Fjárlög 1992

12. fundur
Þriðjudaginn 22. október 1991, kl. 18:00:00 (376)

     Þuríður Pálsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég tel mér skylt að blanda mér nokkuð inn í þá umræðu sem fram fer í sambandi við frv. hæstv. ríkisstjórnar til fjárlaga 1992.
    Hv. 8. þm. Reykn., fyrrv. hæstv. fjmrh. Ólafi Ragnari Grímssyni, hefur að undanförnu orðið tíðrætt um þá eignarskatta sem boðaðir eru í fjárlagafrv. 1992. Í sjónvarpsviðtali sem hann átti við hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson, vegna fjárlagafrv. upp á 447 blaðsíður, eyddi hann drjúgum hluta af tíma sínum í að ræða um ekknaskattinn svonefnda sem hann sjálfur lagði á í desember 1988 og gat hann mín skilmerkilega í þeim sjónvarpsþætti. Í annað sinn notaði hann lungann úr ræðutíma sínum um stefnuræðu forsrh. í það að tala persónulega beint við mig í opinni sjónvarpsútsendingu út af sama ekknaskatti. Það svona flaug í gegnum huga minn: Það er tungunni tamast sem hjartanu er kærast.
    Það er gleðilegt að vita til þess að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur nú kannast við þetta afkvæmi sitt. Þennan sama skatt sem hann boðaði sérstakan blaðamannafund út af til að lýsa yfir að væri ekki til. Þennan sama skatt sem hann lét fjmrn. gefa út sérstaka fréttatilkynningu um, nr. 16/1989, til dagblaða og fréttastofa og bar nafnið ,,Ekknaskatturinn er ekki til``. Í því sama plaggi frá fjmrn. komu þær röngu og villandi upplýsingar fram að einungis einstaklingar sem ættu meira en 12,5 millj. kr. skuldlausa eign, yfirfært á núvirði um 18 millj., greiddu þennan skatt. Hið rétta er að skattleysismörkin voru þá 2,5 millj. kr. Af næstu 4,5 millj. var eignarskattsþrepið, sem áður var 0,95%, hækkað upp í 1,2%. Og af skuldlausri eign yfir 7 millj. kr. bættist við háeignaþrep, 1,5% sem gerði samtals 2,7%. Þá bættist við sérstakur eignarskattur sem áður hafði verið lagður á og er markaður byggingu Þjóðarbókhlöðu og endurbótum menningarbygginga, 0,25% á eignarskattsstofn yfir 4 millj. 250 þús. Samanlagt þýddi það einfaldlega að einstaklingur sem átti skuldlausa eign yfir 7 millj. kr. greiddi 2,95% í eignarskatt sem þýddi hreina eignaupptöku á færri árum en hann hafði til að afla húseignarinnar. Í ofanálag var skatturinn lagður á afturvirkt sem reyndist mörgum einstaklingum þungur baggi.
    En hvernig var þetta áður? Samkvæmt lögum um tekju- og eignarskatt nr. 75/1981 var gert ráð fyrir nokkrum mismun. Skattleysismörk eignarskatts fyrir hækkun skattsins í desember 1988 voru tæpar 2 millj. Álagningarhlutfallið var 0,95% en engin stigshækkun var þá á eignarskattinum. Mismunur álagningar gat því orðið mestur milli einstaklinga og sambúðarfólks 18.979 kr. en varð eftir hækkunina mestur kr. 135.000 kr. Það er því fyrst og fremst þessi mismunur sem varð kveikjan að því viðurnefni sem festist við þessa skattheimtu, ekknaskatturinn.
    Það er athyglisvert að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson skuli nú skora á mig að lagfæra hans eigin mistök. Já, bæði ég og fjölmargir aðrir, þar á meðal allmargir alþingismenn, börðumst fyrir afnámi þeirrar stórhækkunar á eignarskatti sem var lögfest 1988. Sá árangur náðist að háeignaþrep sem fyrrv. hæstv. fjmrh., Ólafur Ragnar Grímsson, hafði upphaflega lagt á sem 1,5% var lækkað niður í 0,75%, eins og það er í dag, og að auki var það tekjutengt. Þannig að í dag greiðir sá einstaklingur sem hefur 168.000 kr. mánaðarlaun efra þrepið að fullu en séu tekjur undir 84.000 kr. á mánuði leggst skatturinn á samkvæmt lægra þrepi. Milli tekjumarkanna hækkar skatturinn hlutfallslega. Einnig var eftirlifandi maka veittur fimm ára frestur ef hann situr í óskiptu búi þannig að eignarskatturinn var lagður á hann sem um eign hjóna væri að ræða.
