Lánsfjárlög 1992

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 13:42:00 (549)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1992. Með frv. er farið fram á heimildir eða hámörk á heimildir, eftir því sem við á, fyrir öllum lánum sem ríkissjóður hyggst taka eða ábyrgjast á árinu 1992. Gildir það jafnt um lántökur innan lands sem utan en til þessa hefur einungis verið leitað heimilda til að ábyrgjast erlendar lántökur annarra aðila en ríkissjóðs. Frv. er að þessu leyti víðtækara en áður. Hins vegar er nú felldur út úr því sá kafli sem til þessa hefur kveðið á um skerðingar á lögbundnum framlögum ríkissjóðs í fjárlögum. Þessi ákvæði munu birtast í sérstöku frv. sem lagt verður fram á Alþingi.
    Almennt vil ég segja um frv. að áform ríkissjóðs og annarra opinberra aðila um nýjar lántökur eru veigamikill þáttur í efnahagsstefnu stjórnvalda hverju sinni og mikilvægt tæki til að hafa áhrif á stjórn peningamála. Auknar lántökur hins opinbera þýða ekki einvörðungu versnandi skuldastöðu heldur draga þær úr svigrúmi annarra aðila til lántöku sem leitt getur til hækkunar vaxta. Hætta er því á að fjárfestingar atvinnufyrirtækja verði minni en

æskilegt er og að stöðnun verði í atvinnulífinu.
    Lánsfjárþörf hins opinbera hefur aukist verulega á undanförnum árum. Árið 1986 nam hrein lánsfjárþörf, þ.e. heildarlántökur að frádregnum afborgunum af eldri lánum, um 4% af landsframleiðslu, 1988 var hlutfallið komið í tæplega 7% og og árið 1990 í tæplega 8%. Á yfirstandandi ári eru ríkissjóður og opinberir lánasjóðir þurftarfrekari á lánsfé en nokkru sinni fyrr. Hrein lánsfjárþörf hins opinbera er áætluð um 36 milljarðar kr. á árinu 1991, eða sem svarar til 9,7% af landsframleiðslu. Lánsfjárþörf hins opinbera hefur því meira en tvöfaldast á síðustu fimm árum, eða úr tæplega 15 milljörðum kr. árið 1986 (reiknað á verðlagi 1991) í 36 milljarða kr. árið 1991.
    Hrein lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs á þessu ári er talin verða um 12,1 milljarður kr. og hrein lánsfjárþörf húsnæðislánakerfisins um 22,3 milljarðar kr.
    Árið 1991 er talið að nýr sparnaður innan lands verði um 29 milljarðar kr. eða jafnvirði 7,9% af landsframleiðslu. Nýr sparnaður hefur lækkað verulega frá fyrra ári þegar hann jafngilti 10,7% af landsframleiðslu. Lánsfjárþörf ríkissjóðs og annarra opinberra aðila á þessu ári stefnir þannig í að verða um fjórðungi hærri en áætlaður nýr sparnaður landsmanna. Þessi mikla lánsfjárþörf hins opinbera er þrátt fyrir samdráttaraðgerðir núv. ríkisstjórnar í ríkisfjármálum í maí sl. og nýlegar breytingar á reglum um húsbréfaviðskipti, þvílíkir voru þeir skuldabaggar sem fyrri ríkisstjórn var búin að binda.
    Núv. ríkisstjórn hyggst snúa þessari þróun við. Markmið ríkisstjórnarinnar er að hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs árið 1992 verði minni en 4 milljarðar kr. samanborið við 12,1 milljarð á þessu ári eins og áður var nefnt. Samkvæmt þessu verður lánsfjárþörf ríkissjóðs árið 1992 aðeins þriðjungur af því sem hún stefnir í á þessu ári eða sem svarar til 1,1% af landsframleiðslu.
    Á árinu 1993 er að því stefnt að fjárlög verði hallalaus. Þá verður dregið úr lánsfjárþörf hins opinbera þannig að hún lækki um þriðjung og verði innan við 24 milljarðar kr. á næsta ári. Áætlað er að heildarsparnaður aukist um 30 milljarða kr. á árinu 1992 og verði svipað hlutfall af landsframleiðslu og á árinu 1991. Lánsfjárþörf hins opinbera sem hlutfall af nýjum innlendum sparnaði lækkar þá verulega milli ára eða úr 125% í 80%.
    Þessi stefnubreyting er nauðsynleg ef tryggja á stöðugleika, litla verðbólgu og lægri vexti, en það er grundvöllur þess að unnt sé að byggja upp traust atvinnulíf. Það er því til mikils að vinna, ekki einvörðungu fyrir ríkisstjórnina, heldur og alla landsmenn. Á árinu 1992 er gert ráð fyrir að nýjar erlendar lántökur þjóðarbúsins til lengri tíma en eins árs verði 28 milljarðar kr. eða 5,5 milljörðum minni en 1991. Að afborgunum frátöldum er áætlað að hrein aukning erlendra lána á árinu 1992 verði 8,8 milljarðar kr. sem jafngildir 2,3% af landsframleiðslu. Hrein aukning erlendra lána þjóðarbúsins á árinu 1991 er áætluð 18,2 milljarðar kr.
