Jarðgangaframkvæmdir á Austurlandi

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 12:10:00 (450)

     Fyrirspyrjandi (Einar Már Sigurðarson) :
     Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin þó auðvitað hefði verið ánægjulegra að heyra meiri ákveðni hjá honum varðandi framtíðina. Ég legg á það mikla áherslu að samgöngumál og jarðgangagerð er að sjálfsögðu ákaflega stórt atriði ef við horfum til byggðamála. Hér hefur ítrekað komið fram í umræðum um byggðamál og ýmislegt þeim tengt að það sé m.a. ætlun ríkisstjórnarinnar að vinna þar að stórum málum. Það kemur því á óvart að hæstv. ráðherra skuli ekki geta kveðið fastar að orði en hann gerði hér úr ræðustólnum áðan.
    Það er rétt að vekja athygli á því að um langa tíð hefur verið mikil samstaða með íbúum í þeim landshlutum sem mestra hagsmuna hafa að gæta varðandi jarðgöng því Norðlendingar, Vestfirðingar og Austfirðingar hafa í raun verið sammála um þá röð sem á þessum framkvæmdum hefur verið og það væri því æði sérkennilegt og illa aftan að mönnum komið ef breytingar verða á þessari áætlun þegar kemur að þeim sem sætt hafa sig við að vera síðastir í röðinni.
    Það var eitt til viðbótar í ummælum hæstv. ráðherra sem vakti athygli mína en það var um hina almennu vegagerð og bundið slitlag. Vissulega er mikil þörf á framkvæmdum í almennri vegagerð og lagningu bundins slitlags, en það er einmitt það að bera saman og segja að ef hægt verði á í jarðgangaframkvæmdum þá verði mögulegt að auka lagningu bundins slitlags. Það er einmitt þessi samanburður sem getur verið mjög hættulegur fyrir hinar stóru framkvæmdir vegna þess að það skiptir auðvitað miklu máli að við höldum þjóðarsátt, eins og sumir hv. þm. hafa gjarnan sagt þegar rætt hefur verið um byggðamál, að það verði haldið þjóðarsátt í jarðgangagerð. Hún hefur verið fyrir hendi og ég vara hæstv. ríkisstjórn við því að hrófla við þeirri sátt sem verið hefur.