Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 13:58:00 (464)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
     Hæstv. forseti. Vegna fjarveru minnar úr þinginu hér síðustu tvær vikur hefur dregist nokkuð að þessi umræða um skólamál gæti farið fram. Ég þakka hv. þm. sem höfðu farið fram á utandagskrárumræðuna þolinmæði þeirra að bíða þetta lengi. Það hefur orðið að samkomulagi, eins og kom hér fram hjá hv. þingkonu Kristínu Ástgeirsdóttur, að umræðan um málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna, sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir hafði óskað eftir að færi fram, bíði, væntanlega þá þar til í fyrstu viku nóvember.
    Frummælandi kom mjög víða við í ræðu sinni um skólamál. Ég mun eftir bestu getu ræða þá þætti sem hún gerði alveg sérstaklega að umræðuefni. Það er kannski rétt að ég byrji þá á skólagjöldunum sem rætt hefur verið um að leggja á vegna þess að hv. þm. gerði þeim fyrirætlunum nokkuð ítarleg skil í sínu máli.
    Samkvæmt fjárlagafrv. er skólagjöldum ætlað að standa undir nokkrum kostnaði við framhaldsskólana og háskólastigið. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að heimilt sé að innheimta allt að 8.000 kr. á nemanda á framhaldsskólastigi og allt að 17.000 kr. á háskólastigi. Ég tek skýrt fram að hér er um heimild að ræða en ekki skyldu skólanna til þess að nýta sér þessa heimild. Það hefur verið skýrt tekið fram að finni skólarnir aðrar leiðir til að ná saman endum, þá fari þeir þær. Ég tek líka fram að liðnum Rekstrarhagræðing í framhaldsskólum, eins og hann heitir, er ætlað að skipta á framhaldsskólana fyrir afgreiðslu fjárlaga eins og segir í athugasemd við fjárlagafrv. Jafnframt tek ég fram að ríkisstjórnin hefur samþykkt að láta kanna sérstaklega hverjar heimildir raunverulega felast í gildandi lögum til innheimtu sérstakra gjalda og hvaða rekstrarliðir í skólunum það eru sem með slíkri gjaldtöku má greiða. Ef það reynist svo að 8.000 kr. á nemanda sé of há tala, þá verður það leiðrétt fyrir afgreiðslu fjárlaga.
    Það liggja auðvitað nú þegar fyrir álitsgerðir lögfræðinga um þessar heimildir, en engu að síður verður þetta athugað enn á ný vegna efasemda sem komið hafa fram um heimildir og komu m.a. fram í máli hv. frummælanda. Ég get nefnt að ég hef undir höndum greinargerð frá Arnmundi Backman lögfræðingi um þetta mál. Menntmrn. hafði óskað eftir af ákveðnu tilefni við þennan lögfræðing með bréfi 20. febr. 1991 að hann léti í ljós álit sitt á þessum heimildum. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég aðeins að vísa í þetta álit. Þar segir svo:
    ,,Ég tel að það sé ótvíræð skylda nemenda í framhaldsskólum að greiða skólagjöld. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 57/1988, með áorðnum breytingum, skal skólanefnd ákveða upphæð gjalda er nemendum er gert að greiða við innritun í námsáfanga, svo sem innritunargjöld, efnisgjöld, pappírsgjöld og nemendasjóðsgjöld.
