Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 18:43:00 (505)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka öllum þeim sem tekið hafa til máls hér í dag. Ég þóttist vita að fleirum en mér lægi á að ræða skólamál. Það hefur komið greinilega í ljós. Mig langar að ræða enn á ný eða skýra betur nokkur atriði sem fram hafa komið í umræðunni.
    Ég verð að segja að mér finnst ákaflega erfitt að greina hver skólastefna núv. ríkisstjórnar er. Það er verið að

skoða ýmislegt og setja í nefndir og að mörgu leyti er ekkert nema gott um það að segja að menn skoði málin, sérstaklega þegar þeir kalla til fagfólk og skoða málin frá ýmsum hliðum. Það mætti gjarnan nefna það að ekki stendur á okkur í stjórnarandstöðunni að ræða góð mál.
    Í dag hefur mikið verið rætt um skólagjöld. Mig langar til að endurtaka það sem ég sagði í ræðu minni: Megnið af þeim gjöldum sem eru innheimt rennur til félagsstarfs nemenda. Ég skal nefna dæmi því að ég veit um hvað ég er að tala vegna þess að ég gerði ásamt fleirum mjög ítarlega könnun á þessu sem fór þannig fram að við hringdum í fjölda skóla. Í flestum framhaldsskólum er það þannig að þau innritunargjöld sem innheimt eru skiptast nokkurn veginn til helminga milli nemendasjóðs og svokallaðs pappírssjóðs sem víða gengur undir því nafni. Þessi pappírssjóður er hins vegar víðast hvar notaður til að styrkja félagsstörf nemenda.
    Ég nefni tvö dæmi. Í Kvennaskólanum í Reykjavík, þar sem ég þekki mjög vel til, voru 90% af því sem innheimt var í pappírssjóð á síðasta ári notuð í þágu nemenda. Meginskýringin á því var sú að þar var sett upp viðamikil leiksýning sem var með miklum halla og þessi sjóður greiddi þann halla. Í Menntaskólanum við Hamrahlíð fóru á síðasta ári um 70% af sjóðnum til félagsstarfa nemenda. Þar tekur hinn víðfrægi kór Menntaskólans við Hamrahlíð stærstan skerf. Þannig er þessu háttað í flestum skólum og eins og ég nefndi hér fyrr í dag fylgir mikill kostnaður bara því að innrita nemendur, senda þeim bréf með staðfestingu, kalla eftir því að nemendur staðfesti á ný. Einnig er gífurleg pappírsnotkun í skólunum sem er raunar mál sem mætti kanna út af fyrir sig, hvort ekki væri hægt að stöðva þá gífurlegu pappírseyðslu sem þar er. Það er sorglegt en satt að með tölvuvæðingu hefur pappírsnotkun margfaldast.
    Rökstuðningur ríkisstjórnarinnar fyrir skólagjöldunum er sá að þau eigi að mæta ákveðnum hluta af rekstrarkostnaði skólanna. Í framhaldi af því langar mig að nefna að á síðasta ári var rekstrarkostnaður framhaldsskólanna stórlega vanmetinn sem sést á því að nú varð að sækja um aukaframlag. Spurningin er hvort núgildandi fjárlög séu nokkuð betur unnin. Ég hef reyndar aðeins farið nákvæmlega ofan fjárhagsáætlun fyrir í einn skóla og þar virðist bæði vera reiknað með færri nemendum en eru í raun í skólanum og ekki er hægt að sjá annað en að hin ranga áætlun frá í fyrra hafi verið framreiknuð.
    Ég held að þetta sé mál sem þurfi að athuga því að ef þetta er raunin komast skólarnir ekki hjá því að innheimta þessi skólagjöld verði þau lögfest. Þá eiga þeir engra kosta völ vegna þess að framhaldsskólarnir eru yfirfullir af nemendum og það verður ákaflega erfitt að ná fram sparnaði með því að draga úr kennslu. Það er nú einu sinni svo að kennslan er lögbundin. Nemendur eiga að taka ákveðinn einingafjölda og vandinn er sá, hæstv. menntmrh., að skólarnir eru að því leyti úr takt við annað að þeirra starfsár nær til tveggja ára. Þar af leiðandi er búið að ganga frá rekstri skólanna fyrir þennan vetur. Það verður ekki hægt að fækka nemendum með tilliti til þess hvað kemur út úr fjárlögunum fyrir árið 1992. Þess vegna kemur niðurskurðurinn, sem þeir þurfa að glíma við, á haustönnina 1992. Þetta er visst vandamál sem menn verða að hafa í huga.
    Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir furðaði sig á þeim ummælum mínum að ég talaði um niðurfellingu vegna fátæktar. Ég hefði getað nefnt það hér áðan að ég þekki þess dæmi að hinn svokallaði pappírssjóður hefur verið notaður til að styrkja fátæka nemendur, nemendur sem hafa verið á framfæri Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar. Mig langar að nefna það líka að ég hef þá reynslu að baki að hafa setið í stjórn Verkamannabústaðanna í Reykjavík og það er einhver merkasta lífsreynsla sem ég hef orðið fyrir því að ég verð að játa það að ég er alin upp í svo vernduðu umhverfi ég vissi ekki að sá heimur sem ég kynntist í stjórn Verkamannabústaðanna í Reykjavík væri til. Því miður eru hér, sérstaklega innan borgarmarka Reykjavíkur, tugir, jafnvel hundruð fjölskyldna sem búa við svo erfið kjör að það munar um hvern einasta þúsundkall. Þær álögur sem verið er að leggja á með þeim fjárlögum sem nú eru til meðferðar í þinginu eru því þannig að þessar fjölskyldur munar um. Þess vegna sagði ég í ræðu minni fyrr í dag að ég vildi ekki sjá fólk í þeirri aðstöðu að þurfa að biðja um niðurfellingu. Mér finnst þetta niðurlægjandi og mér finnst að fólk eigi ekki að þurfa að standa frammi fyrir svona hlutum árið 1991.
    Ég er mjög sammála því sem fram kom í ræðu hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, að auðvitað er við viss vandamál að glíma í framhaldsskólanum en mér finnst grunnskólinn vera meira vandamál. Auðvitað leiðir eitt af öðru. Vandamál framhaldsskólans koma í beinu framhaldi af því sem við er að glíma í grunnskólanum, og ég vil enn og aftur nefna það að við erum búin að koma upp kerfi þar sem vanda grunnskólans er ýtt upp í framhaldsskólann o.s.frv. Á þessu verður að taka. Ég er innilega sammála hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur um það að tíminn í grunnskólanum er mjög illa notaður.
    Ég nefni dæmi sem ég þekki til af sjö ára gömlum nemanda sem nú er í námi hér í bæ. Hann er fluglæs, en það er verið að kenna bekknum síðari hluta stafrófsins. Ég nefni annað dæmi um nemanda sem nú er kominn upp í framhaldsskóla og sat út í horni mest alla sína grunnskólatíð við að vefa. Það vildi svo vel til að það var vefstóll inni í skólastofunni til að þeir nemendur sem löngu voru búnir að læra það námsefni sem var verið að kenna hefðu eitthvað að gera. Nú er ég ekki að tala sérstaklega um betri nemendur, en ég held að þetta skólakerfi sem við höfum í grunnskólanum þjóni mjög illa þeim sem standa illa að vígi og þeim sem standa best að vígi. Það eru ýmsar leiðir til til að leysa þetta. Ég vil taka sem dæmi að í Englandi og Skotlandi er verið að gera tilraunir með skólakerfi sem byggist upp á því að bekkir eru mjög stórir, allt upp undir 40 nemendur í bekk, en aðeins örstuttan part úr degi eru þeir saman allir 40. Það sem eftir lifir dags er stöðugt verið að taka litla hópa út úr. Einn hópurinn fer í hægferð í lestri, annar fer í hraðferð í stærðfræði o.s.frv. Með slíku kerfi er ákaflega auðvelt að fylgjast með því hverjir eiga erfitt og hverjum gengur vel. Allir eru saman en eru í mismunandi verkefnum á mismunandi hraða. Þ.e., þarna er verið að koma upp hægferð og hraðferð í sama bekk.
