirði og hver staðan er þar þá hefur fjölgun þar byggst á fleiri störfum af hálfu opinberra aðila. Nú hefur stundum verið deilt á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur og þess vegna spurning hvort annar aðilinn fengi þá flutningsstyrk á Hólmavík en hinn á Tálknafjörð.
    Ég segi þetta hér og nú vegna þess að mér er ekki alveg ljóst við hvað menn eiga þegar þeir tala um vaxtarsvæði og skil ekki til fullnustu hvaða hugsun liggur þar á bak við. Það er skilin eftir sú stefnumörkun, hæstv. samgrh., að í staðinn fyrir það að leggja vegi eigi að veita fólki styrk til að flytja burtu, þá er skilin eftir sú stefnumörkun að með samgöngubótum á Vestfjörðum verði byggðirnar færðar saman. Sé hugsunin í þessu að breyta út af því, þá þarf það að koma fram.