    Til þess að fá raunhæfa mynd af erlendum skuldbindingum þjóðarbúsins er eðlilegt að skoða það sem kallað er hrein skuldastaða, þ.e. stöðu langra erlendra lána og skammtímaskulda að frádreginni gjaldeyriseign þjóðarinnar. Skuldastaðan sem hlutfall af landsframleiðslu hefur farið hækkandi frá 1987 og er áætluð rúmlega 48% á þessu ári. Á næsta ári er gert ráð fyrir að skuldastaðan versni enn og jafngildi tæplega 52% af landsframleiðslu. Ástæðan er fyrst og fremst sú að á sama tíma og viðskiptahallinn eykst dregst landsframleiðslan saman.
    Greiðslubyrði vaxta og afborgana af erlendum lánum þjóðarbúsins hefur upp á síðkastið verið á bilinu 7--8% af landsframleiðslu. Það jafngildir u.þ.b. 20% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Í áætlun fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að greiðslubyrðin þyngist heldur vegna mikilla afborgana af erlendum lánum og fari í rúmlega 8,5% af landsframleiðslu. Vaxtabyrðin eykst þó lítið þrátt fyrir aukna skuldsetningu þar sem á móti vegur áframhaldandi lækkun vaxta á alþjóðamörkuðum. Þannig er talið að meðalvextir af erlendum lánum lækki úr 7,9% á þessu ári í 7,5% á því næsta.
    Í frv. er að finna nokkur nýmæli frá því sem verið hefur í lánsfjárlögum síðustu ára. Þar ber helst að nefna þrennt.
    Í fyrsta lagi er frv. nú lagt fram í fyrsta sinn í samræmi við 13. gr. laga nr. 84/1985, um breytingu á lögum nr. 52/1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, sem hljóðar m.a. svo, með leyfi forseta: ,,Sé í öðrum lögum en fjárlögum og lánsfjárlögum kveðið á um lántöku og ábyrgðarheimildir skal nýting þeirra ætíð vera innan þeirra marka sem sett eru í fjárlögum og lánsfjárlögum ár hvert.``
    Framkvæmd þessa ákvæðis er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að ná tökum á lánsfjárþörf opinberra aðila. Ákvæði þetta nær til þeirra opinberu aðila sem hafa lántökuheimildir í sérlögum og taldir eru upp í 4. gr. frv.
    Í annan stað er í 6. gr. frv. nýtt ákvæði sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Fjármálaráðherra ákveður hvort lántaka samkvæmt lögum þessum fari fram innan lands eða utan, í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli.``
    Áður fyrr hafa erlendar lántökur verið skilgreindar sérstaklega í lagatexta. Tvær meginástæður liggja að baki þessu nýmæli. Annars vegar hefur frjálsræði í fjármagnsflutningum milli landa aukist og verður algjört með samningi um hið Evrópska efnahagssvæði, verði það staðfest hér á hinu háa Alþingi. Þannig geta erlendir aðilar skipt gjaldeyri í krónur og keypt spariskírteini ríkissjóðs fyrir andvirðið. Þá geta íslenskir aðilar keypt skuldabréf ríkissjóðs sem gefin eru út á erlendum mörkuðum. Þannig eru landamæri fjármagns að hverfa og nákvæm skilgreining milli innlendra og erlendra lána nánast orðin óframkvæmanleg. Hins vegar er þetta talið veita innlendum sparifjármarkaði ákveðið aðhald þar sem opinberir aðilar geta nú tekið erlend lán ef misræmi milli innlendra og erlendra vaxtakjara er verulegt.
    Þar sem ríkisaðilar eru jafnstórir aðilar á lánamarkaði og raun ber vitni er þetta eins konar trygging fyrir að vextir á Íslandi séu í einhverju samræmi við það sem gengur og gerist í okkar helstu viðskiptalöndum.
    Í fylgiskjali 3 með frv. kemur fram hvernig skipting milli innlendrar og erlendrar lántöku er áætluð miðað við núverandi aðstæður á lánamarkaði.
    Loks er nú felldur út úr frv. sá kafli sem fram til þessa hefur kveðið á um skerðingar á lögbundnum framlögum ríkissjóðs á fjárlögum. Þessi ákvæði munu birtast í sérstöku frv. sem lagt verður fram á Alþingi innan tíðar og ég nefndi í upphafi máls míns.
    Virðulegur forseti. Ég mun nú víkja að lántökum samkvæmt frv.
