Þjóðaratkvæðagreiðsla um EES-samninginn

12. fundur
Þriðjudaginn 22. október 1991, kl. 14:03:00 (357)

     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegur forseti. Skoðun mín á því að hér sé um fullveldisafsal að ræða er ekki eingöngu byggð á því að við setjum okkur undir erlendan dómstól. Þetta er líka það að við afsölum okkur verulegum hluta af löggjafarvaldinu og það er t.d. mat Norðmanna að hér sé um fullveldisafsal að ræða, ekki að fullu og öllu heldur að verulegu leyti. Og það er mat flestra að hér sé a.m.k. um 60% inngöngu í Evrópubandalagið að ræða þannig að þarna er verulega stórt skref inn í Evrópubandalagið. Ég held því að það velkist mjög fáir í vafa um það að þarna er um verulegt fullveldisafsal að ræða. Mér eru það því mikil vonbrigði að heyra það að forsrh. telur á þessari stundu ekki ástæðu til að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um þennan samning. Ég skora á hann og reyndar ríkisstjórnina alla að endurskoða þetta mjög vel og láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um þennan samning. Með því móti er hægt að fá að vita hvort þjóðin er tilbúin til að taka þetta stóra skref inn í Evrópubandalagið og afsala sér eins stórum hluta af fullveldi sínu og þarna er verið að gera.