Iðnráðgjöf á landsbyggðinni

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 10:38:00 (710)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Frú forseti. Eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda, hv. 4. þm. Austurl., var sú breyting gerð með lagabreytingu á síðasta þingi að iðnráðgjöfin á landsbyggðinni var flutt frá iðnrn. til Byggðastofnunar. Þetta var einkum gert til þess að leggja áherslu á það að iðnráðgjöfin breytist að lögum í almenna atvinnuráðgjöf, eins og hún reyndar hefur verið, og til þess að treysta sambandið við Byggðastofnun og útibú hennar þar sem eru að sjálfsögðu margvíslegar upplýsingar sem koma atvinnuráðgjöfum á landsbyggðinni að gagni. Að mínu áliti er þetta líka til þess að marka þá stefnu að fjármagn Byggðastofnunar sé nýtt til jákvæðrar uppbyggingar í landshlutunum fremur en til þess að bjarga gjaldþrota fyrirtækjum.
    Á þessu ári hefur verið samkomulag um það milli iðnrn. og Byggðastofnunar að þessi ráðgjöf væri sem næst í óbreyttu formi, enda hafði iðnrn. á þessu ári fjárveitingu á fjárlögum til að kosta hana. Í samræmi við lagabreytinguna frá því í vor fór iðnrn. auðvitað ekki fram á fjárveitingu til að kosta starf ráðgjafanna á fjárlögum árið 1992, en

Byggðastofnun gerir ráð fyrir kostnaði við þetta starf í sínum fjárhagsáætlunum fyrir árið 1992.
    Eins og sjá má í fjárlagafrv. nemur tillaga um fjárveitingu til stofnunarinnar 200 millj. kr. Kostnaður við atvinnuráðgjöfina á landsbyggðinni er innifalinn í þessari fjárhæð. Ég bendi á að í upphaflegum tillögum stofnunarinnar var gert ráð fyrir að atvinnuráðgjöfin væri með 20 millj. kr. fé í fjárhagsramma Byggðastofnunar og iðnþróunarfélögin með 15 millj. Ég bendi líka á að það má ætla að á þessu ári sé launakostnaðurinn við útibúið á Akureyri um 8 millj. kr., við útibúið á Ísafirði um 6,5 millj. kr. Þetta er ekki heildartala fyrir þennan kostnað. Ég lít á þetta allt sem atvinnuráðgjöf og tel að með þessum orðum hafi verið gerð fyrir því grein hvernig ríkisstjórnin ætlar að tryggja fé til þessarar nýtu starfsemi.
    Málið er ekki í óvissu eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda.