Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 22:38:00 (666)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Herra forseti. Í tilefni af umræðum sem áttu sér stað áðan og kenna mátti við kenningar um slitruhátt og tætluhátt er kannski rétt að gefnu tilefni að fara með það sem Stephan G. segir:
                   List er það líka og vinna,
                   lítið að tæta upp í minna,
                   sífellt í þynnra þynna
                   þynnkuna allra hinna.
    Þetta er nokkuð góð lýsing á slitruhætti og jafnvel tætluhætti líka. Og af því að þetta var af því tilefni að spurt var um stöðu þessa samnings og stöðu þessa máls, og það gerði hv. 4. þm. Austurl., er rétt af minni hálfu að segja það alveg skýrt að skilningur hv. 4. þm. Austurl. á þessu máli er alveg laukréttur, eins og hann lýsti í ræðu sinni áðan. (Gripið fram í.) Að því er varðaði stöðu þessa samnings.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v. var svo elskulegur að lýsa þeirri skoðun sinni að sá sem hér stendur væri að sönnu réttorður maður, en þó vildi hann að hygginna manna hætti ekki algjörlega ábyrgjast það að honum gæti ekki skjöplast. Það er laukrétt hjá honum líka. Vissulega kann það að henda og það er sérstakt tilefni til að nefna að mér hefur skjöplast í einu atriði og vil ég biðja viðkomandi velvirðingar á því því að vissulega var það ekki að yfirlögðu ráði. Þetta varðar það að ég stóð í þeirri góðu trú að hv. utanríkismálanefndarmenn hefðu fengið í hendur íslenska þýðingu á þeim drögum að samningi sem fyrir lá á miðju sumri og enn fremur að þeir mundu einnig fá í hendur eftir nýliðna helgi íslenska þýðingu, betur unna, af samningsdrögunum eins og þau liggja fyrir þótt þau kynnu að vera ófullkomin. Þetta byggði einfaldlega á misskilningi mínum á samtali við vandfýsna embættismenn. Hið rétta er að utanríkismálanefndarmenn fengu þessi drög eins og þau lágu fyrir frá miðju sumri, ef ég man rétt, afhent í ágúst eða í byrjun september en á enskri tungu og í stað þess að dreift hefði verið drögunum, sem eru til í þýðingarmiðstöðinni, að samningnum eins og hann liggur fyrir nú varð niðurstaða þeirra að senda skrá yfir lög og reglur sem samninginn varða en ekki þessi drög að þýðingu á texta samningsins. Ég stóð í góðri trú að þetta hefði verið gert. Ég hélt einfaldlega af ummælum embættismanns að þau

drög að þýðingu sem ég hafði í höndum hefðu einnig farið til hv. utanríkismálanefndarmanna og biðst velvirðingar á því að svo var ekki. Sjónarmið þeirra var að þar sem í sjónmáli væri endanleg þýðing til afhendingar vildu þeir ekki afhenda þýðinguna í drögum þar sem hún kynni að vera ófullkomin við nánari skoðun.
    Virðulegi forseti. Það eru einkum tvö mál sem ég tel ástæðu til að staldra við til viðbótar því sem þegar hefur verið sagt af minni hálfu í þessari umræðu. Hið fyrra varðar þau drög að samkomulagi, sem er ólokið, sem varða gagnkvæm skipti á veiðiheimildum því að nokkrir hv. þm. hafa vikið að því máli og óskað eftir skýringum á því. Hið seinna varðar það sem hv. 15. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni áðan um túlkun á dómsniðurstöðum og úrskurðum frá Evrópubandalaginu, dómstól og framkvæmdastjórn, að því er varðar rétt stjórnvalda til takmörkunar ákvæða í lögum, byggt á búsetuskyldu.
