Aðgangur íslenskra námsmanna að háskólum ríkja Evrópubandalagsins

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 12:28:00 (459)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
     Hæstv. forseti. Svar mitt er svohljóðandi: Menntmrn. er ekki kunnugt um að íslenskum námsmönnum hafi verið synjað um aðgang að háskólum í ríkjum Evrópubandalagsins vegna þess að námsmenn frá öðrum Evrópubandalagsríkum hafi haft forgang. Hins vegar hefur aðsókn að háskólum í Evrópu aukist mjög mikið síðustu árin og komast færri að en vilja. Víða eru fjöldatakmarkanir í gildi og sums staðar sérstakar hömlur á aðgangi erlendra námsmanna. Íslenskir námsmenn keppa við aðra umsækjendur samkvæmt þeim inngönguskilyrðum sem gilda í hverju landi og í hverjum skóla. Aukin samkeppni hefur leitt til þess að fleiri íslenskum námsmönnum er nú synjað um skólavist erlendis en áður, en ekki verður séð að munur sé þar á aðildarríkjum Evrópubandalagsins og öðrum ríkjum.