Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 16:10:00 (479)

     Einar K. Guðfinnsson :
     Virðulegi forseti. Í dag hafa staðið hér þarfar umræður um mál sem hvort um sig var fullt tilefni til þess að ræða, almenn skólamálaumræða, sem vitaskuld þarf alltaf að eiga sér stað í okkar þjóðfélagi ekki síst vegna þess að við stöndum frammi fyrir miklum og óleystum vanda í þeim þætti, vanda sem bæði er skólamálalegs eðlis og einnig fjárhagslegs eðlis, og vanda sem hefur komið upp vegna þeirrar óvæntu og óréttmætu ákvörðunar hæstv. menntmrh. að afleggja skólahald í Reykjanesi við Djúp á næsta ári. Ég tel þessa umræðu, þó að hún hafi verið af fullu tilefni, ákaflega óheppilega að því leytinu að hér er verið að sulla saman tveimur stórum málum sem vitað var að hlytu að kalla á mjög mikla umræðu og því hefði verið miklu eðlilegra að þessi umræða hefði farið fram undir öðrum formerkjum en hér hefur gerst í dag. Ég hefði t.d. talið ekki óskynsamlegt að þá umræðu, sem nú fer fram um Reykjanesmálið, hefði getað borið þannig að að þingmenn hefðu borið fram ósk um skýrslu um málið en í þingsköpum er einmitt gert ráð fyrir því að þannig sé hægt að standa að málum sem níu þingmenn hið fæsta telja ástæðu til þess að ræða. Sá framgangsmáti hefði að mínu mati verið miklu skilvirkari og miklu líklegri til þess að laða fram þá nauðsynlegu umræðu sem um þetta mál þarf að fara.
    Ég sagði áðan að ákvörðunin um lokun Reykjanesskólans hefði verið ónauðsynleg og óréttmæt og það er einlæg sannfæring mín. Ég geri mér hins vegar mæta vel grein fyrir því, eins og ég hygg að flestir geri og fram kom í máli hæstv. menntmrh. að hefði verið skilningur okkar, þeirra fjögurra þingmanna, sem mættum á títtnefndan fund í menntmrn. til þess að ræða um málefni Reykjanesskóla, að það er fyllileg ástæða til þess að ræða til frambúðar málefni skólans og ég hef aldrei skorast undan því. Hins vegar hygg ég að afar óheppilega og óskynsamlega hafi verið að öllu þessu máli staðið. Það hefur síst orðið til þess að auðvelda framtíðarvinnuna í þágu þessa skóla og í þágu skólahaldsins í landinu í framtíðinni.
    Þau rök sem sett hafa verið fram fyrir því að nauðsyn hafi krafið að loka Reykjanesskólanum í ár eru einkanlega þau að kostnaður við skólahaldið hafi verið mikill vegna þess hve nemendafæðin sem við blasti í skólanum hafi verið alvarleg. Það hefur verið sagt sem svo og var sett fram sem skilyrði af hálfu menntmrn. að til þess að skólinn mætti starfa áfram í vetur yrði það að liggja fyrir að a.m.k. 30 nemendur kæmu að skólanum í haust. Það var úrslitakrafa, það ultimatum sem ráðuneytið setti stjórnendum skólans, að í skólanum yrðu að vera 30 nemendur hið fæsta til þess að hann mætti starfa.
    Niðurstaðan af þessu máli varð sú að það tókst að vísu ekki á þeim fáu dögum sem fram undan voru að uppfylla fullkomlega skilyrðið um 30 nemendur, en hins vegar er það staðreynd að 27 nemendur voru þess albúnir að hefja nám í skólanum í haust hefði skólinn fengið að starfa. Fyrir nú utan það sem allir ættu að vita og ekki síst starfsmenn ráðuneytisins að það hefur verið reynslan af starfi Reykjanesskólans, og raunar margra annarra skóla á landsbyggðinni, að aðsókn að skólanum eykst ekki síst á haustin af ýmsum ástæðum. Það eru fjölmargir nemendur sem sækja ekki um skólavist fyrr en jafnvel eftir að skólahald hefst og koma til skólans langt fram eftir öllu hausti. Fyrir því eru margar ástæður. Þetta hefur m.a. verið eitt af einkennum skólans í Reykjanesi vegna þess, eins og ég hygg að hafi komið fram í máli hæstv. menntmrh., að skólinn hefur verið þýðingarmikið skjól fyrir mjög marga nemendur í landinu sem ekki hafa átt í önnur hús að venda eða séð sínum hag best borgið á haustin með því að sækja í skólann, jafnvel þó að þeir eigi langt að sækja.