    Fyrst um samninginn um skipti á veiðiheimildum. Það mun fyrst og fremst vera hv. 4. þm. Austurl. sem hefur haldið því fram fullum fetum, eins og hann orðaði það eða eins og það var orðað í fyrirsögn, að þarna sé heldur betur farið með blekkingar því að þarna hafi sigurlaunin verið greidd úr eigin vasa, eins og hann orðaði það. Hann heldur því fram að Íslendingar hafi samkvæmt samningi sínum um skiptingu loðnustofnsins milli Íslands, Grænlands og Noregs þegar notið þessara veiðiheimilda eða getað nýtt sér þær. Þetta er rangt hjá hv. þm. Staðreyndin er að sjálfsögðu sú að við höfum þennan samning og stofninum er skipt í tilteknum hlutföllum milli hinna þriggja þjóða. Í samningnum er tekið fram í 5. gr. að nái Noregur eða Grænland ekki að veiða sína hlutdeild á tiltekinni vertíð skuli Íslendingar leitast við að veiða það magn sem á vantar, en í slíkum tilvikum skal hlutaðeigandi aðili fá bætur á næstu vertíð sem nema sama magni. Með öðrum orðum, ef Ísland notfærir sér þennan rétt kemur að skuldadögum á næstu vertíð. Það er fyrsta atriðið.
    Undanfarnar vertíðar hefur loðnan haldið sér lengur innan íslenskrar lögsögu en oftast áður. Það hefur því verið torsóttara fyrir EB að veiða þá loðnu sem það hefur keypt af Grænlendingum, það er vitað og var vitað. Treysti þeir sér ekki til að veiða hana fyrir utan íslenska lögsögu er þeim, EB-mönnum, að sjálfsögðu í lófa lagið að framselja Norðmönnum veiðiheimildirnar sem geta veitt hana innan íslenskrar lögsögu fram til 15. febrúar. Þetta er nú aðalatriði málsins, hið fyrra. Það hefur ekki verið um það að ræða að Íslendingar hafi veitt úr kvóta Grænlendinga til þessa. Það hefur alls ekki verið um það að ræða. Öll veiði Íslendinga hefur verið innan íslenska kvótans. Fullyrðingar um að þessar veiðiheimildir, allt að 30 þús. tonn, hafi Íslendingar nýtt sér nú þegar eru því ekki réttar.
    Loks ber þess að geta að sá samningsrammi sem lagður hefur verið fram um þetta mál byggir á fullri gagnkvæmni. Þetta er 10 ára rammasamningur og síðan endurskoðaður frá ári til árs. Fari svo af einhverjum ástæðum, hvaða ástæðum sem er, að ekki verði unnt að veiða þessi allt að 30 þús. tonn af loðnu, falla hinar gagnkvæmu heimildir um veiðar á allt að 3.000 tonn af karfaígildum einfaldlega niður. Nú er því við að bæta að þetta er ekki fullfrágenginn samningur. Frá því hefur verið skýrt oftar en einu sinni í hverju tilboð Íslendinga fólst. Það er ekki inni í EES-samningnum. Það er tvíhliða samningur við EB. Forsendur þess eru fríverslunarsamningurinn frá 1972, bókun 6, þar sem var að finna skuldbindingu um að halda áfram viðræðum með það að markmiði að gera slíkan samning. Ég hirði ekki um að rifja upp hversu oft tilraunir hafa verið gerðar til þess af hálfu íslenskra stjórnvalda en þær eru nokkrar.
    Af hálfu Íslendinga var þetta tilboð um það að við værum reiðubúnir til að láta af hendi allt að 3.000 tonn karfaígilda gegn því að fá í staðinn allt að 30 þús. tonn af loðnu. Í raun og veru er hér ekki um jafngild skipti að ræða af þeirri einföldu ástæðu að samkvæmt íslenskum reiknireglum, sem Hafrannsóknastofnun notast við, eru 3.000 tonn í

karfaígildum ígildi 15.600 tonna af loðnu. Ástæðan fyrir því að Evrópubandalagið bauð allt að 30 þús. tonn af loðnu var sú að þeir misskildu tilboðið og töldu að hér væri verið að ræða um þorskígildi. Þetta eru því ekki slétt skipti, sem einu sinni var frægur frasi, heldur er hér um að ræða veiðiheimildir til Íslendinga í staðinn sem eru 10--15 þús. tonn af loðnu umfram það sem Hafrannsóknastofnun metur ,,slétt skipti``.