    Þetta var áfangi en kom þó ekki þeim einstaklingum til góða sem nú eiga eignir undir 9,6 millj. kr., þ.e. undir háeignaþrepi. Þarna var því samþykkt lækkun á eignarskatti á þá sem meira áttu en hækkunin á meðaleignir launafólks stóð óbreytt.
    Samkvæmt erlendum tölfræðiskýrslum eru það fullorðnar konur sem einkum halda uppi menningarlífi þjóða. Það eru þær sem eru ötulastar við að kaupa og lesa bækur. Þær sækja listasöfn og sýningar, fara í leikhús og á tónleika og hlusta á óperur. En hvergi í heiminum er þeim gert jafn hátt undir höfði og hér á Íslandi þar sem þeim er einnig ætlað að standa að mestu undir byggingu Þjóðarbókhlöðu og endurbótum menningarbygginga.
    Ég leyfi mér að óska eftir svari hjá hæstv. fjmrh. Friðriki Sophussyni við því hvort áformað sé að setja aðrar og réttlátari reglur um álagningu þjóðarbókhlöðuskattsins svonefnda svo hv. þm. og ráðherrar fái nú tækifæri til að vera með í þjóðarátakinu við uppbyggingu menningarbygginga í stað þess að einbúar þjóðfélagsins standi að mestu undir þeirri greiðslubyrði.
    Á sama tíma og eignarskattshækkunin var lögfest á Alþingi voru lög um málefni aldraðra, nr. 91/1982, með síðari breytingum, einnig lögfest. Í 2. mgr. 1. gr. stendur svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Tilgangur þessara laga er að aldraðir geti svo lengi sem verða má búið við eðlilegt heimilislíf en að jafnframt sé tryggð nauðsynleg stofnanaþjónusta þegar hennar gerist þörf. Eftir því sem kostur er skal sjálfsákvörðunarréttur aldraðra í því efni virtur og möguleikar þeirra til ráðstöfunar eigin eigna og lífeyris ef þess gerist þörf.``
    Og í 4. lið 8. gr. stendur, með leyfi forseta:
    ,,Ætíð skal haft að leiðarljósi það markmið laganna að aldrað fólk geti sem lengst búið við eðlilegt heimilislíf.``
    Ég fæ ekki betur séð en að hugsunarhátturinn að baki því að háskatta óarðbært íbúðarhúsnæði sé ömurleg tímaskekkja og misskilin jafnaðarmennska og um leið brot á fyrrnefndum lögum um aldraða. Eignarskatturinn er lagður á íbúðarhúsnæði eftir mati Fasteignamats ríkisins. Það vita allir að fasteignamat á landinu er langhæst í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi. Misræmið kemur því verst niður á þeim einbúum sem búa í eigin óarðbæru íbúðarhúsnæði á þessum svæðum, þeim sem hafa lagt metnað sinn í að koma sér upp húsnæði með sparnaði og ráðdeild. Það er því bæði hjúskaparstaða og búseta sem veldur misræmi í eignarskattsálögum.
