Samráðsfundir forseta og formanna þingflokka

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 13:56:00 (687)

     Össur Skarphéðinsson :
     Virðulegi forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson orðar það svo að hér sé allt í uppnámi varðandi þingstörf. Ég hef ekki þá reynslu til að bera að geta borið saman þinghald á þessu ári og fyrri ára, en mér virðist hins vegar sem mál gangi hér furðuseint fram. Mér virðist sem þingheimur sé nú tekinn af nokkrum glímuskjálfta og ég tel satt að segja að það sé kominn tími til að menn reyni með einhverjum hætti að vinna sig fram úr þessari stöðu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að ná sem bestu samstarfi milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég hef sem formaður þingflokks reynt að sinna því, ég hef reynt að hafa sem best samstarf við aðra þingflokksformenn og ég hef, sem formaður nefndar, líka reynt að vinna að því að hafa sem best samstarf milli meiri hluta og minni hluta í þeim nefndum sem ég hef ítök í. Þess vegna tel ég að það sé mjög mikilvægt að við reynum með einhverjum hætti að ná þessum skjálfta úr taugakerfinu og reynum að setjast niður og fara að vinna hérna. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þingflokksformenn og forseti geti haft samstarfsvettvang þar sem menn geta rætt málin í trúnaði. Ég tel að sú skýring sem hv. 3. þm. Reykv. gaf hér á sínum skrifum sé fyllilega réttmæt og hann raunverulega hafi skýrt þau mál sem hv. 1. þm. Norðurl. v. tók hér upp. Þess vegna vil ég í fyllstu vinsemd fara fram á það við þingflokksformann Framsfl. að hann endurskoði sínar óskir því að ég tel að það sé mikilvægt að þingflokksformenn og forseti hafi vettvang þar sem þeir geti ræðst við af nokkurri vinsemd, nokkurri einlægni og í trúnaði.