    Af Íslendinga hálfu var tilboðið á þann veg að á grundvelli þessara viðmiðunarmarka um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum skyldi EB-ríkjum heimilt að veiða innan íslenskrar lögsögu allt að þessu marki. Það var tiltekið að útiloka þar tiltekin skip, bæði frystiskip og verksmiðjutogara. Það var bundið leyfum fyrir hvert einstakt skip og fjölda skipa. Það var bundið á hvaða tímabilum og í hvaða hólfum þessi veiði mætti fara fram og það var bundið því að íslenskir eftirlitsmenn væru um borð á kostnað Evrópubandalagsins.
    Lokaatriðið var síðan það að fái Íslendingar ekki í sinn hlut það sem í boði var á móti er gagnkvæmni samningsins m.a. í því fólgin að þá falla niður þessar heimildir til veiða á allt að 3.000 tonnum af karfaígildum. Að halda því fram að hér sé ekki um gagnkvæm skipti að ræða er rangt. Það er fyrra atriðið.
    Síðara atriðið varðaði þann skoðanaágreining sem uppi hefur verið varðandi heimildir stjórnvalda til þess að setja þrengjandi reglur sérstaklega að því er varðar réttinn innan fjármagnssviðsins til kaupa á hlunnindajörðum. Í því efni var deilan aldrei uppi um að það væri óheimilt að setja þrengjandi reglur sem byggðu á mismunun á rétti gagnvart ríkisborgararétti. Það hefur aldrei verið um það að ræða. Það liggur alveg ljóst fyrir að mismunun að því er varðar þessi mál er óheimil. Reglurnar verða að vera með þeim hætti að þær nái með sama hætti, almennum hætti, til allra. Það er margbúið að lýsa því hvernig þetta mál þróaðist, hvenær það var sem Evrópubandalagið í þessum samningum hafnaði óskum EFTA-ríkjanna um sértæka fyrirvara í þessu efni og hver voru viðbrögð EFTA-ríkjanna. Það gerðist tiltölulega snemma á samningsferlinum í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Niðurstaðan varð sú að höfðu samráði innan EFTA-ríkjanna að reyna að leysa þetta með breytingum á lögum og reglum á vettvangi hvers EFTA-ríkis. Þeim tilmælum var beint til þáv. landbrh. í fyrri ríkisstjórn um að hann beitti sér fyrir því að setja slík þrengjandi ákvæði í lög og það er líka kunnugt að hann hafnaði því og hann hefur sjálfur gert grein fyrir því hvers vegna það var.