    Í 8. mgr. 15. gr. reglugerðar segir enn fremur að það sé hlutverk skólanefndar að ákveða að fengnum tillögum skólameistara upphæð gjalda er nemendum er gert að greiða við innritun í námsáfanga, svo sem innritunargjald, efnisgjald, pappírsgjald og nemendasjóðsgjald og sjá um bókhald yfir gjöldin og endurskoðun.``
    Það segir hér svo síðar: ,,Af framangreindu leiðir að fyrir því er ótvíræð lagaheimild að innheimta bæði pappírs- og prófgjöld eins og í því máli sem hér um ræðir`` --- það var sérstakt mál sem var tilefni þessarar álitsgerðar --- ,,en einnig nemendasjóðsgjöld þau sem um ræðir og er þá vísað til þess að öll nemendasjóðsgjöldin hafa nemendur sjálfir samþykkt að greiða á fundum sínum allt frá því að tiltekinn sjóður var stofnaður.``
    Það liggja fyrir fleiri álitsgerðir um þessar heimildir og svo náttúrlega liggur það fyrir að mikill fjöldi skóla á framhaldsskólastiginu hefur innheimt skólagjöld, ég veit ekki hve lengi. Ég hef aðeins upplýsingar í höndunum fyrir síðasta skólaár. Og þar kemur það skýrt fram að mikill fjöldi skóla hefur innheimt slík gjöld. Þess vegna er það ekki rétt sem hv. frummælandi sagði að um skólagjöld til reksturs skólanna sé ekki að ræða. Því miður

er það hins vegar svo að flestir þeirra skóla sem hafa innheimt gjöldin hafa ekki gert ráðuneytinu neina grein fyrir því hvernig þessar upphæðir hafa verið nýttar. Það eru aðeins örfáir skólar sem hafa sýnt það í fjárhagsáætlunum sínum og tillögum til menntmrn. fyrir næstu fjárlög að þeir innheimti slík gjöld sem renni til skólans beint. Ég er ekki að tala hér um, menn mega ekki rugla því saman, þau gjöld sem skólarnir innheimta fyrir nemendafélögin. Það er allt annað mál sem menntmrn. ætlar sér ekki að hafa nein afskipti af.
    Ég held satt að segja að það sé ekki ástæða núna við þetta tækifæri til að ræða þessi mál frekar. Þau koma auðvitað til umræðu við afgreiðslu fjárlaganna, koma til meðferðar og umræðu bæði í fjárln. þingsins og í menntmn. vegna fjárlagafrv. Ég held ég sé heldur ekkert að tefja tímann með því að vera að rekja núna þá innheimtu sem hefur átt sér stað og ég vísaði til áðan. Sú innheimta er einfaldlega staðreynd. Ég hef því miður ekki nákvæmar tölur um þetta, en ég hef nefnt töluna 250 millj. sem samtals hafi verið innheimt í þessu kerfi. En ég hef ástæðu til að ætla að þessi tala sé töluvert mikið hærri ef sérskólarnir eru teknir með og ef farið væri sérstaklega ofan í ýmsa innheimtu vegna efnisgjalda hjá sérskólum og reyndar fjölbrautaskólum líka. Það kom hins vegar ýmsum á óvart þegar þessar tölur voru gefnar upp nú í sumar og ýmsum þótti þetta sérkennilegt. Ég verð að segja alveg eins og er að mér hefur þótt það hljóma dálítið einkennilega þegar einstakir skólameistarar skrifa lærðar greinar gegn þessum hugmyndum um innheimtu skólagjalda, sérstaklega þegar um er að ræða skólameistara sem hafa stundað þessa innheimtu án þess að gera ráðuneytinu grein fyrir henni en slík dæmi eru til. Það er holhljómur í slíkum skrifum.
    Ég held ég láti þetta nægja þó ég hafi sannarlega miklu meira um skólagjöldin að segja en ég hef gert, en ég læt þetta nægja af þeirri ástæðu sem ég nefndi að þetta mál á allt saman eftir að koma frekar upp í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna. Ég ítreka þá enn að ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja sérstaka nefnd sem tekur til starfa nú þessa daga til að fara ofan í þetta mál allt og kanna heimildirnar. Og eins og ég sagði í upphafi, ef þær reynast vafasamar, þá verður þessum tölum sem eru í fjárlagafrv. breytt. Það liggur alveg fyrir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um það.
    Hv. frummælandi kom í sínu máli næst að málefnum Kennaraháskólans og gerði að umræðuefni þá ákvörðun mína að kalla aftur heimild forvera míns til þess að taka upp fjögurra ára nám við Kennaraháskólann í stað þriggja ára sem nú er.
    Í lögum um Kennaraháskólann frá 1988 er lagður grunnur að 120 eininga kennaranámi, þ.e. lengingu námsins um eitt ár, úr þremur árum í fjögur. Í sömu lögum er hlutverk skólans skilgreint þannig að Kennaraháskóli Íslands skuli vera vísindaleg rannsóknamiðstöð í uppeldis- og kennslufræðum og miðstöð kennaramenntunar hér á landi. Kennaraháskólinn skal annast endurmenntun, símenntun með skipulegri fræðslu og kynningu á markverðum nýjungum í skóla- og uppeldismálum og stuðningi við nýbreytni og þróunarstörf. Þá skal Kennaraháskóli Íslands annast framhaldsmenntun og viðbótarmenntun, einkum á sviði uppeldis- og kennslufræða. Skólinn skal leggja áherslu á rannsóknir á sviði skólastarfs við íslenskar aðstæður og stuðla með þeim hætti að þróun og umbótum í skólakerfinu. Hér er auðvitað um að ræða mikilvægt og fjölþætt verkefni sem skólanum er falið.
