Bókhald

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 11:50:00 (531)

     Halldór Ásgrímsson :
     Herra forseti. Hér er til meðferðar frv. til laga um breyting á lögum um bókhald sem gerir ráð fyrir því að breyta í nokkru vinnubrögðum í sambandi við mótun góðrar reikningsskilavenju. Þetta er afar mikilvæg venja. Það er sem sagt venja kunnáttumanna, sérhæfðra manna sem hafa nægilega menntun og þekkingu til að geta túlkað það hvað góð reikningsskilavenja er.
    Að sjálfsögðu er þetta hugtak ekki nákvæmt. Það ræðst af lögum, það ræðst af venjum, það ræðst af dómum, það ræðst af áliti ýmissa nefnda, alþjóðlegra og innlendra, og það ræðst af því sem skrifað er í fagtímarit þau sem menntastofnanir gefa út o.s.frv. o.s.frv.
    Ég sé að nú hefur Félag löggiltra endurskoðenda og ýmsir aðrir óskað eftir því að hið opinbera komi inn í mótun þessarar venju og haldi utan um hana með ákveðnari hætti en áður hefur komið fram. Ég ætla ekki að halda

því fram að ég sé andvígur því að svo sé gert. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að með þessum hætti er verið að leggja allmiklar skyldur á hið opinbera í þessu efni. Það er verið að leggja miklar skyldur á þessa nefnd, að hún sé vakandi fyrir því sem almennt er að gerast í þessum málum. T.d. er alveg ljóst að í málum sem hafa verið rekin fyrir Hæstarétti hefur verið mjög um það fjallað hvort farið hafi verið eftir góðri reikningsskilavenju í uppgjörum fyrirtækja. Viðkomandi réttur verður þá að sjálfsögðu að dæma með tilliti til þess hvort það hafi verið gert. Það er alveg ljóst að þeir sem veita þjónustu á sviði reikningshalds og endurskoðunar eru ábyrgir fyrir því að þeir hafi í frammi góða reikningsskilavenju.
    Ég hef vissar efasemdir um að það sé rétt af hinu opinbera að fara inn á allt of mörg svið samfélagsins og hef m.a. efasemdir um að það sé rétt í þessu tilviki. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra vegna þess að hér á að setja upp hóp fimm sérfróðra manna. Það skal einn tilnefndur af Félagi löggiltra endurskoðenda, væntanlega úr þeirra hópi, annar af viðskiptadeild Háskóla Íslands, væntanlega kennari í reikningshaldi við Háskóla Íslands, og þriðji af Verslunarráðs Íslands. Það má vel vera að þeir hafi sérhæfða menn á þessu sviði innan sinna vébanda. Sá fjórði skal vera ríkisendurskoðandi sem að sjálfsögðu er sérfróður á þessu sviði. En ríkisendurskoðandi fjallar fyrst og fremst um mótun góðrar reikningsskilavenju að því er varðar reikninga ríkisins og stofnana ríkisins og að því leyti kann að vera rétt að hann sé aðili að þessu ráði þótt ég hafi vissar efasemdir um það. Ég held að það sé best að blanda Ríkisendurskoðun ekki allt of mikið inn í hin ýmsu mál í samfélaginu. T.d. hef ég miklar efasemdir um að það sé rétt af ríkisstjórn að vera að panta álit á hinu og þessu frá Ríkisendurskoðun og ég hef jafnvel tekið eftir því að Ríkisendurskoðun og ráðherrar hæstv. ríkisstjórnar hafa verið saman á blaðamannafundum. Ég tel ekki vera hlutverk Ríkisendurskoðunar að mæta á blaðamannafundum með ríkisstjórninni. Ég tel að Ríkisendurskoðun sé stofnun Alþingis, hlutlaus stofnun, og mér hefur fundist að hæstv. núv. ríkisstjórn hafi ákveðna tilburði til þess að nota hana með öðrum hætti en á að gera þó að það sé að sjálfsögðu ákvörðunaratriði Ríkisendurskoðunar sjálfrar, hvort það skuli gert eður ei.
    Í síðasta lagi á væntanlega fjmrh. að skipa einn í þessa nefnd án tilnefningar. Ég vil spyrja hvað menn hafa í huga í því sambandi, hvort það sé sérfróður maður í fjmrn. um góða reikningsskilavenju, þeir eru sjálfsagt til þar þótt ég hafi svona vissar efasemdir um að þeir fjalli um það mjög mikið dags daglega.
    Þetta eru að sjálfsögðu allt saman atriði sem hægt er að ræða betur í nefnd þeirri sem fær málið til umfjöllunar og ég er ekki að gera kröfur til hæstv. fjmrh. að hann svari því sem ég hef hér sett fram. Þetta eru sjónarmið. Hér er ekki um stórpólitískt mál að ræða heldur faglegt mál sem rétt er að ræða með ákveðnum efasemdum á Alþingi. Ég veit að þeim stjórnarmönnum í Félagi löggiltra endurskoðenda mun ekki líka þessi ræða mín en það vill nú svo til að ég fékkst allmikið við það hér áður fyrr að fjalla um góða reikningsskilavenju og þetta er sagt í þeim anda en ekki vegna þess að ég sé sérstaklega andstæður því sem hér er sett á blað. En ég hef allmiklar efasemdir.