    Það er alveg rétt að um tíma í sumar litu mál ekkert allt of vel út fyrir þennan skóla við Ísafjarðardjúp. Vegna breyttra laga um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga háttaði þannig til að launakostnaður í mötuneyti hefði fallið með fullum þunga á nemendur í skólanum. Þessir litlu sveitarhreppar sem í kringum skólann eru voru ekki í stakk búnir til þess að greiða þennan kostnað og auðvitað hlaut þessi aukakostnaður sem yfirvofandi var að draga úr skólasókninni, draga úr áhuga nemendanna og foreldranna til þess að senda börnin sín í þennan skóla. Þá gerðist það hins vegar að stjórn Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga tók þá ákvörðun að standa undir þessum kostnaðarlið þannig að úr vegi var þessari hindrun sem við mörg, velunnarar skólans, óttuðumst að gæti ella orðið honum að fótakefli.
    Það er þess vegna ekki rétt að dræm skólasókn hafi verið réttmæt forsenda fyrir því að fella niður skólahaldið. Aðsóknin að skólanum var í fullu meðallagi og þess vegna var eðlilegt að starfrækja skólann í vetur.
    Reykjanesskóli við Djúp hefur, eins og fram kom í máli hv. 1. þm. Vestf., gegnt afar mikilvægu hlutverki í skólahaldi á Vestfjörðum. Þetta hefur verið menntasetur Ísafjarðardjúpsins. Í þennan skóla hafa sótt nemendur víða að og hann hefur gegnt mjög miklu hlutverki. Það er út af fyrir sig alveg rétt sem hæstv. menntmrh. sagði að breyttar aðstæður í sveitum landsins og breyttar aðstæður í landinu hafa kallað á endurskoðun á skólahaldi og starfsemi við Reykjanes eins og annars staðar. Ég lýsti því til að mynda yfir á þessum fræga títtnefnda fundi, sem menntmrh. og ráðuneytið boðuð þingmenn Vestfirðinga á með litlum fyrirvara, að ég væri þess albúinn að taka þátt í þeirri endurskoðun. Vegna þess að ég er því sammála að sú starfsemi sem við Reykjanesið hefur verið upp á síðkastið var ekki til þess að byggja á til frambúðar. Ég tel að þetta svæði og þessi staður eigi annað og betra skilið en að hökta áfram í fyrsta gír, skólinn eigi alla virðingu skilið og það þurfi fremur að efla þá starfsemi en að láta hana drepast niður í dróma.
    Hitt er auðvitað alveg ljóst að sú endurskoðun átti ekki að hefjast með því að leggja skólastarfið svo fyrirvaralítið niður. Það er út af fyrir sig rétt sem hæstv. menntmrh. benti á að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem lokun hefur vofað yfir þessum skóla. Ég þekki það af langri göngu minni sem formaður fræðsluráðs Vestfjarðaumdæmis að það hefur áður syrt mjög í álinn fyrir þennan skóla. Við höfum áður endurskoðað starfsemi og starfshætti skólahaldsins þarna. En aðstæður nú kölluðu enn á endurskoðun og ég er þeirrar skoðunar að veturinn sem nú er að hefjast hefðum við átt að nota í rólegheitunum til þess að finna starfsemi í Reykjanesinu nýjan og öflugan farveg.