    Þá sögðu menn hins vegar: Það er ástæða til þess að ætla að Evrópubandalagsdómstóllinn geti hnekkt rétti aðildarríkja EES-samningsins til þess að setja slíkar þrengjandi reglur. Og það sem ég hef vitnað til er einfaldlega þetta: Við höfum skoðað hliðstæð mál og í því efni hef ég vitnað til tveggja dómsniðurstaðna, þ.e. að því er varðar Írland og Grikkland og síðan til úrskurðar framkvæmdastjórnar. Það má gagnrýna að það hafi ekki verið nægilega nákvæmt að tala um úrskurði og dóma í staðinn fyrir dómsniðurstöður en ég bendi á að um er að ræða að því er varðar Danmörku úrskurð sem birtist í bréfi framkvæmdastjórnar sem svar við fyrirspurn þingmanns. En hvað er þessi framkvæmdastjórn? Þessi framkvæmdastjórn er eftirlitsaðilinn með þessum reglum. Það er rétt að nefna í því samhengi að hv. 14. þm. Reykv. hefur vitnað til þess að hún hafi heyrt efasemdaraddir í Danmörku og menn hafi jafnvel sagt: Það er mikil umræða í dönskum blöðum um þetta. Já, já, það er mikil umræða um þetta, hefur verið mikil umræða og það hefur verið sagt frá því að einhverjir danskir starfsmenn við dómstólinn hafi látið í ljós efasemdir. Hér er hins vegar um að ræða að því er varðar Danmörku, svo að það sé alveg skýrt, úrskurð í því máli frá eftirlitsstofnun EB sem hefur eftirlit með þessum reglum og því næst er um að ræða dómsniðurstöður að því er varðar Grikkland og Írland. Dómsniðurstöður um það? Ekki um að það sé heimilt að setja reglur sem mismuna þegnum á

grundvelli þjóðernis. Því hef ég aldrei haldið fram. Það hefur aldrei verið spurningin, heldur hitt, það sem var verið að vefengja var þetta: Getur ákvörðun stjórnvalda í einu landi um það að setja varnaglaákvæði eða þrengingarákvæði, t.d. um búsetuskyldu eða nýtingarkvöð, verið hnekkt af dómstólnum? Það var um þetta sem var verið að deila vegna þess að þegar menn sögðu: Það er ekki víst að þessar girðingar haldi, það er ekki víst að þær séu fullnægjandi og þar að auki gæti það komið til að þeim yrði hnekkt með dómsniðurstöðu.
    Nú er á það að líta að á því er reginmunur --- eins og aðilar að fyrrv. ríkisstjórn hafa verið óþreytandi að lýsa sameiginlegri afstöðu sinni á, t.d. gerðu það sá sem hér stendur og hv. form. Alþb., mjög rækilega á fundi uppi í háskóla seinast í dag og við höfum gert það oft áður --- það er reginmunur á því hvort um er að ræða ríki sem er aðildarríki EB eða samningsaðili að EES-samningnum. Án þess að fara nánar út í þá sálma af því að ég hef gert það svo oft áður, það er óþarfi, þá er á þessu reginmunur. Þá væri fyrsta athugasemd lögfræðings sú að Evrópubandalagsdómstóllinn, sem hefur miklu víðtækara verksvið og meira valdsvið heldur en EES-dómstóllinn, hefur almennt haft tilhneigingu til þess að túlka svona mál mjög rúmt með vísan til markmiðs Evrópubandalagsins sem er yfirlýst að stefna að þróun sambandsríkis. Slík túlkun á auðvitað alls ekkert við um EES-samninginn. Hann hefur engin slík markmið að geyma. Og það er ekkert sem segir að niðurstaða Evrópubandalagsdómstólsins byggð á slíkri túlkun með tilliti til markmiðssetningar EB hafi nokkurt gildi að því er varðar úrskurð EES-dómstóls. En að því slepptu er einfaldlega um þessa einföldu spurningu að ræða.
    Þessir dómar snerust um að hnekkja þrengingarákvæðum laga. Var þeim hnekkt? Svarið við því er nei. Þeim var ekki hnekkt. Það stendur í öllum þessum tilvikum að stjórnvöld í þessum ríkjum hafa sett þrengingarákvæði, þar á meðal um búsetukvöð og í öðrum tilfellum um nýtingarkvöð sem reynslan síðan leiðir í ljós að þrengir rétt erlendra aðila án þess að brjóta mismununarregluna í þessum efnum og tryggir stöðu stjórnvalda til þess að hafa stjórn á þeim hlutum.
