Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 18:23:00 (501)

     Stefanía Traustadóttir :
     Frú forseti. Það er af mörgu að taka ef maður ætlar að ræða skólamál en ég ætla að halda mig við einn afmarkaðan þátt.
    Ein af mörgum afleiðingum þess að draga úr starfsemi, jafnvel takmarka svo starfsemi framhaldsskóla á landsbyggðinni með því að minnka fjárveitingar til þeirra eins og við sjáum t.d. núna í Menntaskólanum á Ísafirði er að þar komast að færri nemendur en vilja. Og einnig getur það haft þau áhrif að námsframboð verði mjög takmarkað þannig að þeir nemendur, sem hafa áhuga á að stunda nám, sjái ekki annan kost en að fara eitthvað annað og þá alla leið hingað suður til Reykjavíkur. Þessu fylgir að sjálfsögðu mikill aukakostnaður, fyrir einstaklingana og líka fyrir ríkissjóð ef ríkissjóður fer samkvæmt lögum.
    Það er til sjóður sem gengur undir nafninu Dreifbýlissjóður og um hann eru lög nr. 23 frá 2. maí 1989, lög um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði. 1. gr. þessara laga hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Ríkissjóður veitir námsstyrki til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrðum eða efnaleysi torveldar þeim nám, sbr. 5. gr.``
    Þessum sjóði er fyrst og fremst ætlað að styrkja nemendur sem þurfa að fara úr heimabyggð sinni til þess að sækja nám vegna þess að þeir eiga ekki annarra kosta völ. Styrkur á hvern nemanda, sem átti rétt á styrk úr sjóðnum, var á sl. ári um það bil 40 þús. kr. yfir allt skólaárið. Ef fjárlög þessa árs eru skoðuð sést að framlag ríkissjóðs til hans núna er 7% hærra en er á yfirstandandi ári og gerir það svona rétt að halda í verðhækkanir, ekki mikið meira. En nú má búast við fleiri nemendum sem eiga rétt á styrk úr þessum sjóði m.a. vegna breytinga sem verða á framhaldsskólum eins og Menntaskólanum á Ísafirði og því ætti að hækka framlög til sjóðsins. Og það má líka benda á að ef af fyrirhuguðum breytingum á Lánasjóði ísl. námsmanna verður, þess efnis að nemendur, sem stunda verknám á framhaldsskólastigi og eru yfir tvítugt, eigi ekki lengur rétt lá láni úr Lánasjóðnum eins og þeir hafa haft hingað til, ( ÓÞÞ: Eru undir tvítugu?) yfir tvítugu, nemendur, sem eru yfir tvítugt og stunda iðnnám í framhaldsskólum, hafa átt rétt á láni úr Lánasjóði ísl. námsmanna. Þetta er atriði sem virðist eiga að taka af. Ég veit að þetta gæti aukið fjölda þeirra nemenda sem eiga rétt á styrk úr námsstyrktarsjóðnum jafnvel um 15--20%. Þar að auki má benda á að ef skólagjöld verða lögð á er heimilt samkvæmt lögum um þennan sjóð að veita nemendum sérstaka styrki ef heimilisástæður og efnahagur þeirra er slíkur og er styrkveitingin þá ekki háð búsetu. Því má búast við að fjöldi þeirra sem sækja í þennan sjóð aukist verulega og þá má um leið benda á að umráðafé hans hefur lítið sem ekkert aukist.
    Þessar athugasemdir mínar, virðulegur forseti, eiga kannski frekar heima í umræðu um fjárlög, en ég tel samt að þær eigi einnig heima í þessari umræðu þó ekki væri nema til að sýna fram á hvað svona tilskipanir, sem við höfum orðið vör við úr menntmrn., geta verið vanhugsaðar og hugmyndir um sparnað og hagkvæmni í rekstri, t.d. í framhaldsskólakerfinu, geta verið skammsýnar. Það kom líka fram í orðum hv. 3. þm. Vestf. þar sem hann benti á að það muni kannski spara ríkissjóði 10 millj. að leggja niður skólann í Reykjanesi því að þessar ákvarðanir kalla á mun meiri útgjöld og þá á öðrum póstum ef á að fara samkvæmt lögum, t.d. hvað varðar dreifbýlisstyrkina. Og er ég þá ekki síður með áhyggjur af rétti ungs fólks til að afla sér menntunar því að það er ekki nóg að tala í stórum bókstöfum um jafnan rétt til náms ef möguleikum til að nýta þann rétt er svona misskipt eftir búsetu og efnahag ungmenna og foreldra þeirra.