    Á umliðnum árum hefur gengið hægt hjá Kennaraháskóla Íslands að fá tækifæri til að sinna þessum verkefnum. Kennarar hafa kvartað undan því að of litlu fé sé varið til endurmenntunarstarfs skólans. Rannsóknastarfsemi á vegum Kennaraháskólans hefur verið afar takmörkuð og þá hefur skólinn ekki enn getað boðið upp á framhaldsnám til æðri prófgráða, svo sem mastersgráðu. Eins og ég sagði er þetta mjög metnaðarfullt hlutverk sem skólanum er ætlað en hefur gengið of hægt að ná því fram.
    Það sem einkum réð ákvörðun minni um að kalla aftur þessa ákvörðun var sú staðreynd að við vorum með þessu að skrifa ákveðna reikninga inn í framtíðina og það er nokkuð sem þessi ríkisstjórn ætlar sér ekki að gera. Það er alveg ljóst að það kallar á verulegar byggingarframkvæmdir að taka við heilum nýjum árgangi í þessum skóla þó að við tölum nú ekki um nema 120 nemendur sem er auðvitað of lág tala. Það er of lág tala nema sem hefur verið unnt að taka inn í þennan skóla til þessa. Eitt með öðru sem veldur þessum kennaraskorti er að það eru of fáir nemendur sem útskrifast. Kannski ætti ég heldur að orða það svo: Það eru of fáir af þeim sem útskrifast sem koma til starfa eins og glögglega kom fram í þeim tölum sem hv. frummælandi kom hér með og ég kannast vel við.
    Einnig þykir mér sem það sé ekki rétt leið til þess að bæta úr kennaraskortinum í landinu að efna til aðgerða einmitt nú sem hafa það í för með sér að enginn kennari muni útskrifast árið 1994. Ég held að við verðum að undirbyggja þessa ákvörðun betur en þarna hefur verið gert. Þetta eru meginástæðurnar fyrir því að þessi ákvörðun var tekin.
    Ég læt þess svo líka getið, sem ég hugsa að öllum sé ljóst, að ákvörðun um fjögurra ára kennaranám er ekki óumdeild ákvörðun, því fer víðs fjarri. Ég skil vel áhuga aðstandenda Kennaraháskólans en um þetta er sem sagt deilt meðal kennara og skólamanna yfirleitt og mér þótti þess vegna fullkomin ástæða til að doka við og kanna þetta mál allt saman betur. Meginrökin eru sem sagt þessi sem ég hef þegar getið um. Það er kannski dálítið erfitt að nefna ákveðnar tölur um það hvað þarna kann að sparast, enda er það ekki eingöngu það atriði sem ég er þarna að tala um. Samkvæmt áætlunum Kennaraháskólans sjálfs var ætlað að fram til ársins 1995 ykist kostnaður um 78 millj. kr. og svo, eins og ég sagði áðan, er þörf fyrir viðbótarhúsnæði sem ég ætla ekki að nefna neinar tölur um hvað mundi kosta en það hlýtur að velta á einhverjum hundruðum milljóna. Við höfum átt um þetta fundi með fulltrúum Kennaraháskólans og það er alveg ljóst að þetta mál verður ekki skilið eftir í lausu lofti. Við höfum komið okkur saman um það, ráðuneytið og Kennaraháskólinn, að setja nefnd af stað sem er að hefja störf einmitt núna þessa dagana þar sem verða tveir fulltrúar frá Kennaraháskólanum og tveir tilnefndir af ráðuneytinu til þess að fara ofan í þetta mál allt saman. Ég vona að það þurfi ekki að líða langur tími þar til ljóst verður hvert framhald þessa máls verður. Ég tek það fram að með þessari ákvörðun er ekki verið að segja að Kennaraháskólinn skuli aldrei verða fjögurra ára skóli, enda er það ákvæði í lögum og þarf að breyta þeim ef frá því verður endanlega fallið.
