Fjárlög 1992

12. fundur
Miðvikudaginn 23. október 1991, kl. 02:38:00 (390)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Þetta verður stutt, ég fer að sjálfsögðu að tilmælum hæstv. fjmrh. Ég kom upp aðeins til þess að segja fáein orð í framhaldi af hans svörum. Ég vil þakka honum svörin. Mér finnst hann hafa staðið sig býsna vel og svarað eftir bestu getu og ég þakka fyrir það.
    Það sem ég vil segja er varðandi fjárhagsstöðu sveitarfélaga sem kom aðeins fram í ræðu hæstv. fjmrh. Ég hygg að það sé ákaflega mismunandi hvernig sú fjárhagsstaða hefur batnað á undanförnum árum. Ég held ég megi fullyrða það að staða sveitarfélaga af stærðinni 1.000--2.500, sem eru allnokkur á landinu, hefur almennt versnað nokkuð mikið á undanförnum árum og staða sumra allverulega. Auðvitað eru ýmsar ástæður sem valda því þar á meðal framkvæmdir sem þessi sveitarfélög hafa ráðist í en það hafa líka verið, að mati þeirra manna sem þar eru, framkvæmdir sem eru nauðsynlegar til að halda uppi þjónustu, til að halda fólkinu þarna. Menn eru komnir dálítið langt inn í nauðvörn til að halda fólki í sínum byggðarlögum.
    Annað sem ég vil drepa á, og mér finnst vera stórtíðindi í þessu fjárlagafrv., vegna þess að það hefur ekki komið fram áður. Við höfum dregið hér upp að þegar grannt er skoðað er í raun og veru stórkostlegur niðurskurður á framkvæmdum til vegagerðar á næsta ári. Það sem leynist í fjárlagafrv. þegar að er gáð er að þrátt fyrir það að hækkun í krónutölu verði á milli ára, á milli fjárlagafrumvarpa, þá verður að því er ég áætla um 17% niðurskurður í framkvæmdum á næsta ári frá því sem gert er ráð fyrir í samþykktri vegáætlun. Og það er gríðarlegur niðurskurður. Það sýnist mér láta nærri að slaga hátt í það að vera 1000 millj. Ég er hræddur um að ansi margir landsbyggðarþingmenn muni hrökkva illilega við þegar þeir horfa framan í það dæmi hvað þeir hafa til skiptanna að samþykktu þessu frv. borið saman við það sem menn eru þegar búnir að skipta og ráðstafa í vegáætlun.
    Eitt atriði vil ég nefna enn og það er vegna þess að hér var minnst á framlög ríkisstjórnarinnar til að auka niðurgreiðslur á raforku til húshitunar úti á landi. Það ber vissulega að þakka þá viðleitni sem ríkisstjórnin hefur haft uppi um það mál. Hins vegar held ég að menn verði að horfast í augu við það að sú viðleitni dregur ekki mjög langt. Hún hefur verið afskaplega lítil það sem af er. Ég get nefnt sem dæmi um það sem ég veit að taxtar hjá Orkubúi Vestfjarða hækkuðu núna 1. okt. um 10%. ( Fjmrh.: Þeir hækkuðu ekki fyrr á árinu.) Voru áður búnir að hækka á árinu. ( Fjmrh.: Vestfirðingarnir?) Já, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk. ( Fjmrh.: Nei. Það er rangt.) Ég skal ekki þræta við ráðherra um það en við getum ábyggilega gengið úr skugga um það. Og vegna þess að húshitun er niðurgreidd og niðurgreiðslan er ekki aukin á móti hækkuninni, þá þýðir þetta, að því er mig minnir, um 16--17% hækkun í krónutölu á reikningi til húshitunar. Þetta blasir við þrátt fyrir þessar aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur tilkynnt að hún muni grípa til. Þetta held ég að séu atriði sem menn verði að skoða mjög rækilega á næstunni til þess að fá úr því skorið hvort það sé stefna ríkisstjórnarinnar að auka húshitunarkostnað landsmanna á köldu svæðunum þrátt fyrir yfirlýsingar og fyrirheit um annað --- og að nokkru leyti aðgerðir eins og fram hefur komið.
