Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 22:19:00 (662)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
     Forseti. Það var athyglisverð ræða hjá hv. 4. þm. Reykv. hér áðan og hann átti ekki nógu sterk orð til að lýsa því hvað þetta væri í raun og veru lítið og ómerkilegt sem lægi fyrir. Mér datt í hug að Stefán Jónsson alþm. fann upp hátt í vísnagerð sem hét slitruháttur. Það var þegar menn tættu hlutina niður í smátt og enn smærra, helst mélinu smærra. Síðan fann Óttar Einarsson kennari og mikill snillingur fyrir norðan upp nýjan hátt sem var eiginlega enn þá merkilegri, þá var rímið komið niður í einsatkvæðisorð sem heitir tætluháttur. Mér fannst sem hv. formaður utanrmn. ætti eiginlega ekki nægilega ómerkilegt orð til að lýsa því hvað þetta væri ræfilsdruslulegt sem lægi hérna fyrir.
    En ég fór nú ekki upp í stólinn til að fjalla um þetta, heldur hitt, að ég skil hv. formann utarmn. þannig að núna verði plaggið þýtt á íslensku og þá hætti menn að lesa upp ensku hér í þessum stól sem er alveg skelfilegt að hlusta á, virðulegi forseti, algjört hneyksli. Þegar búið er að þýða það, svona einhvern tímann undir jólin, þá taki utanrmn. málið fyrir og gerir breytingartillögur um hina ýmsu texta og síðan fari utanrrh. í sendiför á vegum utanrmn. niður um alla Evrópu til þess að flytja breytingartillögur frammi fyrir liðinu þar. Ég vil beina því til hv. 4. þm. Reykv. hvort þetta er ekki alveg rétt skilið hjá mér að við höfum nógan tíma og engin ástæða til að vera að æsa sig eins og hv. þm. orðaði það hér áðan.