    Þá minntist málshefjandi næst á málefni Menntaskólans við Hamrahlíð. Það er ein af þeim aðgerðum mínum sem hefur víst valdið dálítilli ókyrrð. Ég held að ég verði fyrst í því samhengi að fara nokkrum orðum um framhaldsskólann almennt.
    Það er alveg ljóst að framhaldsskólinn er í miklum vanda, vanda sem stafar að hluta til af því sem ég vil kalla gáleysislegar ákvarðanir teknar af fyrri stjórnvöldum og hluta til teknar vegna breyttra þjóðfélagshátta. Það er búið að opna framhaldsskólann öllum. Hann er orðinn almenningsskóli í þeim skilningi að nú er ætlast til að nær allir fari í framhaldsskóla, að nær allir taki stúdentspróf. Framhaldsskólinn er hins vegar engan veginn í stakk búinn til þess að taka á móti þeim mikla fjölda nemenda sem þangað leitar eins og málum er nú háttað og þar kemur margt til. Það blasir við að nemendur eru mjög misjafnlega undir framhaldsnám búnir. Undirbúningur, áhugi og hæfileikar eru mismunandi. Framhaldsskólinn er hins vegar miðaður við tiltölulega einlitan hóp nemenda sem ætlast er til að stundi bóknám til stúdentsprófs. Á þessu eru að vísu veigamiklar undantekningar. Mér sýnist að það hafi skapast kreppuástand í skólamálum á framhaldsskólastigi. Þetta er hins vegar ekkert einsdæmi á Íslandi. Í löndunum í kringum okkur er þetta vandamál að vissu marki alls staðar fyrir hendi. Hins vegar er þetta kannski með versta móti hér á landi vegna þess að ekki hefur verið rétt að þessu staðið. Framhaldsskólinn hefur verið opnaður eins og ég sagði fyrir öllum án þess að tillit væri tekið til undirbúnings nemenda né tryggt að nægilega fjölbreytilegt nám stæði þessum hópi til boða. Það vantaði líka fyrirhyggju í þá átt að tryggja fjármagn í tengslum við þessar breytingar. Ef fjölga á svo mikið í framhaldsskólunum sem raun ber vitni þarf að auka fjármagn til skóla, svo og fjölbreytni námsins. Hvorugt hefur verið gert og það má segja að með þeim ákvörðunum um þær breytingar sem gerðar hafa verið hafi framhaldsskólakennarar líka verið settir í mikinn vanda. Það er raunar ekki réttlætanlegt að setja samviskusama kennara --- og við skulum segja að þeir séu allir samviskusamir --- í þá stöðu að opna framhaldsskólana á þennan hátt án þess að tryggja nauðsynlegar skipulagsbreytingar og fjármagn. Nemendur eru svo misjafnlega undirbúnir að oft og tíðum er nánast ógerningur að kenna öllum í sömu hópum. Flest bendir til þess að fornámið sem komið var á til að jafna þann mun sem var á undirbúningi nemenda skili sér ekki. Þó sýna rannsóknir að töluvert stór hópur framhaldsskólanema, eða um 20%, á í verulegum persónulegum erfiðleikum og framhaldsskólinn ekki þess umkominn að bregðast við því. Við þurfum að finna leið út úr þessum vanda.
    Ef við lítum nánar á málið sem kemur upp í Hamrahlíð þá er það að hluta til angi af þeim almenna vanda sem framhaldsskólinn er í. Þar er tekist á um gildi og eðli stúdentsprófsins þar sem annars vegar eru skýrar kröfur frá Háskóla Íslands og hins vegar er um að ræða tillögur Hamrahlíðarmanna sem ganga meira út frá því að koma til móts við þann fjölbreytilega hóp nemenda sem inn í skólann kemur. Það er mjög brýnt í þessu sambandi að tryggja að stúdentsprófið haldi gildi sínu. Það er a.m.k. mín skoðun. Til þess að svo megi verða þarf að skapa fjölbreytilegra nám þannig að fleiri leiðir verði áhugaverðar fyrir framhaldsskólanemendur en stúdentsprófið eitt. Þetta þarf allt að skoðast í samhengi og það verður trúlega ekki sársaukalaust fyrir alla aðila að koma þessum málum í höfn. Í því skyni að reyna að leysa þessi mál er ég að ganga frá skipun nefndar sem á að koma með tillögur til útbóta í málefnum framhaldsskólans, m.a. að skilgreina betur kröfur til stúdentsprófs og hinar ýmsu námsbrautir á framhaldsskólastigi.
