Framhald umræðu um skýrslu utanríkisráðherra um EES-samninga

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 10:50:00 (517)

     Geir H. Haarde :
     Virðulegi forseti. Aðeins örstutt. Ég tel óhjákvæmilegt að hér komi fram eins og forseti sagði að formenn þingflokka hafa fjallað um hvernig þinghaldi skyldi hagað bæði í gær og í dag. Þetta var rætt á fundi sem fram fór í herbergi forseta seint á miðvikudag áður en umræðu um skýrslu utanrrh. um efnahagssvæðið lauk. Þetta var líka rætt á fundi forseta með þingflokksformönnum í gærmorgun kl. 10. Þá lágu fyrir drög að dagskrá og skipulagi funda bæði í gær og í dag. Ákveðið var að ganga til utandagskrárumræðu um skólamál í gær sem hafði verið beðið um fyrir nokkru. Þá var líka ákveðið að hafa dagskrá fundarins í dag með þeim hætti sem nú liggur fyrir. Ég man ekki til að nokkrar athugasemdir hafi komið fram um það af hálfu neinna þeirra sem voru á fundinum. Hins vegar kom fram að það þyrfti að finna tíma til að ljúka umræðunni um Evrópskt efnahagssvæði. Vissulega er það rétt. Það bar ekki á góma sérstaklega að gera það í dag en ég tel að það væri mjög farsælt og reyndar heppilegast ef hægt væri að gera það síðdegis þegar utanrrh. getur verið hér að lokinni dagskrá fundarins sem hér liggur fyrir.