    Í þriðja lagi, sem líka eru veruleg tíðindi, er það að hækkun á lánum Byggingarsjóðs verkamanna gæti orðið mjög mikil. Ég tók hins vegar glöggt eftir því að hæstv. fjmrh. setti málið þannig upp að áformað var að ná ákveðinni upphæð í sparnaði og taldi upp ákveðin atriði sem eiga að leiða til þess að svo geti orðið en síðan verði vextirnir hækkaðir til að ná því sem upp á vantar. Ég er alveg með á þessa forsendu. En hann nefndi sjálfur að það gæti orðið um 1,5--1,75% hækkun á vöxtum í prósentvís talið, það þýðir í krónutölu talið, því það eru krónurnar sem fólkið borgar ekki prósenturnar, hækkunin á vaxtaþættinum er þá 75--80%, 75--80% fleiri krónur. Það er gríðarlega mikil breyting. Ég er hræddur um að menn verði að fara dálítið hægt í það því það verður hjá býsna mörgum greiðendum sem það kollvarpar þeirra greiðsluplani það mikið að það fer upp fyrir þeirra raunverulegu greiðslugetu, breyting af þessari stærð.
    Ég vil þó segja um þau atriði sem hæstv. ráðherra taldi upp að ég er í sjálfu sér sammála honum og ríkisstjórninni í því markmiði að 20% af útlánum sé í almennri kaupleigu, sem markmið í sjálfu sér er ég alveg sammála því. Það er ekkert fjarri því að það sem menn hafa verið að úthluta á undanförnum árum í þessari almennu kaupleigu séu 20% af heildinni. Þannig að ég held að menn vinni í sjálfu sér ekkert mikið með því.
    Endurskoðun á vöxtum eftir sex ára eignarhald, sem gerist þannig að hafi tekjur eiganda farið upp fyrir tiltekin mörk á þessu tímabili og hagur hans vænkast þá hækka vextirnir, getur talist eðlilegt. Þetta er verið að skoða í Húsnæðisstofnun, aðeins byrjað og of snemmt að segja til um það hver niðurstaðan verður. En þó má segja að fyrsta athugun gefur ekki tilefni til mikillar bjartsýni í þá veru að það komi inn auknar tekjur í verulegum mæli vegna þessarar endurskoðunar. Þannig að í mínum huga eru líkurnar á því að vextirnir hækki um það sem hæstv. ráðherra nefndi meiri en hann gerði sér vonir um, en það eru hlutir sem verða náttúrlega að koma í ljós. En standi ríkisstjórnin að þessum áformum sínum þá er allt útlit fyrir að hún sé að auka greiðslubyrði verulega hjá stórum hluta fólks og jafnvel að kollvarpa þeirra greiðsluáætlunum og greiðslugetu í býsna mörgum tilvikum. Þetta eru tíðindi sem mér þykir taka að hafa á orði. Ég held að mönnum muni þykja þetta meiri breytingar en vænta mátti eftir lestur frv., bæði hvað varðar niðurskurðinn í framkvæmdum á vegafé, hækkun á vöxtum Byggingarsjóðsins og orkuverð til húshitunar.
    Ég vil að lokum beina því til hæstv. ráðherra, þar sem hann hafði ekki fullkomin svör við því hvaða sjóður þetta væri sem væri í vörslu biskups Íslands og hver hækkunin væri þar hlutfallsleg sem gert væri ráð fyrir, að hann léti taka þetta saman í sínu ráðuneyti og vinna þessar upplýsingar og senda mér þegar það liggur fyrir. Og ég treysti honum alveg fyllilega til að verða við þessari beiðni.
    Fleira vil ég ekki segja í þessari umræðu, virðulegi forseti, og læt máli mínu lokið.