Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 16:32:00 (484)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég fer nú að þreytast á því að sitja undir ámæli og ásökunum frá þingmönnum Sjálfstfl. af Vestfjörðum fyrir það að hafa fallist á beiðni forseta þings um að sameina tvær utandagskrárbeiðnir í eina. Ef þeir eru ósáttir við það fyrirkomulag eiga þeir náttúrlega að beina gagnrýni sinni á þann sem um það biður eða forseta þingsins. Hins vegar er það greinilegt að þeir kunna ekki við að skamma sinn eigin flokksmann og ráðast þá á mig í staðinn. Ég er út af fyrir sig maður til að taka við því en ég verð að segja að það er ekki drengilega gert hjá hv. þm. Sjálfstfl. af Vestfjörðum að vera alltaf með atyrði í minn garð fyrir það að fallast á beiðni forseta sem var sett fram í því skyni að greiða fyrir þingstörfum og þar á meðal málum stjórnarliðsins. Þingflokkur Sjálfstfl. verður að eiga það við sig innbyrðis ef menn eru ósáttir hver út í annan.