    Ég held að það sé eitthvað slíkt sem hugsanlega gæti leyst vanda okkar. Menn mega ekki vera of fastir í því kerfi sem hér hefur verið við lýði frá því að skólaskyldu var komið á að allir nemendur sem eru jafngamlir þurfi endilega að vera saman í námi. Við sem höfum verið að kenna í framhaldsskólum þekkjum það að þegar nemendur koma inn í framhaldsskólann eru þeir ákaflega mismunandi langt komnir í þroska og eiga ekkert endilega allir saman, jafnvel 15--16 ára gamlir. Er þetta einhver heilög regla? Mega nemendur ekki byrja fyrr, mega þeir ekki hætta seinna? Mega þeir ekki vera á þeim hraða sem þeim hentar, hvort sem um er að ræða grunnskólann eða framhaldsskólann?
    Í mínum huga er þetta ákaflega stórt mál sem vert er að skoða mjög rækilega og þarf að taka á vegna þess að ég held að því miður fari okkar skólakerfi of illa með of marga.
    Hæstv. menntmrh. nefndi það í sínum rökstuðningi fyrir breytingunum í Kennaraháskólanum að hann hefði verið að koma í veg fyrir það að reikningar væru sendir inn í framtíðina, en hér hefur komið fram að í skólakerfinu erum við óneitanlega að fjárfesta til framtíðar og of fáir skila sér til kennslu. Ég held að kennaramenntun sé að mörgu leyti mjög góð menntun sem hentar til margra starfa og þess vegna í sjálfu sér ekkert um það að segja þó að fólk fari í önnur störf. Þetta getur verið eftirsóttur vinnukraftur og nýtist vel. En ég hef þó grun um að launamál kennara skipti þar mestu máli. Þá langar mig til þess að vitna í orð Tryggva Gíslasonar, skólameistara á Akureyri, sem hann lét falla í útvarpsþætti fyrir nokkrum vikum þar sem hann sagði að ef ekki yrði gerð bót á launakjörum kennara á allra næstu mánuðum eða árum mundi íslenska skólakerfið einfaldlega hrynja. Og ég held því miður að í þessu felist mikill sannleikur því að bæði er það að gerast að kennarastarfið á öllum skólastigum er orðið heldur lítið eftirsóknarvert vegna þeirra slæmu kjara sem þar eru, og það gildir alveg jafnt um grunnskólann og Háskólann, og jafnframt hafa þessi slæmu kjör mikil andleg áhrif innan kennarastéttarinnar. Þau átök sem átt hafa sér stað milli kennara og ríkisvaldsins hafa því miður haft miklu verri áhrif en ég held að nokkur ráðamaður geri sér grein fyrir. Þarna þarf virkilega að eiga sér stað breyting.
    Hæstv. menntmrh. sagði líka að nýrri ríkisstjórn fylgdu nýjar áherslur í skólamálum. Ég er ekki sammála. Auðvitað þurfa menn alltaf að skoða hlutina og það má lengi betrumbæta. En ég held að í málaflokki eins og skólamálum þurfi að ríkja ákveðin samfella. Miklar grundvallarbreytingar í skólamálum geta haft svo afdrifaríkar afleiðingar að það getur tekið mörg, mörg ár að leiðrétta það sem rangt er gert. Þetta er viðkvæmur málaflokkur og menn eiga að hugsa vel sinn gang.
    Ég ætla að gera það að mínum lokaorðum að minna hæstv. menntmrh., eins og aðra ráðherra, á það hversu gríðarlega mikilvægt það er að horfa á þennan málaflokk eins og aðra í samhengi við þjófélagið, hugleiða hvaða afleiðingar það hefur sem gert er. Við höfum verið að ræða hér margnefndan samning um Evrópskt efnahagssvæði. Samkvæmt því sem mér skilst af þeirri umræðu eru menn að gera þar samning og vita sáralítið um afleiðingarnar og hafa lítið reynt að gera sér grein fyrir þeim. Það er ákveðin lenska hér á Íslandi að vera alltaf að stökkva út í sundlaugina og svamla í stað þess að stíga skref fyrir skref, að vísu ekki í sundlauginni en taka málin svona í skrefum. (Gripið fram í.) Það er eftir því hvernig sundlaugin er, en það er óhætt að labba út í grunnu laugina og kannski best, fara niður stigann og feta sig út í djúpu laugina. (Gripið fram í.) Það er ekki góð leið í skólamálum.
    Ég vil hvetja menntmrh. til að leita samstarfs við fólk í skólakerfinu svo og stjórnarandstöðuna og jafnframt hvetja hann til þess að hugsa vel sinn gang.