    Nú geta menn samt sem áður sagt sem svo: Við höfum efasemdir um að þetta haldi. Menn geta auðvitað í slíkum hlutum haft uppi mismunandi túlkun. Menn geta lýst efasemdum. En við þetta er síðan einu öðru að bæta af því að menn hafa verið að lýsa því yfir lon og don að fyrirvarar sem settir voru í upphafi séu fallnir þrátt fyrir þá staðreynd að fyrirvarinn um að leyfa ekki veiðiheimildir í staðinn fyrir tollaívilnanir stendur, þrátt fyrir þá staðreynd að fyrirvarinn um að heimila ekki fjárfestingu erlendra aðila í útgerð og fiskvinnslu stendur, þrátt fyrir þá staðreynd að öryggisákvæði og yfirlýsing Íslands að því er varðar innflutning vinnuafls, þ.e. rétt stjórnvalda til íhlutunar þar að eigin mati, stendur. Og þrátt fyrir þá staðreynd að núverandi skipan orkubúskapar á Íslandi brýtur ekki í bága við EES-samninginn og það þarf ekki að breyta neinu þess vegna. En jafnframt hafa menn látið í ljósi efasemdir um það samt sem áður að breytingar síðar, annaðhvort hér innan lands eða innan EB, gætu leitt til þess að því er varðar t.d. orkulindirnar að eignarhald okkar væri ekki nægilega tryggt. Á það reyndi líka í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og það var rætt. Á það reyndi hér í þingstörfum í tengslum við frv. sem hv. 4. þm. Austurl. flutti hið þarfasta mál, og þá vísa ég til þess erindis sem hæstv. þáv. iðnrh. sendi iðnn. Alþingis til fyrirgreiðslu og miðaði að því að eyða óvissu í íslenskri löggjöf að því er varðar eignarhald á orkulindum.
    Það er öllum vel kunnugt hvernig það fór. Það strandaði í þingnefnd og fyrst og fremst vegna andstöðu þingmanna Framsfl. Ef menn hafa einhverjar efasemdir og telja að þessi óvissa að því er varðar innlend lög sem snerta orkulindirnar sé varasöm upp á framtíðina er hægt að eyða þeirri óvissu og taka af öll tvímæli um það með því að setja löggjöf á Íslandi sem kveður á um það að eignarhald á almenningum utan bújarða sé þjóðareign og að orkulindirnar samkvæmt nánari skilgreiningu séu þjóðareign. Það brýtur ekkert í bága við EES-samninginn, tekur af öll tvímæli, eyðir allri óvissu að því er varðar nýtingu erlendra aðila á orkulindunum og þar með talið vatninu. Það stendur í stefnuyfirlýsingu núv. hæstv. ríkisstjórnar að þetta skuli gert.
    Virðulegi forseti. Fyrir utan framsöguræðu mína og tvær ræður sem hafa verið til þess að svara hv. þm., spurningum og ábendingum sem fram hafa komið, þá sé ég í raun og veru ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð mín fleiri. Hv. 2. þm. Suðurl. spurði enn um forræði íslenskra stjórnvalda að því er varðar land og hlunnindajarðir. Ég er margbúinn að svara því að því er varðar fyrirætlanir íslenskra stjórnvalda og stöðu þess máls. Sama er að segja að því er varðar fjárfestingarfyrirvarann í sjávarútvegi sem er orðaður á þá leið að fjárfestingar og réttur til stofnunar fyrirtækja í þessari grein, íslenskum sjávarútvegi, lýtur íslenskum lögum. Það þýðir: Er utan samningssviðsins, er utan við lög og reglur Evrópubandalagsins sem lúta að hinni sameiginlegu fiskveiðistjórnun, fer að íslenskum lögum, núverandi lögum svo lengi sem þau gilda. Það er á valdi íslenskra stjórnvalda að setja þau lög. Einfaldara getur það ekki verið.