    Ég fer ekkert dult með það, án þess að ég ætli að skjóta mér á bak við aðra í sambandi við þessa ákvörðun mína, að mér hnykkti við þegar ég fékk álit kennslumálanefndar Háskóla Íslands út af þessu máli öllu og það álit varð einmitt til þess að ég fór að rekja það hvern aðdraganda þessi ákvörðun hafði átt í ráðuneytinu. Og mér þótti satt að segja sem nokkuð hefði skort á samráð við þá sem þarna hafa verulegra hagsmuna að gæta og á ég þar auðvitað sérstaklega við Háskóla Íslands. Nú tek ég það líka fram að stúdentar fara víðar en í Háskóla Íslands, en hann er þó eini skólinn á háskólastigi, ég held að ég sé ekki að segja of mikið, ég held að ég sé ekki að taka of djúpt í árinni, hann er alla vega sá skóli sem hefur sínar dyr opnar fyrir öllum sem þangað vilja koma og hafa stúdentspróf. Þannig er það með Háskólann.
    Þau aðvörunarorð, sem komu fram í áliti kennslumálanefndarinnar, voru þess eðlis að mér þótti ástæða til að staldra við og það var gert. Ég sagði að ég væri að ganga frá skipan nefndar sem ætti að skoða þessi mál öll. Sú nefndarskipan verður gerð í fullu samkomulagi við forustu Menntaskólans við Hamrahlíð, við Háskóla Íslands og ég vænti þess að skólameistarafélagið og líkast til Félag framhaldsskólakennara eigi aðild að því verki sem þarna verður unnið.
    Það er ástæða til að hafa nokkrar áhyggjur af þróun þessara mála, hvernig komið er fyrir þeim sem flaggað geta stúdentsprófi í dag og jafnvel þeim sem stundað hafa háskólanám. Það er ekki að ástæðulausu að menn hafi nokkrar áhyggjur af því hver geta þeirra er sem hafa slík próf. Ég á kannski ekki að vera að flagga neinum sönnunargögnum en ég hef gert það einhvern tímann áður á fundi, raunar á fundi með nemendum og kennurum í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Ég fékk bréf, ég fæ mörg bréf í menntmrn., eitt var með þessari áritun: Herra

Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra, menntamálaráðuneytinu. Það var ekki lengra en þarna tókst að koma fyrir sex ritvillum í ekki lengra máli. Þetta er aðili sem ég að vísu þekki ekki en hefur stundað háskólanám. Bréfið sjálft var náttúrlega ekki gott en ekki svo margar villur í svo fáum línum sem þarna var. Ekki ætla ég að alhæfa en margir sem þarna koma að verki hafa lýst miklum áhyggjum yfir þróun þessara mála. Ég læt þetta nægja um þetta atriði, Menntaskólann við Hamrahlíð. ( SvG: Þessi nemandi hafði háskólapróf frá þessum sama háskóla sem var að gera kröfur.) Sem var að gera kröfur? ( SvG: Sem var að gera kröfur til breyttra hátta í Menntaskólanum við Hamrahlíð.) Þekkir fyrrv. ráðherra kannski strax hver var bréfritarinn? ( SvG: Hæstv. ráðherra nefndi að þetta væri maður með háskólapróf.) ( Forseti: Ekki samtal við ræðumann.)Við fáum nóg tækifæri til að spjalla saman án frammíkalla.
    Ég held að næst hafi hv. framsögumaður drepið á ritið Til nýrrar aldar og ráðlagt mér að kynna mér það rit. Ég hef gert það eftir bestu getu og hef sagt að í því sé margt mjög gagnlegt og gott sagt og eins og kom fram hjá hv. ræðumanni komu þar margir að verki. Þetta er mér alveg ljóst. En þetta rit, Til nýrrar aldar, var gefið út af menntmrn. á liðnu vori og er í raun framkvæmdaáætlun fyrrv. menntmrh. Ritið er stefnuyfirlýsing hans og ekkert nema gott um það að segja, líka það að það var gefið út rétt fyrir kosningar. Nú er hins vegar staðreyndin sú að það er komin ný ríkisstjórn og nýr ráðherra og það er ekki óeðlilegt að reikna með nýjum áherslum við það að slíkar breytingar verða.
