Bókhald

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 12:50:00 (538)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að forsrh. og formaður stjórnar Byggðastofnunar komi sér saman um góðar reikningsskilavenjur í Byggðastofnun og ég vil gefa þeim tækifæri til þess. En ég hafði ekki gert ráð fyrir því að það yrði farið að ræða hér og skilgreina hvað væri góð reikningsskilavenja.
    Hættan í þessu máli er einmitt ekki bara hvernig þeir sem ganga frá ársreikningum gera það heldur hvernig lesendurnir lesa þá og hvernig þeir sem fá slíkar skýrslur í hendur túlka þær. Þess vegna er að sjálfsögðu mikilvægt þegar hæstv. forsrh. biður um slíka skýrslu að hann túlki hana með frambærilegum hætti sem ég tel að hann hafi ekki gert. Ég er ekki sammála Ríkisendurskoðun í einu og öllu að því er varðar þær skýrslur sem hún hefur látið fara frá sér um hina ýmsu sjóði, þ.e. ég tel að hér sé um mjög erfitt mat að ræða. Það þarf að taka inn í það mat hver veiðin verður á næstu árum, hvernig markaðirnir verða, hvernig bankarnir munu hugsanlega starfa og hvernig ríkisstjórnin mun starfa. Það eru svo mörg óvissuatriði að það er nær ógjörningur að leggja á það algilt mat hvað kann að tapast.
    Hitt er svo annað mál að við þetta eru ákveðnar venjur og það er þær sem endurskoðendur fara eftir, m.a. endurskoðendur Byggðastofnunar, og starfa í samræmi við þær venjur sem menn hafa gert í gegnum tíðina. Ég býst

við að ef farið væri með mjög krítískum hætti ofan í reikninga ýmissa banka og sjóða og menn gæfu sér mismunandi forsendur, t.d. að því er varðar reikninga Landsbankans eða Búnaðarbankans, þá gætu menn komist að þeirri niðurstöðu að áhættan í útlánunum væri allmiklu meiri. Allt út frá forsendunum.
    Ríkisendurskoðun gerði þetta. Ég held að Ríkisendurskoðun hafi ekki verið alveg ljóst hvernig þetta kynni að verða túlkað. Því að ríkisstjórn landsins hefur leyft sér að túlka það þannig að hér hafi verið með þeim hætti bruðlað með fé skattborgaranna að þjóðfélagið hafi tapað svo og svo mörgum milljörðum og komið í fréttatíma eftir fréttatíma til að segja frá því að þarna hafi verið tapað milljarði og þarna milljarði o.s.frv. Ég vek athygli á því að öll þessi töp eru ekki komin fram. Og ég vek líka athygli á því að ýmsar aðrar stofnanir og sjóðir ríkisins og bankar eiga þarna hagsmuna að gæta. Halda menn e.t.v. að ef starfsemi Atvinnutryggingarsjóðs hefði ekki verið hrundið af stað hefði það ekkert komið við Landsbanka Íslands? Gæti það verið að ef það hefði ekki gerst að Landsbanki Íslands hefði tapað svo miklu fé . . . (Forseti hringir.) Já, virðulegur forseti, ég er alveg að ljúka máli mínu en það má áreiðanlega koma að þessu síðar. Halda menn e.t.v. ef þetta hefði ekki verið gert að Landsbanki Íslands hefði engu tapað? Er mönnum ljóst hver er eigandi þessa banka og er mönnum ljóst hvað hefur gerst í samfélögum eins og í Noregi þegar slíkir bankar hafa lagst á hliðina? Hvernig ríkissjóður þar hefur þurft að koma inn með milljarð eftir milljarð.
    Ég er sannfærður um að ef þetta hefði ekki verið gert þá hefði ríkissjóður Íslands tapað miklu meiru. Þess vegna voru menn að gæta hagsmuna ríkisins þegar þessar ákvarðanir voru teknar. Og það er með fádæmum hvernig hæstv. forsrh. hefur gengið fram fyrir skjöldu og kynnt þessi mál. Það er e.t.v. stærsta hættan að ýmsir aðilar í þjóðfélaginu nýti sér slíkar túlkanir til hagsbóta fyrir sín sjónarmið sem eru fyrir fram tekin og það hefur hæstv. forsrh. gert og ég kenni nokkuð í brjósti um Ríkisendurskoðun að hafa látið hafa sig í þetta vegna þess þeir máttu vita hvernig hæstv. forsrh. mundi túlka þeirra álit.