Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 17:06:00 (648)

     Páll Pétursson (andsvar) :
     Herra forseti. Ég vil gera athugasemd við ræðu hv. 2. þm. Vestf. Ég held að ekki sé ástæða til þess fyrir námsmenn að verða áhyggjulausir eða andvaralausir þrátt fyrir ræðu hv. 17. þm. Reykv. Össurar Skarphéðinssonar hér áðan. Það skiptir nefnilega ósköp litlu máli hvoru megin hryggjar hann liggur í þessu máli. Meiri hluti ríkisstjórnarinnar er það traustur, ég vil nú ekki segja traustur ég vona a.m.k. að hann sé það ekki, en hausatalan dugir til þess að koma fram lagasetningu sem skerðir hlut námsmanna hvað svo sem hv. 17. þm. Reykv. segir. Ég set mitt traust miklu fremur á gætni og skynsemi hæstv. menntmrh. því ég þekki hann að öllu góðu frá gamalli tíð. Ég veit að hann er líklegur til þess að taka sönsum og láta ekki ólma flokksbræður sína eða ólma alþýðuflokksmenn æsa sig til óhæfuverka gagnvart íslenskum námsmönnum. Ég held að við hljótum að líta á það að fjárfesting í námi er mikilvæg. Við framsóknarmenn viljum, og ég vona meiri hluti þingheims, varðveita jafnrétti til náms og það verður ekki gert nema með því að breyta þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur tekið upp eða virðist fylgja og hæstv. menntmrh. ber að vísu nokkra ábyrgð á, þ.e. skólagjöldum og skerðingu námslána.