Framhald umræðu um skýrslu utanríkisráðherra um EES-samninga

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 11:02:00 (521)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram hefur komið að það náðist samkomulag þingflokksformanna um að fresta umræðunni um hið Evrópska efnahagssvæði um óákveðinn tíma. En eftir að samkomulagið var gert kom í ljós að þingmennirnir sem þátt tóku í umræðunni voru afar óhressir með að fá ekki að halda umræðunni áfram í gær eða í síðasta lagi í dag. Utanrrh. varð að hætta í miðjum klíðum og fresta ræðu sinni og átti þar af leiðandi eftir að svara mörgum þeim spurningum sem til hans höfðu borist. Það er nú svo að það eru fleiri en hæstv. utanrrh. sem þurfa að sitja á fundum út í bæ og ræða þetta mál. Það er að sjálfsögðu til mikillar umræðu í þjóðfélaginu og ekki þarf annað en fletta dagblöðum þessa dagana til að sjá að víða eru haldnir fundir. Þess vegna er brýnt að fá svör við þeim spurningum sem eftir urðu. Ég fór þess á leit við hæstv. forseta í gær að þessi umræða yrði sett á dagskrá í dag ef mögulegt yrði og það síðasta sem við vissum þegar við fórum hér út úr húsinu í gærkvöldi var að eftir því yrði leitað.
    Málið er ekki á dagskrá þessa fundar en ég vona svo sannarlega, hæstv. forseti, að það takist að fá úr því skorið hvort og hvenær utanrrh. kemur til þess að það takist að ljúka umræðunni.