    Það er rétt að vekja athygli á því að formaður skólanefndar Héraðsskólans í Reykjanesi hefur ítrekað bent á að umsóknir um skólavist í skólanum voru orðnar um 24 þegar menntamrn. hélt því fram að þær væru allt að helmingi færri. Það er líka ástæða til þess að láta það koma fram hér, sem var upplýst á fundi með okkur þingmönnum Vestf. á Suðureyri við Súgandafjörð 28. ágúst sl., að menntmrn. hafði hvorki fengið upplýsingar sínar um væntanlega skólavist nemenda við Reykjanesskóla frá formanni skólanefndar né skólastjóra. Þess vegna vaknar með manni sú spurning hvaðan í ósköpunum þessar upplýsingar voru fengnar. Hvaðan í ósköpunum og hvaðan í dauðanum fékk ráðuneytið þessar tölur? Voru þær gripnar utan úr loftinu? Voru þetta einhverjar tölur sem höfðu borist með ótilgreindum hætti inn í ráðuneytið eða hvað hafði gerst? Staðreyndin var sem sagt sú að forráðamenn skólans sem gerst máttu þetta mál þekkja höfðu ekki veitt þessar upplýsingar. Þeirra upplýsingar hljóðuðu upp á að 24 nemendur höfðu um þessar mundir sótt um og niðurstaðan varð sú að um það leyti sem skólahald átti að hefjast voru komnir 27 nemendur sem voru tilbúnir til þess að hefja nám við skólann í haust.
    Það er svo önnur saga sem hv. 1. þm. Vestf. rakti hér áðan að það var auðvitað með ólíkindum hvernig að öllu þessu máli var staðið, að ráða fyrst bæði kennara og skólastjóra að skólanum og taka síðan ákvörðun um það nokkrum dögum seinna að leggja niður skólahaldið. Þetta segir manni auðvitað að hið fjárhagslega spursmál, sem þó hefur alltaf verið sagt að væri ástæðan fyrir því að skólahaldið yrði ekki í vetur, var ekkert fyrir hendi. Það verður ekki sá fjárhagslegi ávinningur af þessari ákvörðun að með með nokkru móti sé hægt að réttlæta hana.
    Eftir því sem ég best veit var búið að ráða skólastjóra. Það var búið að ráða kennara. Það þarf húsvörslu við þennan skóla í vetur. Maður spyr þess vegna sjálfan sig: Hvar er og hver verður þessi sparnaður? Það er gert ráð fyrir því í frv. til fjárlaga að þessi sparnaður geti numið eitthvað í kringum 10 millj. kr. miðað við fjárlögin í ár og verður náttúrlega út af fyrir sig fróðlegt að sjá hvort þær tölur standast. Jafnvel þótt svo verði er auðvitað ljóst að fjárhagslega er þetta ekki mál sem skiptir neinu í ríkissjóðsdæminu.
    Ég sagði áðan að ég væri fyllilega tilbúinn til þess að standa að endurskoðun á starfseminni sem á að fara fram í Reykjanesi. Ég, eins og margir aðrir, hef haft af því nokkrar áhyggjur að ekki hafi verið nægjanlega vel frá því gengið hvernig staðið var að málum í Reykjanesinu. Annars vegar var hér um að ræða skóla og menntasetur fyrir Inn-Djúpið og nokkra nemendur af Vestfjörðum, hins vegar var hér um að ræða griðastað fyrir marga nemendur, eins og ég sagði áðan, sem ekki áttu í önnur hús að venda eða sáu hag sínum betur borgið með því að fara í þennan skóla. Ég tel að það hafi verið ámælisvert af yfirvöldum menntamála alla tíð að viðurkenna ekki þessa sérstöðu skólans, viðurkenna það ekki að slík starfsemi kallaði á aukna sérkennslu, á aukna sálfræðiþjónustu og ýmislegt fleira í þeim dúr. Fyrir utan það að sumir kunna að hafa haft af því áhyggjur að þetta tvennt færi kannski ekki allt of vel saman. En það er önnur saga.
    Ég vil ítreka það að í Reykjanesi þarf að fara fram lifandi og öflug starfsemi. Þar er nú þegar starfrækt efnileg ferðaþjónusta hluta úr árinu. Þeirri þjónustu þurfum við að viðhalda og bæta við hana. En engu að síður er það svo að þarna þarf að fara fram kröftug starfsemi sem jafnframt tryggir það að Reykjanes við Djúp verði áfram það mennta- og menningarsetur sem það hefur jafnan verið og styrki byggðina við Ísafjarðardjúp.