    Í frv. er gert ráð fyrir að heimila ríkissjóði lántöku að fjárhæð allt að 13 milljarðar kr. á árinu 1992 og er það í samræmi við greiðsluyfirlit fjárlaga. Afborganir af eldri lánum ríkissjóðs eru áætlaðar 9 milljarðar kr. þannig að hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs nemur um 4 milljörðum kr. á næsta ári ef þetta frv. og frv. til fjárlaga verða að lögum og framkvæmd samkvæmt því. Þetta er eins og áður sagði einungis tæpur þriðjungur þess sem hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs stefnir að í ár. Ber þetta vitni um þann árangur sem ríkisstjórnin hefur náð í þessum efnum.
    Stærsti hluti lánsfjárþarfar hins opinbera á næsta ári er hins vegar vegna húsnæðislánakerfisins. Í frv. er gert ráð fyrir að heimila Húsnæðisstofnun ríkisins allt að 20,2 milljarða kr. lántöku eða um 15,5 milljarða kr. umfram afborganir hennar. Það er nær þriðjungs lækkun hreinnar lánsfjárþarfar frá áætlun þessa árs. Miðað er við að ný húsbréf verði afgreidd fyrir 12 milljarða kr. að hámarki á árinu 1992 sem er um fimmtungi lægri fjárhæð en stefnir að í ár. Nýjar lántökur byggingarsjóðanna nema um 8,2 milljörðum kr.
    Áætlað er að Landsvirkjun taki lán að fjárhæð allt að 6,7 milljarðar kr. á árinu 1992. Hrein lánsfjárþörf Landsvirkjunar verður þó ekki nema 4,5 milljarðar kr. þar sem afborganir af eldri lánum nema 2,1 milljarði kr.
    Á yfirstandandi ári er hrein lánsfjárþörf Landsvirkjunar áætluð 1,7 milljarðar kr. Hér er því um verulega aukningu að ræða og stafar hún af fyrirhuguðum framkvæmdum vegna álvers á Keilisnesi.
    Þá er í frv. gert ráð fyrir að lántökur opinberra fjárfestingarlánasjóða nemi allt að 6,6 milljörðum kr. Hér er um að ræða 2,7 milljarða kr. lántöku Fiskveiðasjóðs, 1,6 milljarða kr. lántöku Iðnlánasjóðs, 850 millj. kr. lántöku Byggðastofnunar, 700 millj. kr. lántöku Stofnlánadeildar landbúnaðarins, 600 millj. kr. lántöku Iðnþróunarsjóðs og 100 millj. kr. lántöku Útflutningslánasjóðs. Áætlaðar afborganir fjárfestingarlánasjóða ríkisins nema 6,7 milljörðum kr. á árinu 1992, þannig að hrein lánsfjárþörf þeirra er neikvæð um 100 millj. kr., þ.e. afborganir af eldri lánum verða 100 millj. kr. umfram nýjar lántökur.
    Lántökuheimild Fiskveiðasjóðs hækkar um 1.550 millj. kr. frá árinu 1991. Skýringin er fólgin í breyttu skipulagi á fjármögnun skipa. Nú er sá háttur á hafður að bankar útvega útgerðaraðila lán eftir að samþykki Fiskveiðasjóðs liggur fyrir um nýsmíði eða kaup á skipum. Fiskveiðasjóður endurfjármagnar svo lánið til lengri tíma. Þess í stað er nú gert ráð fyrir að Fiskveiðasjóður láni útgerðaraðilum strax í upphafi. Þannig mun draga úr lánsfjáreftirspurn hjá bankakerfinu. Lántökuheimildir annarra fjárfestingarlánasjóða breytast minna milli ára. Þá eru ekki sett sérstök takmörk á ríkisábyrgð á lántökum Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands önnur en þau sem lög um viðskiptabanka kveða á um. Ennig vil ég taka fram að hvorki Ferðamálasjóði né Landflutningasjóði eru heimilaðar lántökur á árinu 1992 samkvæmt frv.
    Í frv. er einnig gert ráð fyrir að ríkissjóður veiti sjálfskuldarábyrgð á lántökum tveggja sjálfstæðra aðila á árinu 1992. Hér er um að ræða 400 millj. kr. ábyrgð á lántöku Herjólfs hf. vegna smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju og 500 millj. kr. ábyrgð á lántöku Vatnsleysustrandarhrepps vegna hafnargerðar fyrir væntanlegt álver á Keilisnesi.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir áformum stjórnvalda um lántökur ríkissjóðs og annarra opinberra aðila sem ríkissjóður gengst í ábyrgð fyrir. Ég mælist til þess að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til hv. fjárln. sem vísi því svo til efh.- og viðskn. til frekari umfjöllunar eins og lög um þingsköp Alþingis segja til um.