    Ég held að vel flest fólk af minni kynslóð hafi viðurkennt þörfina fyrir að eignast þak yfir höfuðið þegar það var að byrja að búa. Óvíða var þörfin brýnni en hér á landi. Fyrst og fremst voru afar fá hús á Reykjavíkursvæðinu, reyndar á öllu landinu, árið 1940. Í öðru lagi er legu landsins um að kenna. Mestan hluta ársins erum við innan dyra nema hvað við förum milli húsa og það er áreiðanlega leitun á jafnvíðtækri þjóðfélagsbreytingu og varð hér á landi á árunum frá stríðslokum og til vorra daga. Fólkið sem lagði í að koma sér upp eigin húsnæði, hvort heldur var íbúð í blokk, tví-, þrí- eða fjórbýlishúsi, einbýlishúsi eða raðhúsi lagði yfirleitt allt sitt undir og var í áratugi að basla við þessa fjárfestingu. Þetta var að miklum hluta venjulegt launafólk sem flest sýndi mikla ráðdeild og sparsemi til að geta borgað skuldir sínar með skilum. Og flestir eyddu meginhluta tekna sinna í að koma sér upp eigin húsnæði, tekna sem búið var að greiða fullan skatt af.
    Húsnæðismálalán og námslán voru auðvitað óþekkt fyrirbæri. Þessi kynslóð var alin upp við það að fólk ætti að greiða skuldir sínar og hún gerði ekki miklar kröfur til annarra en sjálfrar sín. Ég held að fæst okkar hafi álitið að við værum verðandi stóreignafólk við það að eiga eina sæmilega íbúðarhæð, raðhús eða lítið einbýlishús þegar grynnka fór á skuldunum eftir áratuga baráttu. Auk þess er þá viðhald eigna og fasteignagjöld ærin greiðslubyrði fyrir flesta.
    Ef við vorum svo heppin að eiga maka gerðum við fyllilega ráð fyrir að þegar annaðhvort hjóna félli frá fengi það sem eftir lifði að búa á sínu eigin heimili meðan stætt væri og fólk kysi. Einhvern veginn höfðum við alltaf reiknað með að njóta sömu mannréttinda fullorðin og við nutum sem yngra fólk. Það er staðreynd að fleiri konur fara illa út úr þessu eignarskattsdæmi en karlar. Fleiri ekkjur eru á landinu en ekklar, þ.e. rúmlega 8 þús. ekkjur en rúmlega 2 þús. ekklar. Í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi einu voru í desember 1988 5449 ekkjur en 1389 ekklar. Þá eru fleiri fráskildar og einstæðar konur á landinu en karlar og að auki eru konur yfirleitt tekjulægri en karlar, þ.e. ef þær hafa vinnu á annað borð. Og þar að auki eru þær oft með börn og unglinga á framfæri. Þær búa í því húsnæði sem hjón hafa búið í árum saman og í flestum tilfellum hafa þær alið upp barnahóp. Þetta er ekki bara húsnæði sem Fasteignamat ríkisins telur í fermetrum, heldur heimili fólks sem geymir dýrmætar minningar liðinnar ævi og gefur þá öryggistilfinningu sem í mörgum tilfellum er einmitt forsenda þess að gera eldra fólki kleift að vera sjálfbjarga. Sú lágmarkskrafa að fólk fái að búa óáreitt á sínu eigin heimili svo lengi sem það vill og treystir sér til hlýtur að vera það takmark sem er farsælast fyrir þjóðarbúið og sjálfsögð mannréttindi eldra fólks. Sem dæmi má nefna að daggjöld á elliheimilum eru mismunandi, frá 2 þús. upp í rúm 7 þús., og á hjúkrunarheimilum eru daggjöldin frá rúmum 3 þús. upp í rúm 6 þús.
    Mig langar til að nefna smádæmi um misrétti þessarar álagningar vegna þess að það eru ekki allir sem skilja það. Ég ætla að taka dæmi um 6 millj. kr. eign. Þar greiðir einstaklingur 31.200 kr. í eignarskatt og hann er strax farinn að greiða þjóðarbókhlöðuskatt, 2.500 kr. Í allt greiðir hann 33.700 kr. Hjón borga engan eignarskatt, þau hafa ekki náð 6,8 millj. kr. markinu, og þau greiða auðvitað ekki neinn þjóðarbókhlöðuskatt. Hvaða íbúðir eru nú metnar á 6 millj.? Það eru litlar íbúðir í blokk og áður en einstaklingur tekur þátt í sameiginlegum kostnaði í hússjóði á hann að vera búinn að greiða 33.700 kr. í eignarskatt til ríkisins fyrir að fá að eiga íbúðina.