    Það er sífellt verið að tala um að þessi samningur hafi ekkert með að gera samstarf EFTA-ríkja og Evrópubandalagsríkja á Evrópska efnahagssvæðinu að því er varðar samstarf í menntamálum og skólamálum. Ég er margbúinn að svara því hvernig þetta mál er vaxið og hirði ekki um að endurtaka það, vísa bara til þess sem þegar hefur fram komið en vil benda á minnisblað frá menntmrn. sjálfu, minnisblað um stöðuna varðandi samstarf á sviði rannsókna, þróunar og menntamála og læt mér nægja það til áréttingar málinu að vitna hér í eina málsgrein, með leyfi forseta, þar sem segir af hálfu menntmrn.:
    ,,Komi til þess að samningurinn um EES gangi í gildi án aðildar Íslands virðist blasa við að Íslendingar lokist fljótlega úti frá samstarfi innan EES, m.a. á sviði rannsókna og þróunar og menntamála.``
    Að öðru leyti held ég að við bætum okkur ekkert á því að endurtaka fyrri svör. Við erum búin að fara yfir allt þetta mál út frá matinu á lagalegum reglum og stofnunum. Spurningar um fullveldi þjóðarinnar, spurningar um afsal á fullveldi, afsal á sjálfsforræði, afsal á löggjafarvaldi, afsal á framkvæmdarvaldi, afsal á dómsvaldi, öllum þessum spurningum og álitamálum hafa verið gerð skil af minni hálfu þannig að ég hef engu við það að bæta. Og ég hef ekkert heyrt í þeim ræðum sem hafa verið haldnar í kvöld sem gefa mér neina ástæðu til þess að endurtaka þau svör.
    Að því er varðar mat á þeim hagsmunum og þeim hag, sem einstakar greinar telja sig hafa af þessum samningi, er úr því hér er komið sögu einfaldast að vísa því máli til forsvarsmanna helstu atvinnugreina. Nú síðast hafa samtök iðnaðarins birt þjóðinni niðurstöður sínar í því efni sem heita ,,Íslenskur iðnaður og Evrópskt efnahagssvæði`` og kom út fyrir nokkrum dögum, rösklega gert. Að því er varðar sjávarútveginn t.d., þá hafa forustumenn sjávarútvegsins tíundað það rækilega þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka neitt þar.
    Eitt atriði, sem fram kom í máli hv. 4. þm. Austurl., er ástæða til að minnast á. Hann vék að því orðalagi í texta samningsins þar sem lýst er áformum og góðum vilja um pólitískt samráð milli aðila og vitnaði til annarra um að þar með væri þetta orðið að blönduðum samningi og að mér skildist samningi annars eðlis en áður hefði verið. Ég vil bara láta þess getið að samsvarandi ákvæði var þegar í lýsingu á samningssviðinu eins og því var lýst í lok undirbúningstímans á ráðherrafundi í lok desember 1989 þannig að þetta ákvæði er ekki einu sinni nýtt.
    Þá er þess einnig að geta að svokallaða þróunarklausu eða ákvæði er ekki unnt að

túlka eins og hv. 4. þm. Austurl. vildi leyfa sér. Ef hann skoðar orðalagið þá er hún merkingar- og meiningarlaus, þ.e. hún er án allra skuldbindinga. Vissulega þýðir hún það að aðilar ræða saman en ræða saman samkvæmt því sem þar er nánar skilgreint t.d. að því er sjávarútvegsmálin varðar, á grundvelli fiskveiðistefnu hvers aðila um sig og gagnkvæmra hagsmuna. Það er einmitt alveg ljóst af því hvernig þessi grein var orðuð að þar var hafnað óskum Evrópubandalagsins um að binda þarna inn einhverja tilvísun, t.d. til vaxtar og viðgangs fiskstofna sem gæti gefið til kynna að það væru einhverjar umræður þarna um auknar veiðiheimildir. Því máli er lokið, þeirri umræðu er lokið af okkar hálfu.
