Kennaramenntun

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 11:57:00 (444)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson):
    Hæstv. forseti. Svo sem kunnugt er hefur um árabil verið alvarlegur skortur á kennurum með full kennsluréttindi í grunnskólum á landsbyggðinni. Tilfinnanlegast hefur þetta ástand verið á Vestfjörðum, Austurlandi og Norðurl. v. Frá því á árinu 1989 hafa menntmrn. og Kennaraháskóli Íslands unnið að undirbúningi svonefndrar dreifðrar og sveigjanlegrar kennaramenntunar. Í þessari hugmynd felst að jafnhliða hinu hefðbundna kennaranámi verði kennaraefnum gert kleift að stunda námið að mestu í sinni heimabyggð, einkum í þeim landshlutum þar sem kennaraskortur er mestur. Þannig gæti tilhögun námsins verið eftirfarandi: Námskeið í heimavistarskólum á landsbyggðinni. Styttri námskeið námshópa á heimasvæði, fjarnám og leiðsögn með aðstoð síma og annarrar nútímasamskiptatækni.
    Það er mikilvægt að menn geri sér ljóst að dreifð og sveigjanleg útfærsla þriggja til fjögurra ára háskólanáms er kostnaðarsöm aðgerð, bæði þegar um skipulagningu og framkvæmd er að ræða. Í þessu sambandi þarf að semja sérstaka kennsluskrá, þróa fjarkennsluaðferðir er falla með eðlilegum hætti að því námi sem hér um ræðir, undirbúa námsgögn og kosta kennslu fjarri miðstöð kennaramenntunar í landinu.
    Á fjárlögum 1991 voru veittar 4 millj. kr. til nýrra verkefna við Kennaraháskóla Íslands. Þar af var 400 þús. kr. varið til undirbúnings dreifðrar og sveigjanlegrar kennaramenntunar. Þrátt fyrir hinn þrönga ramma sem ríkisútgjöldum er settur er við það miðað í fjárlagafrv. fyrir næsta ár að veitt verði 2 millj. kr. til dreifðrar og sveigjanlegrar kennaramenntunar á vegum Kennaraháskóla Íslands.
    Menntmrn. mun ræða við forsvarsmenn Kennaraháskólans strax og fjárlög hafa verið afgreidd á Alþingi um á hvern hátt þessi fjárhæð, ef samþykkt verður, gæti nýst sem best þannig að framkvæmd dreifðrar og sveigjanlegrar kennaramenntunar gæti hafist sem fyrst, helst á næsta ári en ekki síðar en á árinu 1993. Fyrir sitt leyti hefur menntmrn. ítrekað stutt hugmyndir og framgang tillagna um dreifða og sveigjanlega kennaramenntun og talið nám þetta vera mikilvægan þátt til lausnar á þeim kennaraskorti sem til staðar er á landsbyggðinni. Við komu mína í ráðuneytið verður engin breyting þar á. En til viðbótar þessari lausn koma sjálfsagt aðrar til greina sem vandlega verða kannaðar á næstunni í samvinnu við Kennaraháskóla Íslands.
    Af framansögðu má ljóst vera að menntmrn. stefnir að því að tillögur um dreifða og sveigjanlega kennaramenntun komist sem allra fyrst til framkvæmda.