Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 16:31:00 (483)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði að við hefðum átt að nota veturinn í vetur til að finna starfseminni á Reykjanesi nýjan og öflugan farveg. Það er einmitt það sem við ætlum að gera og breytir í engu þeirri ákvörðun sem tekin var að skólinn mundi ekki starfa í vetur. Þetta ætlum við okkur að gera og ég vona að það gerist í góðu og fullu samstarfi við þingmenn Vestfirðinga og heimamenn.
    Ég hef þegar svarað því hvers vegna ég lét setja skólastjórann á launaskrá síðustu daga júlímánaðar. Ég hlaut að gera það vegna þess að ákvörðunin hafði ekki verið tekin þá um framtíð skólans. Ef ég hefði neitað að láta setja hann á launaskrá hefði ég þar með verið að gera það sem mér var alls ekki heimilt. Þessi sami maður verður skólastjóri grunnskólans í vetur og þeim sem höfðu verið ráðnir af skólanum hefur verið fundinn starfi. Það út af fyrir sig veldur því ekki neinum auknum fjárútlátum þótt ákvörðunin um að ekki yrði þarna skólahald hafi verið seint tekin. Ég er ekki að svara andsvari þó ég segi um leið að framkoman við starfsliðið var í alla staði eðlileg.