    Ég hef lýst því yfir að auðvitað verði það framkvæmt sem í þessu riti segir þar sem saman fer það sem þar segir og lög ákveða. En ýmsar aðrar bollaleggingar sem þar koma fram verða auðvitað endurmetnar og sú endurskoðun stendur einfaldlega yfir. Svo einfalt er það. En ég tek enn fram að með þessu er ekki verið að fordæma eitt né neitt, sem í þessu riti stendur. Ég gæti vafalaust tínt til eitthvað sem ég er algjörlega ósammála en sé ekki ástæðu til þess. Þetta verður einfaldlega endurmetið.
    Hvítbókin kom hér nokkuð til umræðu. Ég sé að ég er alveg að verða búinn með tímann þannig að ég veit ekki hvernig ég á að nota --- hvað á ég mikið eftir, forseti? ( Forseti: Tíminn mun vera kominn akkúrat á þessari stundu.) Ég er ekki hálfnaður og ekkert kominn að því sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi. Ef ég fæ nokkrar mínútur þá gæti ég svo sem drepið á örfáa þætti. Á ég ekki eftir annan hálftíma, ef ég kann nýju þingskapalögin rétt? Þá get ég að sjálfsögðu notað þann tíma til að koma að öðrum atriðum. En ef ég má, með leyfi forseta, kannski aðeins syndga upp á náðina á seinni hálftímanum? ( Forseti: Það er tæpur hálftími kominn.) Þá held ég að ég reyni að velja úr eitthvað af því sem ég á eftir að svara.
    Hv. málshefjandi kom hér t.d. nokkuð inn á launamál kennara sem er mjög freistandi að ræða þó ég verði að taka fram, og það vita auðvitað allir, að launamálin eru ekki á borði menntmrh., heldur er það fjmrh. sem hefur með samningamál við kennara eins og aðra ríkisstarfsmenn að gera. En það breytir hins vegar ekki því að ég kann að hafa einhverjar skoðanir á þessu. Það er deginum ljósara að laun kennara eru ekki í samræmi við mikilvægi starfa þeirra. Það er ég alveg sannfærður um. Ég hef ekki lausn á reiðum höndum fremur en aðrir en ég segi hins vegar að mér þykir sem laun og kjaramál opinberra starfsmanna yfirleitt séu farin að standa skipulagi hjá hinu opinbera almennt fyrir þrifum. Mér finnst t.d. ekki gott að forusta kennarasamtakanna skuli fyrst og fremst vera upptekin af kjarabaráttunni og er í sjálfu sér kannski ekkert að undra að svo sé. En það er vont að svo mikill tími forustu kennarasamtakanna skuli fara í slík mál. Við þurfum að komast út úr þessum vítahring með einum eða öðrum hætti.
    Ég get aðeins skotið því að svona í framhjáhlaupi að ég heimilaði núna í sumar að gerður yrði svonefndur skólasamningur við Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Það er tilraun sem verið er að gera til þess að brjótast út úr þessum vandamálum. Við munum fylgjast vandlega með því í ráðuneytinu hvað út úr þeim málum kemur. Þar er í stórum dráttum staðið þannig að málum að það er gerður samningur við tiltekinn hóp kennara í skólanum þar sem þeir gangast undir það að hafa tiltekna viðveru í skólanum og ganga í ýmis verk þar. Ég bið menn nú um að misskilja það ekki, það er ekki í ræstingu eða neitt slíkt, það er í kennslu, viðtöl við nemendur og foreldra og annað slíkt en þeir hafa alveg tiltekna viðveru. Hafa af þessu nokkurn fjárhagslegan ávinning en eins og þetta mál er lagt upp við mig þá er ástæða til að ætla að af þessu verði líka alls konar annar ávinningur og má kannski vera að þetta sé ein leið sem við gætum farið.
    Um endurskoðun laga á hinum ýmsu skólastigum sem ég hef nefnt að yrði gerð þýðir einfaldlega það sem í þessum orðum felst að það er ástæða til endurskoðunar á ýmsum ákvæðum laga hinna einstöku skólastiga bæði í ljósi reynslunnar og vegna breyttra tíma. Um það gæti ég að sjálfsögðu líka sagt miklu fleira en nú er forseti farin að hringja bjöllunni. Ég held að ég verði þess vegna að bíða þar til í seinni ræðu að ræða málefni Reykjanesskólans sem ég á hér alveg eftir og raunar ýmislegt fleira sem ég hafði hug á að koma að í þessari umræðu.