Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 17:46:00 (654)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Hér kom staðfesting á því sem hefur svo sem áður komið fram í þessari umræðu, að ráð hv. þm. Svavars Gestssonar og ég geri ráð fyrir hans flokks við vanda lánasjóðsins sé einfaldlega að hækka ríkisframlagið. Það er alveg sama hvað það er kallað, hvort það er kallað að ríkið yfirtaki lánin eða greiði vexti, þetta er niðurstaðan. Hún er þessi og þetta er skoðun út af fyrir sig.
    Hv. þm. sagði að auðvitað hefði lánum ekki verið breytt í blóra við vilja Alþingis. Hvernig rökstyður hv. þm. þessa fullyrðingu sína? Hvernig rökstyður hann hana? Hann hlýtur að geta gert það á tveimur mínútum. Ég get ómögulega séð annað en að þessar ákvarðanir, sem voru reyndar þrjár, í ráðherratíð hv. þm. Svavars Gestssonar hafi allar verið gerðar í blóra við vilja Alþingis. Það var staðfest með fjárlögum, síðast með fjárlögum 1991, að ákvarðanir hans voru fullkomlega í blóra við vilja Alþingis og hann hlýddi ekki Alþingi með neinum hætti í sambandi við Lánasjóð ísl. námsmanna. Þetta eru alveg blákaldar staðreyndir. Ég hlakka til að heyra útskýringar á því hvernig þetta var gert í samræmi við vilja Alþingis.
    Ég var spurður hvort námsmenn yrðu með í nefndinni. Ég sagði í ræðu minni í dag að ég reiknaði með því að ég mundi kalla samtök námsmanna til starfa í þessari nefnd og ég reikna enn með því. Ég er ósköp feginn að heyra að áhugi hv. þm. Svavars Gestssonar beinist frekar í þá áttina að námsmenn fái aðild að nefndinni en Alþb. Þar erum við sammála.