    Þá ætla ég að taka sem dæmi 9,6 millj. kr. eign sem er undir háeignaþrepi. Þar greiðir einstaklingur 74.400 í eignarskatt og 11.500 kr. í þjóðarbókhlöðuskatt, samtals 85.900 kr. Hjónin borga þarna 33.600 í eignarskatt og auðvitað ekkert í þjóðarbókhlöðuskatt vegna þess að þau eru ekki komin upp að 10 millj. kr. markinu. Þau greiða sem sagt samanlagt 33.600 kr. á móti einstaklingnum sem greiðir 85.900 kr. Hvort um sig borgar þá 16.800 kr. Það þarf 5,1 einstakling í hjónabandi til að greiða sama eignarskatt og einbúinn. Og það þýðir að skatturinn á einbúann er 410% hærri en á einstakling í hjónabandi miðað við sams konar skuldlausa eign. Og þessi eign er undir efra þrepi eignarskattsins eins og ég sagði.
    Þá tek ég sem dæmi 14 millj. kr. eign. Þar greiðir einstaklingur 160.200 kr. og í þjóðarbókhlöðuskatt 22.500 kr. Hann er kominn í 182.700 kr. Þetta er miðað við hæsta tekjumark hjá einstaklingi. Hjónin borga 86.400 kr. í eignarskatt og viti menn, velkomin í Þjóðarbókhlöðuna, tíuþúsundkall, greiða 5.000 kr. hvort í þann skatt. Samanlagt borga þau 96.400 kr. eða 48.200 á hvort hjónanna. Eignarskatturinn af slíkri eign getur farið lengst niður í 127.200 kr. við 84.000 kr. tekjumarkið hjá einstaklingi sem gerir samanlagt með þjóðarbókhlöðuskatti 149.700 kr.
    Ég treysti því að hæstv. ríkisstjórn vindi bráðan bug að því að lagfæra þessa brotalöm á skattkerfinu. Hvergi á Norðurlöndum eða í Evrópu, þar sem ég hef spurst fyrir, greiðir fólk eignarskatta eftir sams konar álagningarreglum og hér gilda, þ.e. að hjúskaparstaða fólks eða fráfall maka ráði þar úrslitum. Fasteignir eru einfaldlega metnar í ákveðið eignarskattshlutfall líkt og fasteignagjöldin eru hér. Síðan er ekki spurt hvort einn, tveir eða fleiri greiði þau gjöld sem á eignina eru lögð. Þá má einnig bæta því við að hvergi nema í Svíþjóð eru eignarskattar viðlíka háir og hér á landi, en þar eru líka alls konar undanþágur og munu eignarskattar þar raunar allir til endurskoðunar. Í allflestum löndum er íbúðareign upp að vissu marki eignarskattsfrjáls, t.d. voru árið 1989 eignir á um 12 millj. ísl. kr. í Danmörku og um á um 15 millj. ísl. kr. í Finnlandi eignarskattsfrjálsar.
    Í stefnu og starfsáætlun ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. eru fyrirhugaðar umbætur í skattamálum. Þar stendur, með leyfi forseta: ,,Núverandi fyrirkomulag þar sem eignir eru skattlagðar með háum skatthlutföllum, fjölmörgum undanþágum og flóknum álagningarreglum er óviðunandi.`` Enn fremur: ,,Samræming skatta af eignum og eignatekjum á að tryggja sanngjarna, almenna og hóflega skattheimtu.``
    Ég ítreka að ég treysti því og sætti mig raunar ekki við annað en að óréttlátir eignarskattar verði afnumdir og að íbúðarhúsnæði, sem sannanlega er nýtt til eigin þarfa, verði eignarskattsfrjálst upp að 12--15 millj. kr. Aðeins með því móti öðlast einstæðir sama rétt og það fólk sem er í sambúð. Ég treysti því einnig að stefna hæstv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar tryggi að staðið verði við þá sjálfseignastefnu í húsnæðismálum sem rekin hefur verið hér á landi síðustu áratugina og ríkisstjórnin taki ekki þátt í þeirri miðstýringu að skammta einstæðu fólki heimilisrými með háum eignarsköttum sem stuðla að beinni eignaupptöku.