Samráðsfundir forseta og formanna þingflokka

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 13:36:00 (681)

     Páll Pétursson :
     Frú forseti. Í Morgunblaðinu í dag birtist á miðopnu blaðsins grein eftir hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason. Þar segir á einum stað, með leyfi forseta:
    ,,Um þingstörfin er ráðgast við stjórnarandstöðuna á samráðsfundum, sem forseti Alþingis efnir til með formönnum þingflokkanna fimm. Er reglulega efnt til slíkra funda í viku hverri og einnig þegar tilefni gefast endranær. Er mælt fyrir um þessa fundi í þingsköpum. Þarna er farið yfir stöðu þingmála og framgang þeirra. Þetta er vettvangurinn, sem

stjórnarandstaðan hefur til áhrifa á störf þingsins. Hins vegar`` --- og bið ég nú hv þm. að taka eftir --- ,,hefur verið upplýst í umræðum í þingsalnum að ekki hafi reynst unnt að treysta því, sem menn töldu niðurstöðu á slíkum samráðsfundi forseta með þingflokksformönnum. Þá alvarlegu brotalöm má rekja til stjórnarandstöðunnar.``
    Hér er um mjög alvarlegar ásakanir að ræða. Hér er ekki einhver geðvondur nöldrari eða þráhyggjumaður að létta á sér á síðum Morgunblaðsins. Hér skrifar alþingismaður sem Sjálfstfl. hefur tekið ábyrgð á að hefja upp í forsetastól á Alþingi og kjörið sem varaformann þingflokksins.
    Ég mun ekki liggja undir þeim rógburði sem fram er settur í grein hv. 3. þm. Reykv. Ég mótmæli því harðlega að þeim samningum sem ég geri fyrir hönd þingflokks framsóknarmanna sé ekki treystandi. Ég ligg ekki undir því að ég svíki samninga.
    Í 72. gr. þingskapa er kveðið á um samráð forseta og formanna þingflokka og ég vil lesa þessa 72. gr., með leyfi forseta:
    ,,Forseti skal hafa reglulega samráð við formenn þingflokka, eða fulltrúa þeirra, um skipulag þingstarfa og leggja fyrir þá til umfjöllunar starfsáætlun þingsins og áætlanir um þingstörf hverrar viku.
    Enn fremur skal forseti hafa samráð við formenn þingflokka um fyrirkomulag umræðna um mikilvæg mál ef ætla má að umræður verði miklar.
    Forseti skal sjá um að þingflokkum og einstökum þingmönnum innan þeirra sé búin starfsaðstaða og hafa um það samráð við formenn þingflokkanna. Sama gildir um þingmenn utan flokka.``
    Ég hef undan engu að kvarta um samskipti við frú forseta. Hún hefur sýnt lipurð og sanngirni í samskiptum okkar, en vegna þess að einn af varaforsetum Alþingis hefur opinberlega ráðist að mér og öðrum þingflokksformönnum stjórnarandstöðunnar með svikabrigslum, þá krefst ég þess að þeir samráðsfundir sem ég kann að sitja það sem eftir lifir þessa þings verði bókaðir vandlega, tæknimönnum Alþingis verði falið að taka þá upp á segulband og þeir verði síðan bókaðir orðréttir, en niðurstöður og samþykktir sem gerðar kunna að vera á slíkum fundum verði bókaðar strax og undirritaðar af viðstöddum fundarmönnum. Samráðsfundirnir verði ekki haldnir á skrifstofu forseta svo sem verið hefur, heldur annars staðar í húsakynnum Alþingis, annaðhvort í nefndaherbergjum í Þórshamri eða í fundarsal í Vonarstræti 12.
    Frú forseti. Þetta vildi ég láta koma hér fram.