    Virðulegi forseti. Af minni hálfu hef ég ekki fleiri athugasemdir eða svör að gefa að því er varðar þessa umræðu, enda er hún orðin mjög ítarleg og hefur staðið lengi. Það sem fram undan er er síðan frekari vinnsla þessa máls sem mun fara fram með eðlilegum hætti á vettvangi Alþingis í utanrmn. Eins og ég sagði áður eru samningsdrögin sjálf til í einhvers konar ófullburða drögum í íslenskri þýðingu. Embættismenn treysta sér ekki á þessu stigi máls til þess að nefna ákveðna dagsetningu hvenær unnt verði að afhenda íslensku þýðinguna, en hin staðfesta enska gerð samningstextans getur væntanlega legið fyrir innan einhverra daga og að því er stefnt eins og fram hefur komið að aðalsamningamenn geti sett stafina sína á þann texta sem táknar þá að samanburði og yfirlegu yfir orðalagi sé lokið þannig að þar sé kórréttur texti sem hefur hins vegar ekki þjóðréttarlega skuldbindingu í för með sér, svo að ég taki það fram fyrir hv. formann utanrmn.
    Að því er varðar næsta skref er það að sjálfsögðu að ljúka þýðingu texta samningsins á þjóðtungur allra aðildarríkja. Það mun taka einhvern tíma og engin ástæða er til þess að draga úr því að allur er þessi kynningar- og staðfestingarferill langur og ítarlegur. Að því hefur verið vikið hvort nú liggi fyrir verklýsing, skulum við segja, á því hvernig með þetta mál verði síðan farið að öðru leyti, þ.e. fyrir utan það að leggja fram sjálfan samninginn og fylgiskjöl hans til umfjöllunar og afgreiðslu á Alþingi og í nefndum Alþingis. Hefur verið dreginn upp listi yfir þau fylgifrumvörp sem óhjákvæmilega þurfa að fylgja málinu? Svarið við því er nei, sá listi liggur ekki fyrir enn. Að því er unnið að reyna að draga upp slíkan lista. Hins vegar er við því að búast að einstök mál í formi lagafrumvarpa, sem þurfa að fylgja þessum samningi og þurfa umfjöllunar Alþingis við, verði flutt að frumkvæði þeirra ráðuneyta sem stýra viðkomandi málaflokkum. Með öðrum orðum hér þarf að fara fram mikið samræmingarstarf milli ráðuneyta í stjórnkerfi Íslands. Ef menn spyrja um tímann sem við höfum til stefnu, þá er hann vissulega langur, enda málið viðamikið. Að því hefur alltaf verið stefnt sem markmiði að hafa lokið formlegri staðfestingu þessa samnings þannig að hann geti örugglega komið til framkvæmda í ársbyrjun 1993. Frá og með því að raunveruleg og nákvæm umfjöllun um samningstextann sjálfan getur hafist og fylgisfrv. hans, þá höfum við þennan tíma til stefnu. Það er jafnframt sá tími sem við höfum til stefnu frá því að hið pólitíska samkomulag tókst til þess að kynna málið rækilega. Það hlýtur að gerast á margvíslegum vettvangi. Það gerist ekki einfaldlega með almennri kynningu á fundum utanrrh. Það gerist t.d. með því að embættismenn, ekki einasta utanrrn. heldur annarra ráðuneyta, sem öll hafa með einum eða öðrum hætti komið að þessu máli og átt hlutdeild að einhverju nefndarstarfi á samningssviðinu, munu gefa kost á sér til þess að skýra einstök atriði samningsins, einstök svið hans fyrir þeim hópum sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta og þess óska. Reyndar eru slíkir fundir þegar hafnir að ósk ýmissa hagsmunaaðila.
    Jafnframt fer fram mikið kynningarstarf óháð stjórnvöldum á vettvangi samtaka atvinnulífsins, á vettvangi samtaka launþega og það er í framhaldi af því starfi sem þau hafa þegar unnið. Mín lokaorð eru því þau, virðulegi forseti, að við höfum nægan tíma til stefnu þó hitt sé jafnljóst að við þurfum að nýta þann tíma vel og vandlega.